c

Pistlar:

22. nóvember 2016 kl. 9:10

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Töfrar

Það er alveg merkilegt hvað haustmisserið er fljótt að líða. Einhvern veginn þá byrjar október og svo búmm... bráðum jól. Ég er svo heppin að mér finnst myrkrið notalegt og þegar jólaljósin koma upp gleðst ég eins og krakki. 

Þegar ég var að alast upp í Keflavíkinni, þá komum við fjölskyldan í sérferð til Reykjavíkur þegar komið var fram í desember til að skoða jólaútstillinguna í Rammagerðinni. Þar var jólasveinn sem stóð upp og settist í glugganum- rafknúin jólasveinn. Þetta vakti þvílíka kátínu og ljóma hjá okkur eldri systrunum að þá máttu jólin koma þegar þessi ferð hafði verið farin. Búandi í Keflavík þá mátti sjá hvar kanarnir bjuggu því jólaljósin og jafnvel tré voru komin upp í byrjun desember. Allir aðrir skreyttu á þorláksmessu. Mér varð hugsað til þessarar ferðar (ég veit þetta var á síðustu öld), þegar ég hljóp um miðbæinn í bær til að hitta vinkonur mínar í kaffi. Ljósadýrðin og alls staðar svo fallega skreytt. Ég varð eins og hver annar ferðamaður og fór að taka myndir uppnumin af birtunni en stoppaði sjálfa mig þegar ég var farin að taka myndir af Hallgrímskirkju. 

Í fyrra fórum við hinu megin á hnöttinn og áttum dásamlega tíma með vinum okkar í Ástralíu og Abu Dabi. Jólin voru haldin á ströndinni, þó að við ættum mjög hátíðlega stund heima líka. En það var sól, strönd og hiti. Einmitt vegna þess að við fórum í burtu einu sinni þá er ég kannski að missa mig yfr ljósunum og birtunni núna. Alveg eins og það þarf myrkrið til að kunn að meta ljósið. Þarf þjáningu til að þekkja gleðina, þarf óhóf til að kunna að meta hófið.

Við erum á hröðum snúningi í íslensku þjóðfélagi í dag, maður finnur að við erum farin að draga andan aðeins grynnnra. Á þessum árstíma er svo auðvelt að fara inn í allt sem þarf "að gera." Blessunarlega þá er það víst þannig að flestar þær kröfur koma frá okkur sjálfum. Það þarf ekkert að gera - bara vera og fara í bæinn (hvar á landinu sem er) og njóta þess að horfa á ljósin eins og barn sem stendur með nefið fast á glugganum í Rammagerðinni og dáist að undrinu. Töfrar aðventunar eru hvergi eins sterkir eins og á Íslandi því við lýsum svo vel upp myrkrið og ljósið lýsir hverja sál.