c

Pistlar:

29. nóvember 2021 kl. 12:20

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Hvað má læra af því að dansa flamenco?

Ég brá mér til Spánar á haustmisseri þar sem ég dvaldi við skrif í hinni fögru Granada. Til þess að liðka mig og standa upp frá tölvunni skráði ég mig í tíma í flamenco dansi. Ég mætti í íþróttaskóm og hækkaði meðalaldur um alla vega þrjátíu ár. Senjorítan sem kenndi mér talaði enga ensku en leit á skóna mína með líkamstjáningu sem var mjög skýr. Mér varð ljóst að í flamincó mætir maður ekki í íþróttaskóm, alvöru senjorítur mæta í háum hælum, í skóm sem hægt er að smella niður hæl og tá. Spænskar senjorítur fundu upp kynþokka, held ég svei mér þá.

Hver tími hófst á því að hreyfa fingurnar í tíu mínútur og síðan handleggi og svo fætur. Vandræði mín voru að reyna að hreyfa saman hendur og fætur. Flamenco sem UNESCO hefur nýlega sett á lista yfir menningararf heimsins er flókið form ljóðlistar, söngs og gítarspils og dans og ekki síst klapps og fótastapps og hrópa. Enginn veit hvaðan nafnið flamenco kemur en flestir eru sammála um að uppruninn sé í Andalusíu eða suður Spáni.

"Fuerte!" hrópaði senjorítan þegar við stöppuðum niður hælum og sló upp höndunum á sér. Ég reyndi að gera þetta eins ákveðið og ég gat en einhvern veginn voru hendur og fætur ekki alltaf í sama takti. Senjortían nálgaðist mig, leit ströng á mig og lét mig klappa taktinn. Hún leit á mig og sagði stolt " í flamenco stjórna dansararnir taktinum, laginu og línunum." Lagið, rymðinn og flæðið fer eftir dansaranum en ekki öfugt. Það var sem hún segði að á Spáni stjórnuðu konurnar lífstaktinum sjálfum.  

Þess vegna verður flamenco dansari að vera í góðum tengslum við sitt "duende". Duende er hægt að þýða sem ástríðu, flæði eða innri neista sem við öll höfum. Eftir að dansari hefur dansað í um 10 til 15 mínútur sagði skáldið  Federico García Lorca, sem var frá Granada, að dansinn yrði "as los sonidos negros" eða að þá kæmu hin svörtu hljóð fram, það sem býr innst í myrkvum okkar. 

Mér tókst ekki að finna mitt duende í dansinum til þess þarf maður margra ára þjálfun alveg eins og í öllu öðru. Hins vegar er ég að æfa mig í háum hælum, setja rósir í hárið og óræðu augnaráði, rauðum kjólum og stórum slæðum og að slá karlmenn út af laginu. Allt þetta hefur hver einasta spænska senjoríta í litla puttanum á sér. Norræni takturinn er aðeins öðruvísi í Birkenstokk skónum....

Á aðventunni von mín að þú finnir þitt "duende" í myrkrinu og einhver veginn finnst mér að við þurfum öll á því að halda að setja smá "Fuerte" í hlátur og gleði, kátínu og daður og taka einn dans í viðbót þó að það sé bara í stofunni heima með köttinn sem mjálmar á kantinum og sérrí í glasi, hæll, tá... og jóla duende.