c

Pistlar:

24. desember 2015 kl. 4:03

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Gleði- og friðarjól

kertaljo_769_s_1274696.jpgÞað styttist í að jólin verði hringd inn og fjölskyldur og vinir sameinist í kringum hátíðarborð til að njóta góðra rétta og svo við jólatréð til að deila gjöfum sín á milli. Undanfarið hafa gengið póstar á Facebook þar sem fjallað er um þá staðreynd að margir eiga um sárt að binda um jólahátíðina. Minn skilningur er sá að margir eigi um sárt að binda allt árið, en það verði kannski meira áberandi um jólin, þegar við viljum að gleði og friður umvefji okkur.

Við getum samt alltaf valið hvaða viðhorf við höfum til þessarar hátíðar. Eins og hjá mörgum öðrum hafa bæði góðar og slæmar minningar tengst mínum jólunum í gegnum tíðina, en ég hef valið að halda í þær góðu og sleppa því að rifja upp hinar slæmu.

Jólin tengjast tveimur mjög áhrifamiklum atburðum í lífi mínu. Ég fæddi eldri son minn Guðjón á aðfangadag fyrir rúmum fjörutíu árum síðan. Þetta var einhver magnaðasta stund í líf mínu og jólahátíðin, sem alltaf hafði verið einstök, fékk nýtt og aukið gildi. Gleðin og þakklætið fyllti huga minn og á hverju ári eftir það hef ég getað kallað þá tilfinningu fram og glaðst yfir fæðingu jólabarnsins míns.

Sumir ákveða að koma inn í lífið um jól, aðrir að kveðja það. Eiginmaður minn heitinn Guðlaugur Bergmann ákvað að kveðja það um jól fyrir ellefu árum síðan. Jólahaldið brenglaðist það árið og næstu jól á eftir fundum við svo sannarlega að mikilvægan aðila vantaði í heildarmynd fjölskyldunnar. En við kveiktum á kerti fyrir hann og rifjuðum upp góðar minningar frá fyrri jólum sem við gátum öll glaðst yfir. Við gátum ekki kallað hann til baka, en við gátum valið að muna allt það besta frá fyrri jólum með honum.

Mín ósk er sú að við getum öll átt gleði- og friðarjól innra með okkur, því ef við leitum vel er alltaf hægt að finna eitthvað til að gleðjast yfir. Og sé friður innra með okkur er það í raun eini friðurinn sem við getum skapað. Njótið hátíðarinnar með ljós í hjarta og huga, því jólin eru jú eftir alltsaman hátíð ljóssins.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira