c

Pistlar:

16. desember 2016 kl. 9:05

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Rjómi á rjóma ofan

Við erum á fullri ferð inn í rjómatímabilið mikla. Rjómaís, rjómatertur, rjómasósur og rjómaeftirréttir eru nú þegar víða á boðstólum og ekki minnkar úrvalið þegar jólin verða hringd inn, né heldur í þá þrettán daga sem þau standa. Sumir fagna þessu rjómatímibili með gleði og hamingju í huga, en aðrir láta hugann hvarfla aðeins neðar í líkamann með kvíða um að rjóminn valdi þeim alltaf vanlíðan í maga og reyndar öllum meltingarveginum. Þeir síðarnefndu eru væntanlega með mjólkuróþol eða -ofnæmi, hvort sem þeir hafa gert sér grein fyrir því eða ekki.

Það eru ótrúlega margir sem þjást af mjólkuróþoli eða -ofnæmi, en þar sem erfitt er að greina slíkt, líður fólk oft mjög lengi fyrir það án þess að finna skýringuna, en endar svo kannski á því að greina sig sjálft eins og talið er að um 70% geri

Samkvæmt blóðflokkamataræðinu sem Dr. Peter D’Adamo náttúrulæknir hefur rannsakað mikið og skrifað um, ættu hvorki þeir sem eru í O- eða A-blóðflokki að neyta mjólkur eða mjólkurafurða. Sú skipting í blóðflokka nær yfir um 70% íslensku þjóðarinnar.

ALGENGASTA OFNÆMIÐ
Kúamjólk er ein helsta orsök ofnæmisviðbragða hjá ungum börnum og er í fyrsta sæti í flokki þeirra átta fæðutegunda sem valda 90% ofnæma hjá börnum. Hinar sjö eru egg, jarðhnetur, trjáhnetur, soja, fiskur, skelfiskur og hveiti.

Hægt er að skipta einkennum mjólkurofnæmis í þrjá flokka, eftir því hvar einkennin koma fram, hvort heldur er hjá börnum eða fullorðnum. Exemviðbrögð við mjólkurvörum birtast oft sem psoriasisútbrot hjá fólki á öllum aldri.

HÚÐ: Kláði og rauð útbrot; exem; ofsakláði; dökkir baugar í kringum augun; munnangur; bólgnar varir, munnur, tunga, andlit eða háls.

MELTINGARVEGUR: Kviðverkir; kviðkrampi; þaninn kviður; niðurgangur; loft í þörmum; ógleði; uppköst.

ÖNDUNARFÆRI: Nefrennsli; stíflur í nefi; hnerri; vot eða rennandi augu; kláði í augum; hósti; más eða erfiðleikar með að anda; mæði; síendurtekið „kvef“; kinnholubólgur.

Vísindamenn hafa nú skilgreint fjórða flokkinn, sem kallast ATFERLI, og sett eftirfarandi einkenni undir hann: Síþreyta, mígreni, ofvirkni (ADHD), pirringur, svefnerfiðleikar og aumir vöðvar og liðamót.

Kannski fylgir ekki eins mikill ljómi rjómatímabilinu og við höldum stundum. Alla vega ekki fyrir heilsuna okkar, enda verða mjög margir veikir í janúar – og þá er spurningin, hvers vegna?

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira