c

Pistlar:

1. febrúar 2017 kl. 12:33

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Burnirót, oft kölluð "gullna rótin"

canstockphoto26103522.jpgÍ náttúrulækningum er burnirótin oft kölluð “gullna rótin” en hún vex á köldum norðlægum slóðum og háum fjöllum Asíu og Austur-Evrópu. Í bætiefnahillum verslana er líklegt að þú sjáir glösin merkt með heitinu Rhodiola, eða Rhodiola rosae sem er latneska heiti rótarinnar.

Svíar kalla burnirótina gjarnan “viagra norðursins”, en ásamt því að auka kynorku fólks, styrkir hún ónæmiskerfið, dregur úr neikvæðum áhrifum streitu á líkamann og styrkir geðheilsuna. Burnirótin hentar því vel til inntöku yfir vetrarmánuðina, en einmitt þessa dagana er hægt að kaupa sér Rhodiola frá NOW með 25% afslætti í verslunum Nettó.

HELSTU EIGINLEIKAR BURNIRÓTARINNAR
Burnirótin (rhodiola) er öflugt náttúrulegt adaptógen (skv. orðabók: efni sem styrkir mótstöðuafl líkamans gegn streitu). Hún tilheyrir fjölskyldu plantna sem búa yfir adaptógenum og geta því hjálpað líkamanum að aðlagast líkamlegri, kemískri og umhverfislegri streitu en burnirótin talin sú öflugasta innan þessarar fjölskyldu.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að í burnirótinni sé að finna fimm virk líffræðileg efni, þ.e. rosin, rhodioloside, rosarin, salidroside og tyrosol. Eitt þessara efna, salidroside, er virkt andoxunarefni sem dregur úr áhrifum öldrunar.

Á sínum tíma notuðu víkingarnir burnirótina (rhodiola) til að efla líkamlegan styrk sinn og Sherparnir notuðu hana þegar þeir þurftu að klífa há fjöll, meðal annars Mt. Everest. Á síðustu 70 árum hafa Rússar mikið nýtt sér eiginleika burnirótarinnar til að bæta vinnuafköst, koma í veg fyrir svefnleysi, þreytu, þunglyndi og til að auka úthald íþróttamanna.

BURNIRÓTIN EYKUR FITUBRENNSLU
Einn af frábærustu eiginleikum burnirótarinnar (rhodiola) er að hún hjálpar líkamanum að brenna uppsafnaðri fitu og umbreyta í orku. Rosavin örvar virkni ensíms sem kallast hormónanæmur fitukljúfur (lípasi) og getur brotið niður fitu sem safnast hefur í kviðinn. Rannsóknir hafa sýnt að sé burnirótin notuð samhliða léttri líkamsrækt örvast niðurbrot kviðfitunnar enn frekar.

BURNIRÓTIN VEITIR ÍÞRÓTTAMÖNNUM AUKIÐ ÚTHALD
Burnirótin (rhodiola) eykur þol og úthald með því að fjölga rauðum blóðkornum. Rauð blóðkorn flytja súrefni til vöðvanna og með því að hafa meira magna f þeim, má verulega örva getu íþróttamanna og draga úr þreytueinkennum. Þessir eiginleikar burnirótar virka ekki bara vel á þá sem eru íþróttamenn, heldur á alla sem taka hana inn, hvort sem vinnustaður þeirra er heimavið, á skrifstofu, í verksmiðju, á sjó eða í námi.

Ég hef farið fjórum sinnum sem fararstjóri til Perú og Bólivíu og er á leið í mína fimmtu ferð til Perú í haust. Nokkru fyrir hverja ferð byrja ég að taka inn burnirót (rhodiola) og tek hana inn meðan á ferð stendur, en í þessum ferðum fer ég yfirleitt hæst í rúmlega 4000 m hæð. Burninrótin auðveldar mér að takast á við þynnra loft og minna súrefni og komast að mestu hjá hæðaveiki.

BURNIRÓT DREGUR ÚR ÞUNGLYNDI OG EFLIR STARFSEMI HEILSANS
Einn enn stórkostlegur eiginleiki burnirótarinnar (rhodiola) er að hún eflir heilbrigði heilans og er vörn gegn þunglyndi. Burnirótin eykur næmi taugafrumna (frumna í heilanum og taugakerfinu), þar á meðal taugaboðefnanna tveggja serótóníns og dópamíns. Þessi taugaboðefni eru þekkt fyrir að bæta fókus, minni, ánægjutilfinningar og létta lund, auk þess sem dópamínið dregur úr fæðufíkn.

Sumir læknar sem stunda heildrænar lækningar (functional medicine) hafa farið að mæla með burnirót fyrir þá sem eru greindir ADD og ADHD, þar sem rótin býr yfir þeim eiginleikum að efla fókusinn.

Í þessari grein hef ég einungis farið yfir hluta af því sem burnirótin getur gert fyrir heilsuna, því hún er líka talin góð til að lækka slæma kólesterólið og hafa góð áhrif á skjaldkirtilinn. Það er því vel þess virði að taka reglulega 3-4 mánaða kúr með burnirót, sem er lágmarkstími sem taka þarf inn bætiefni til að þau skili einhverjum árangri. Burnirótin hjálpar þér að styrkja og efla andlega og líkamlega líðan.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

Heimildir: www.draxe.com og www.globalhealingcenter.com

Mynd með grein: Can Stock Photo /rezkrr

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira