Pistlar:

11. ágúst 2013 kl. 12:38

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Með súrefnisskort í "spanx" heilgalla

Beyoncé Knowles ákvað að taka síðsumarið með stæl og klippti sig stutt í vikunni. Hún var varla komin út af hárgreiðslustofunni þegar hún var búin að pósta mynd af herlegheitunum á Instagram... eins og konur gera þegar þær gera eitthvað mjög róttækt og merkilegt. Ef við „grömmum“ ekki þá gerðist það ekki eða svo er sagt í minni sveit.

Söngkonan sem skartað hefur flottustu Hollywood-krullum síðustu ára getur nú vaknað á morgnana, farið í sturtu og greitt hárið aftur og ætti þessi athöfn ekki að taka meira en 20 mínútur (með hárþvotti). Það er þó ekki vitað á þessari stundu hvort hún lét lokkana fjúka vegna tímaskorts eða hvort þetta var bara til þess að vera töff. Á næstunni mun það koma í ljós hvernig henni tekst að keyra upp skvísuganginn með drengjakollinn. Hún er náttúrlega svo ógurlega smart eitthvað að það á pottþétt eftir að takast hjá henni eins og svo margt annað í lífinu. Efast ekki eina mínútu.

Stutta hárið á Beyoncé á væntanlega eftir að hrista upp í komandi hártísku þar sem hún hefur hingað til flokkast sem tískufyrirmynd. Kona með þessa hæfileika ætti að geta fengið allar heimsins guggur til að vilja verða stuttklipptar...

Það fer ákveðnum konum afar vel að vera stuttklipptar en því miður sér maður allt of oft misheppnaða drengjakolla. Tala nú ekki um þegar búið er að aflita herlegheitin og ýfa upp í hnakkanum... Þá brestur alltaf eitthvað í Smartlandshjartanu.

Robin Wright, sem fór með hlutverk Claire Underwood í þáttunum House of Cards sem sýndir voru á RÚV á dögunum, var eitursvöl með sitt stutta ljósa hár enda var það ræktarlegt, blásið og vel klippt. Það er þó ljóst að hárið eitt og sér gerði hana ekki að þessum afbragðstöffara heldur hafði það líklega meira með geðslag að gera. Til að pakka þessu inn í réttu umbúðirnar var hún höfð í níðþröngum kjólum, alltaf, nema þegar hún var í rúminu og fór út að hlaupa.

Ég væri sko þokkalega til í að vera alltaf í svona kjólum í vinnunni en fyrrnefndum klæðnaði fylgja ákveðin vandamál – þess vegna klæðast venjulegar konur yfirleitt bara svona fötum spari. Ég óttast mest að ég fengi varanlegan súrefnisskort ef ég væri alltaf í svona þröngum kjólum á skrifstofunni... En það er líklega vegna þess að ég þyrfti að vera í „spanx“ heilgalla undir til að lúkka vel sem myndi kremja í mér innyflin. Krömdu innyflin myndu skerða súrefnisflæðið upp til heilans og þar af leiðandi myndi hann ekki ná að starfa eðlilega. Nógu erfitt er nú undir venjulegum kringumstæðum að láta allt virka „eðlilega“ ... þannig að ég má alls ekki við því!

Marta María Jónasdóttir

Marta María Jónasdóttir

Fréttastjóri dægurmála á mbl.is, martamaria@mbl.is Meira