Pistlar:

10. nóvember 2013 kl. 2:06

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

"Alltaf með" (eins og Ástþór)

Í vikunni sat ég morgunfund Félags kvenna í atvinnurekstri, FKA, þar sem rætt var um ósýnileika kvenna í fjölmiðlum. Þar var vísað í könnun sem Creditinfo gerði fyrir FKA en þar kom í ljós að í ljósvakamiðlum voru karlar tvöfalt fleiri en konur þegar kom að viðtölum. Hlutfallið skánaði eitthvað pínulítið þegar bornar voru saman tölur úr spjallþáttum en þó var munurinn ennþá mikill. Könnunin fór fram á tímabilinu 1. febrúar 2009 til 30. ágúst 2013 og var heildarfjöldi viðmælenda yfir 100.000. Þessar tölur eiga reyndar ekki við mitt Smartland þar sem konur eru í aðalhlutverki allan sólarhringinn - alla daga ársins.

Jafnréttisumræðan snýst mjög oft um það að konur komist ekki að fyrir feðraveldinu. Auðvitað er það alveg hárrétt enda hefur sagan ekki sýnt að fólki séu rétt völd – fólk hrifsar þau til sín (eða réttara sagt – karlar hrifsa þau til sín). Þeir sem hafa völdin gera auðvitað allt til að halda þeim – því það er bara hluti af mannlegu eðli. Til þess að breyta þessu þurfa konur að komast til valda í stjórnmálum og þær þurfa að fá peningavöld. Það er líklega ekkert skrýtið að flestir fréttatímar séu fullir af körlum þegar forsetinn er karl, flestir forstjórar stórfyrirtækja eru karlar ásamt formönnum stærstu stjórnmálaflokkanna.

Þótt karlarnir séu fyrirferðarmeiri í ljósvakamiðlum er því miður ekki eingöngu hægt að kenna feðraveldinu um það. Það er að hluta til okkur sjálfum að kenna því það er eins og við séum ragari en bræður okkar við að tjá okkur.

Flestar konur vilja hafa allt á hreinu áður en þær fara í viðtöl því það alversta sem gæti gerst er náttúrlega að þær myndu segja einhverja bölvaða vitleysu. Auk þess er stór hópur kvenna upptekinn af því að taka „nú alls ekki þátt í neinum fíflagangi“. Sem minnti mig á það að á ferlinum hef ég oft fengið þau svör, þegar ég óska eftir viðtali við konu og að fá ljósmynd af henni, að það henti nú ekki alveg því viðkomandi fari í strípur í næstu viku. Þegar þessi næsta vika kemur er „mómentið farið“. Á ferlinum hefur karlmaður aldrei frestað myndatöku vegna hárlitunar og aldrei beðið um að sjá myndina áður en hún birtist. Þeim virðist einhvern veginn vera alveg „drullusama“. Og þá spyr ég, hefur það komið þeim í koll? Nei!!!

Ég elska varaliti og fín föt en við megum ekki vera svo hégómlegar að láta það stoppa okkur í að stíga fram og komast til valda. Indra Nooyi, forstjóri Pepsico, sem er ein valdamesta kona heims, sagði á fundi í Þjóðleikhúsinu í síðustu viku að við ættum að sýna meiri tilfinningar og leyfa okkur að vera eins og við erum. Þá velti ég því fyrir mér hvort það sé ekki farsælast fyrir okkur að tala alltaf frá hjartanu og láta vaða. Auðvitað þurfum við stundum að glugga í einhverjar skýrslur en ef við höfum skoðanir á málunum þá hljótum við að geta rætt það við blaðamenn líkt og fólkið í kringum okkur.

Ég mæli með því að konur venji sig á að segja alltaf þegar þær eru beðnar um að koma í viðtal. Þú veist aldrei hvert Já-ið á eftir að leiða, því lífið er dálítið þannig að eitt leiði af öðru og svo fram eftir götunum. Ég grínast stundum með það að ég sé eins og Ástþór – „alltaf með“ ... Það hefur reynst ágætlega ...

Marta María Jónasdóttir

Marta María Jónasdóttir

Fréttastjóri dægurmála á mbl.is, martamaria@mbl.is Meira