c

Pistlar:

1. apríl 2015 kl. 9:56

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Tepokarnir sem komust ekki á netið

Eitt af heillasporunum í lífinu var stigið þegar ég flutti í miðbæinn og fór að venja komur mínar á Kaffifélagið við Skólavörðustíg. Fyrir utan það að bjóða upp á eitt besta kaffið á höfuðborgarsvæðinu sogar þetta kaffihús til sín hóp af smörtu fólki sem lætur sko ekkert framhjá sér fara. Þess vegna kom það ekki á óvart að ég væri rukkuð um brjóstamynd þegar ég mætti kappklædd í mínum staðalbúnaði, brjóstahaldara og aðhaldssokkabuxum, á fimmtudagsmorguninn. Við erum nefnilega orðin svo náin eitthvað þarna á kaffistéttinni.

Ég útskýrði fyrir þeim að heimurinn yrði líklega ekkert skárri þótt tútturnar á mér kæmust á internetið. Tútturnar á konu sem hefur verið með tvo drengi á brjósti í samtals átta ár eiga afar lítið erindi á internetið – jafnvel þótt málstaðurinn sé góður.

Á Skólavörðustígnum spunnust auðvitað hressilegar umræður um brjóst. Einn sagði frá því að konan hans, sem er þekkt leikkona, hefði sleppt því að setja myndir af sér á netið þar sem allir gestir Kaffibarsins væru líklega búnir að sjá á henni brjóstin. Hún átti það nefnilega til á einu hressilegasta skeiði lífs síns að rífa sig úr að ofan þegar gleðin stóð sem hæst á Kaffibarnum. Maðurinn hennar sagði að stundum hefði hún fengið frían bjór þegar hún gerði þetta og hló.

Karlpeningurinn á kaffistéttinni var ekki alveg að skilja þetta túttuvesen, en þeir játuðu eftir smá vangaveltur að þessi fimmtudagur hefði líklega verið einn besti dagur internetsins fyrr og síðar. Hvaða maður segir nei við brjóstamyndum af konum – mögulega enginn.

Ég skildi hvað þeir voru að fara. Vandamálið er bara að ég hef ekki alveg jafnmikinn áhuga á brjóstum og karlpeningurinn. Öll unglingsár mín hataði ég þessa sístækkandi hnullunga sem létu eins og þeir væru í lyftidufti og var staðráðin í því að fara í brjóstaminnkun um leið og ég yrði fullorðin (sem gerðist formlega í vikunni þegar ég náði 38 ára aldrinum).

Á þessum árum var ég ekkert að tengja brjóstastærðina við holdafarið enda hefðu brjóstin líklega verið mun nettari ef kroppurinn hefði verið í kjörþyngd en það er önnur saga. Á meðan allar skinkur sokkabandsáranna voru í sjokköpp-sokkabuxum og wonderbra var ég í brjóstahaldara sem ýtti brjóstunum niður. Svo virkaði alltaf mjög vel að vera bara frekar hokin í baki því þá virkuðu brjóstin minni. Á stundum var líka gott að fela sig í stórum og víðum peysum.

Þegar ég hafði loksins efni á brjóstaminnkuninni voru synir mínir búnir að soga þetta allt í burtu. Þetta „vandamál“ leystist því tæknilega séð af sjálfu sér og ég sparaði í kringum 500.000 krónur.

Sem sönn vinkona bauð ég kaffivinum mínum náttúrlega upp á þann valmöguleika að ég myndi fletta upp um mig þarna á stéttinni því ekki getur þessi 38 ára kona verið þekkt fyrir tepruskap. Þeir afþökkuðu boðið og ég pantaði mér bara annan latte.