c

Pistlar:

13. október 2015 kl. 10:24

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Með ómögulegheitasvip

gucci.jpgHaustverk smáhestsins eru af ýmsum toga. Fyrir utan að láta járna sig fyrir haustið gerir hann eitt og annað sér til skemmtunar og dægrastyttingar. Eitt af haustverkunum þetta árið var að grandskoða komandi tískustrauma. Stundum er ágætt að vita hvað næsta „season“ býður upp á. Ýmist til þess að geta undirbúið sig betur fyrir komandi árstíð eða til þess að koma í veg fyrir ægileg tískuslys. Sagan segir nefnilega að ef haus smáhestsins er ekki alveg nógu vandlega skrúfaður á getur hann stigið feilspor og látið hvatvísina fara með sig í ógöngur.

Svona smáhestar verða að vita hvernig þeir eiga að sperra sig án þess að verða sér til skammar. Eftir að hafa legið yfir myndum úr myndabanka AFP og skoðað myndskeið af vorlínunni frá GUCCI 2016 var smáhesturinn við það að fá væga áfallastreituröskun. Ómögulegheitasvipurinn var við það að festast á andlitinu og gott ef hann var ekki kominn með öran hjartslátt af geðshræringu.

Ómögulegheitasvipurinn er þekkt fyrirbæri hjá miðaldra konum. Þær sem féllu ekki í líffræði vita að líkaminn er eitt af hönnunarundrum veraldar fyrir utan einn smávægilegan hönnunargalla. Upp úr miðjum aldri fer nánast allt á líkamanum að síga. Andlitið sígur, brjóstin síga, maginn sígur, rassinn sígur, hnén síga og svo stækkar nefið og eyrun ef viðkomandi er mjög heppinn.

Verst er þó að munnvikin síga niður á við og eiga það til að festast með gucci2.jpgfyrrnefndum ómögulegheitasvip – það er að segja ef sá sem stjórnar þessu musteri sem líkaminn er gerir ekki eitthvað á hverjum degi sem ýtir vörunum upp. Hægt er að þjálfa varnir og gera æfingar daglega sem stuðla að minnkun á ómögulegheitasvip en viðkomandi þarf að vera mjög meðvitaður til þess að æfingarnar virki.

Ómögulegheitasvipurinn er eitt, en svo er líka annað sem gerist með aldrinum. Fólk verður hömlulausara því ellin gerir það að verkum að allir stopparar sem fólk notar grimmt á fyrri hluta ævinnar minnka til muna. Þetta gerir það að verkum að eldri spariguggur og smjörbobbar missa stundum eitthvað út úr sér sem hefði ekki gerst fyrr á lífsleiðinni (áður en hrörnunin hófst).

Smáhestinum leið pínulítið eins og hann væri kominn á þennan stað þegar fúkyrðaflaumurinn muldraðist út úr honum fyrir framan tölvuna þegar þessar blessuðu GUCCI myndir voru skoðaðar. Smáhesturinn er nefnilega ennþá mjög mikill aðdáandi GUCCI þótt hátískumerkið minni stundum óþægilega mikið á allan plebbisma síðasta góðæris þar sem allir og amma þeirra voru merktir með GG mónógraminu.

Ef smáhesturinn hefði ekki vitað betur hefði hann haldið að um sérstakan trúarflokk væri að ræða sem spásseraði um samfélagið sérmerktur. Og að litapalletta GG mónógramsins hefði einhverja stórkostlega merkingu, brúnt fyrir þá heiðarlegu og svart fyrir skussana...eða eitthvað!