Pistlar:

1. mars 2016 kl. 14:00

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Hér kem ég!!!

Eftir langt og strangt tímabil þar sem svarti liturinn hefur ráðið ríkjum taka blómamunstur, „ethnic“ og grafísk munstur við í öllu sínu veldi. Íslenska konan krossleggur auðvitað hendur og herpir saman varirnar því hún heldur því auðvitað fram að hún geti sko ekki klætt sig svona. „Maður verður náttúrlega eins og fíll í dótabúð,“ segir spariguggan og fer í svart frá toppi til táar því það er svo ógurlega grennandi...

Það þarf engar doktorsgráður í sjónvísindum til þess að sjá að þetta eru úreltar pælingar. Litir, það er að segja ef þeir eru notaðir rétt, geta gert svo mikið fyrir heildarmyndina sem svartur getur aldrei framkallað – alveg sama hvað við reynum. Réttir litir keyra upp lífsgleðina, geta lyft andanum upp og þyngt ánægjuvogina svo um munar. Svo er það einfaldlega þannig að þegar konur eru komnar í „rétta“ litinn sem passar við þeirra húðlit þá líta þær svo miklu betur út og enginn er að pæla í einu kíló hér eða öðru kílói þar. Það þarf auðvitað ekki að nefna það en auðvitað eiga konur að lifa lífi sínu þannig að þær þurfi ekki að fela sig inni í fötum – þær eiga að rétta út faðminn, vera beinar í baki og segja hátt og skýrt við heiminn: „Hér kem ég!“

Ef konur eru umkringdar neikvæðu fólki, sem talar þær niður og heldur því fram að þær séu ekki nógu góðar, er bara eitt ráð. Og það er að skipta um lið og umvefja sig fólki sem er statt á sama stað í tilverunni. Það er gert til að tryggja að þær geti haldið partíinu áfram í stað þess að verða bitrar og leiðinlegar.

Ef konur ætla að mastera blómamunstrin eða „ethnic“-munstrin skiptir höfuðmáli að vita hvaða líkamspart ber að leggja mesta áherslu á og velja sér kjóla út frá því. Þær sem eru beinar í vextinum geta valið sér víða beina kjóla en þær sem eru með þrýstinn rass og mitti ættu að velja sér blómakjól sem er tekinn saman í mittið eða farið í pils og blússu úr svipuðu efni. Svo má alltaf skella á sig einu belti til að búa til mitti eða leggja áherslu á mittið.

Bæði sumarlína Dolce & Gabbana og Chanel sýna hvernig hægt er að nota þessi trend á sjarmerandi hátt. Slæður koma líka sterkar inn fyrir vorið enda passa þær aldeilis vel við alla blómakjólana.

Smáhesturinn var staddur í Stokkhólmi í vikunni þar sem hann drakk í sig heitustu tískustrauma og stefnur. Hann fór meðal annars á glæsilega tískusýningu Indiska sem haldin var í Berns, sem er í hjarta Stokkhólms. Á þeirri sýningu sást afar vel hvernig leika má sér með munstur og liti og hvernig konur verða eins og gyðjur í síðum maxi-kjólum með böndum og dúskum.

Maxi-kjólar og sandalar eru kannski ekki það sem við erum að vinna með akkúrat þessa stundina í snjónum og slabbinu en góðu fréttirnar eru að einhvern tímann kemur vor og sumar og þá verður sko gaman. Áður en hitastigið hækkar og allt það er hægt að fara í munstur við munstur, klæða sig í þykkar sokkabuxur innanundir og smeygja sér í há stígvel. Bugun er nefnilega aldrei í boði – allavega ekki hjá forystukonum.

Marta María Jónasdóttir

Marta María Jónasdóttir

Fréttastjóri dægurmála á mbl.is, martamaria@mbl.is Meira