c

Pistlar:

11. júní 2016 kl. 10:56

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Heróínfylltar lakkrísreimar

Stundum hugsa ég með mér hvað lífið væri frábært ef ég væri karl. Ef ég væri karl væri ég alltaf ótrúlega ánægður með allt sem ég gerði. Ef enginn hefði orð á því hvað ég byggi yfir miklum yfirburðum myndi ég til dæmis sjá til þess að láta alla í kringum mig vita hvað ég væri töff. Og absalút hvað fæðing mín inn í þennan heim hefði mikil áhrif á söguna í heild sinni.

Ég hjólaði í öll verkefni og efaðist aldrei um hvort ég gæti gert A, B eða C. Ég myndi láta heiminn vita að ég væri meistarinn meðan ég sperrti út á mér brjóstkassann og fengi mér annan bjór.

Mér varð hugsað til þess á dögunum þegar ég fékk beiðni frá konu/stelpu um að eyða út mynd af henni af Smartlandi Mörtu Maríu. Konan/stelpan tjáði mér að hún liti út fyrir að vera allt of södd á myndinni. Þetta var allt rugl og átti ekki við nein rök að styðjast. En ... eftir að feitabollumyndin birtist af mér á um það bil hálfsíðu í Morgunblaðinu árið 1999 veit ég hvernig konum líður þegar þær lenda í þessum agalegu aðstæðum og því svaraði ég full af skilningi og ýtti á „eyða“ hnappinn í kerfinu. Eftir að hafa unnið í fjölmiðlum í bráðum tvo áratugi er ég hætt að kippa mér upp við svona beiðnir. Þær fæ ég í tíma og ótíma, á öllum tímum sólarhrings. Ef ég væri ekki með símann á „silent“ á nóttunni myndi ég ekki sofa fyrir ófriði af þessum toga.

Á ferlinum minnist ég þess varla að hafa fengið slíka beiðni frá karlmanni, nema kannski með einni undantekningu. Ef mig misminnir ekki var ég einu sinni beðin um að eyða út mynd af karli sem hafði mætt alveg flottastur á þorrablót Stjörnunnar og fengið bakþanka þegar rann af honum. Mögulega sást kannski pínulítið að hann var ekki að fara keyrandi heim af blótinu.

Þegar ég hringi í karla og bið þá um að koma í viðtal hef ég aldrei fengið þau svör að þeir séu ekki nógu vel fyrirkallaðir eða að það henti betur að tala við mig í næstu viku þegar þeir eru búnir í klippingu. Ég verð að játa að þegar ég hitti karla tek ég lítið eftir hverju þeir klæðast eða hvort þeir séu nýkomnir úr klippingu. Ég tek aftur á móti eftir hvernig þeim gengur að koma hugsunum sínum í orð, hvort þeir hafi x-factor og hvort þeir séu skemmtilegir og fái mig til að hlæja. Annað skiptir eiginlega engu máli. Konur ættu að pæla meira í orðunum og minna í umgjörðinni (ég veit þetta kemur úr hörðustu átt). Vissulega getur klæðaburður ýtt undir sjálfstraust og auðvitað er fátt skemmtilegra en að kaupa sér nýja kjóla og töskur – ég veit allt um það. En fötin sjálf ein og sér hjálpa ekki neitt ef konunni liggur ekkert á hjarta. Það stelur enginn gínunni úr búðinni til að taka hana með sér í partí þótt hún sé í flottustu fötunum.

Þegar við byrjum að tala okkur niður og höldum að allur heimurinn sjái að við höfum borðað heilu baðkörin af heróínfylltum lakkrísreimum síðan þær komu á markað (með tilheyrandi þyngdaraukningu) er ágætt að minna sig á eitt. Flestir eru bara að hugsa um sjálfan sig og taka ekki eftir neinu í kringum sig og alls ekki hvort þú hafir fitnað um 800 grömm eða ekki.