c

Pistlar:

12. apríl 2019 kl. 10:56

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Því miður, húsgögnin þín eru of ljót

Rannsóknir sýna að flutningar valda mikilli streitu og eru í áttunda sæti yfir mestu streituvalda í lífi fólks. Á undan kemur makamissir, hjónaskilnaður, dauði einhvers nákomins, sjúkdómar og atvinnumissir svo dæmi sé tekið. Fólk þarf að vera meðvitað um þetta þegar það flytur og reyna að stilla hlutunum þannig upp að þeir valdi sem minnstu álagi ef það er hægt. Það er til dæmis mun einfaldara fyrir mínimalista að flytja en safnara. Safnarinn getur átt undarlegustu hluti sem hann heldur upp á eins og barnatennurnar úr sjálfum sér eða jólaföndur sem föndrað var í 8 ára bekk sem safnarinn getur ekki lifað án.

Sem sjálfskipaður sérfræðingur í flutningum (og safnari) mæli ég með því að fólk undirbúi flutning með löngum fyrirvara og byrji á því að fara í gegnum skápa sem lítið eru notaðir. Eins og til dæmis efri skápa í hjónaherbergi og í stofunni. Best er að reyna að nota flutninginn til að taka almennilega til og losa sig við það sem skiptir okkur ekki lengur máli. Ég er til dæmis að gera vini mína á samfélagsmiðlum alveg sturlaða því safnarinn ég ákvað að taka losunina föstum tökum og hef selt allskonar hluti. Allt frá vindlakössum upp í fótboltaspil, gefið fullt af húsgögnum og farið ótal ferðir í Sorpu. Það versnaði þó í því þegar við vorum búin að taka til nokkra hluti sem áttu að komast í Góða hirðinn en komust því miður ekki þangað því húsgögnin okkar þóttu of ljót. Starfsmaður á plani benti á að best væri að láta ljótu húsgögnin bara góssa beint í ruslagáminn. Þetta var ákveðið áfall enda höfðu fyrrnefnd húsgögn staðið á besta stað í stofu og höfðu einhvern tímann þótt mikið fínerí. En það þýðir víst ekkert að dvelja við það – lífið heldur áfram.

Þegar fólk pakkar niður heimili sínu mæli ég líka með því að pakka nauðsynlegasta eldhúsdóti síðast í kassa því það er glatað að búa í íbúð þar sem búið er að pakka niður ostaskeranum eða blandaranum. Það sama má segja um fataskápana. Best að færa fötin á milli húsa síðast. Ég hef nú ekki nennt að pakka fötunum niður heldur ferjað þau beint af herðatrjám milli húsa með því að leggja þau snyrtilega í aftursætið á bílnum. Það er auðveldara að koma sér fyrir á nýjum stað og halda áfram að lifa nokkuð eðlilegu lífi ef fólk hefur fötin sín, helstu nauðsynjar í eldhús, tannburstann sinn og sjampó.

Við fjölskyldan fluttum um síðustu helgi. Við eigum góða að og voru okkar bestu vinir búnir að bjóða fram krafta sína við flutninginn sem okkur þótt að sjálfsögðu mjög vænt um. Það er nefnilega svolítið þannig með flutninga, vinir þínir eiga það til að gufa skyndilega upp þegar flytja þarf. En allavega þá byrjuðum við tvö að flytja á föstudaginn fyrir viku. Ætluðum bara að taka nokkra kassa og gera eitthvað smá en þegar tveir brjálæðingar koma saman þá gerist eitthvað. Ég get ekki alveg útskýrt hvað en til að gera langa sögu stutta þá náðum við að tæma tvö raðhús á einni helgi og sofa fyrstu nóttina. Það var bara eitthvað svo gaman hjá okkur að við gleymdum að hringja í vin. Stundum tekur lífið nefnilega völdin og þá þarf maður að hafa vit á því að njóta þess. Við erum reyndar svolítið þreytt núna en það er allt í lagi. Við sofum bara í ellinni – hún er ekkert á förum heldur færist hún óþægilega nær og nær.