c

Pistlar:

19. nóvember 2019 kl. 16:06

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Dásamlega Frakkland - Tartiflette - löðrandi ostagratín með lauk og beikoni með baguettu, salati og ljúffengu Pinot Noir rauðvíni

 

Liðna viku dvöldum við í Frakklandi við tökur á sjónvarpsþættinum Læknirinn í Eldhúsinu, ferðalag bragðlaukanna. Mig hefur lengi langað til að fara til Frakklands með sjónvarpsþáttinn enda er ég mikill Frakkaunnandi. Ég hreinlega elska franskan mat og franska matargerð. Ekki spillir svo fyrir að þeir gera dásamleg vín - hreinlega unaðsleg og svo er landið líka svo fallegt. 

 

Við heimsóttum Búrgúndarhérað - bæinn Beaune - sem er hjarta víngerðar í héraðinu og ókum svo til Champagne þar sem við heimsóttum bæði Reims og svo miðborg Kampavínsframleiðslu - Eperney. Hlakka mikið til að sýna ykkur þáttinn - ætli hann fari ekki í sýningar fljótlega upp úr áramótum. 

 

Dásamlega Frakkland - Tartiflette - löðrandi ostagratín með lauk og beikoni með baguettu, salati og ljúffengu Pinot Noir rauðvíni

Þessi réttur er þó ekki frá Búrgúndarhérðainu né er hann frá Champagne. Hann er úr Savoy héraði í frönsku Ölpunum. Hann á sér ekki sérlega langa sögu - tæplega fjörutíu ár. Hann varð til þegar gerð var tilraun til að markaðssetja ostinn sem leikur langstærsta hlutverkið í uppskriftinni - Reblochon - sem er rjómakenndur hvítmygluostur - mildur og ljúffengur. Sölutölurnar voru á hallandi fæti og menn þurftu að girða sig í brók.

 

Orðið Tartiflette á sér lengri sögu, skv. wikipediu - þar sem það kom fram í matreiðslubók eftir Francois Massialot og aðstoðarkokk hans Mathieu og er vísun í kartöflurnar sem notaðar voru og átti réttur þeirra lítið skylt við þennan. 

 

Það breytir þó litlu um að niðurstaða þessarar markaðsherferðar frá áttunda áratugnum sló í gegn - enda syndsamlega ljúffengur "decadent" réttur - löðrandi í osti, rjóma og beikoni. Ekki ætti að neita hans oft á ári - kannski bara á nokkra ára fresti. 

 

Hráefnalisti - dugar vandræðalaust fyrir 8 sem aðalréttur (já, ég veit að það skrítið að hafa gratín sem aðalrétt, en þessi er bara þannig)

 

1,5 kg kartöflur

700 ml rjómi

250 g þykkt beikon

500 g Reblochon ostur (eða annar hvítmygluostur)

4-5 greinar ferskt timjan 

salt og pipar

 

Meðlæti 

 

Einfalt salat 

frönsk salatdressing (3 hlutar olía, 1 balsamedik, smá djion, smá hvítlaukur, salt og pipar)

 

Baguette 

 

Ég keypti þennan ost í Gallerie Lafayette í Operu hverfinu - en við hjónin gistum þar í tvær nætur áður en við flugum heim til Íslands. Margir þekkja þessar búðir sem eru í nokkrum stórum byggingum - einni sem er tileinkuð konum, önnur körlum og svo mín uppáhalds - tileinkuð mat, eldhúsi og heimili. Í þeirri síðastnefndu fann ég mig. Í kjallaranum var dásamlegt úrval af góðgæti frá Frakklandi - dásemdarúrval af ostum. Og þegar ég sá þennan í ostaborðinu, rifjaðist þessi uppskrift upp fyrir mér.

Fyrsta skrefið var að sneiða niður beikonið og steikja það á pönnu. Það er steikt þar til það er eldað í gegn.

 

Næsta skref er svo að flysja kartöflurnar og skera þær í þunnar sneiðar - þetta á að vera gróflega skorið þannig að sneiðarnar mega vera ójafnar. Svo sneiða laukinn.

Svo þarf bara að raða. Ég smurði eldfast mót (nýja Han Solo mótið frá Le Creuset) með olíu og raðaði svo kartöflum, lauk, beikoni, timjan, salti og pipar á víxl. Laumaði með nokkrum smjörklípum,

 

Það þarf nóg af rjóma. 

Svo er það þessi ljúfi ostur. Hann hafði flatst aðeins út í ferðatöskunni en það kom ekki að sök.

Skar ostinn í þunnar sneiðar, saltaði og pipraði og bragðbætti með meira timjan. Lokið á og inn í 180 gráðu heitan ofn í 60 mínútur - svo lokið af og eldað áfram í 15-30 mínútur þar til osturinn fer að brúnast.

Með matnum nutum við þessarar flösku - Moillard Pommard Premier Cru - Les Grands Epenots sem er frá Búrgúnd. Þetta vín er eingöngu úr Pinot Noir eins og nær öll rauðvín í Búrgúndarhéraði. Þetta vín fékk ég að gjöf eftir heimsókn í víngerð Moilliard skammt fyrir utan Beaune. Þetta er einstaklega ljúft vín - rúbínrautt, ilmar af rauðum ávexti, smá cassis og aðeins jörð og eikartónar. Kannski hefði ég átt að spara flöskuna að næstu lambasteik - en mér fannst það standa sig vel við hliðina á feitu gratíninu.

Einfalt salat, frönsk salatdressing. Hitaði baguettuna upp í ofni í nokkar mínútur.

Gratínið ilmaði dásamlega.

 

Mikið er alltaf gott að koma heim til sín.

Bon appetit!

------
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa