c

Pistlar:

21. maí 2019 kl. 18:32

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Washington Post: Úr tapi í hagnað

Óhætt er að segja að útgáfa dagblaða víðast um heim hafi verið varnarbarátta undanfarin ár. Við sjáum það glögglega hér á Íslandi að lestur okkar stærstu dagblaða, þeirra sem reka stærstu fréttastofurnar, hefur minnkað ár frá ári. Hvað nákvæmlega er til ráða er erfitt að segja en margir hafa horft til reksturs bandaríska stórblaðsins Washington Post sem auðugasti maður heims, Jeff Bezos, eigandi og stofnandi netrisans Amazons keypti í ágúst árið 2013 fyrir 250 milljónir Bandaríkjadala. Graham-fjölskyldan hafði þá átt blaðið frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar og líklega varð eignarhaldið þekktast í tíð Katharine Graham enda mörg umdeild mál sem lentu á hennar borði, svo sem afsögn Nixon og aðdragandi þess og birting Pentagon-skjalanna. Á sama tíma var hún hluti af yfirstéttinni í Washington og umgekkst forseta og kvikmyndastjörnur. Hún hafði sjálf hlutast til um það að fá auðmanninn Warren Buffett inn í hluthafahópinn eftir að hann hafði veitt henni ráð sem vinur áður. Buffett á sjálfur nokkur dagblöð í dag en eftirlét Bezos að spreyta sig á Washington Post.o-washington-post-facebook

Eflt útgáfuna

Eðlilega má velta fyrir sér tilgangi Bezos með kaupunum en hann hefur verið staðfestur í að efla útgáfu blaðsins. Síðan hann tók við hefur um 200 nýjum blaðamönnum verið bætt við og áhersla lögð á að efla fréttaskrif blaðsins. Hjá Washington Post starfa nú um 900 blaðamenn og meðallaun þeirra eru um 10 milljónir íslenskra króna á ári. Bezos hefur játað að eignarhaldið skapi ýmis vandamál (hann hefur notað orðið „complexifier“ sem eru áhöld um hvort sé til!), bæði fyrir hann og blaðið.

Þessi vandkvæði komu skýrast í ljós í janúar síðastliðnum þegar hjónabandaerfiðleikar hans komust í hámæli, meðal annars fyrir tilstilli umdeilds fréttaflutnings slúðurblaðsins The National Enquirer. Staða Bezos í bandarísku þjóðlífi varð auðvitað hluti af málinu. Sem auðugasti maður Bandaríkjanna og heimsins má segja að ítök hans sé víða að finna. Til að bæta gráu ofan á svart þá blönduðust inn í málið deilur Washington Post við Donald Trump Bandaríkjaforseta en óhætt er að segja að blaðið hafi verið mjög eindregið í andstöðu sinni við forsetann. Þegar síðan kom í ljós að tengsl voru milli forsetans og útgefanda The National Enquirer lögðu menn saman tvo og tvo og fjölmiðlaheimurinn varð að samþykkja að eignahald á miðlum skiptir máli. Bezos sjálfur sparaði sig svo ekki á eigin bloggsíðu og leiðarahöfundar blaðsins reyndust honum hliðhollir þegar á reyndi. Rækilega var fjallað um þessa deilu í pistli sem birtist í vetur.

Úr tapi í hagnað

En í þessum pistli var ætlunin að horfa til breytts rekstrar Washington Post en síðustu þrjú ár hefur blaðið skilað hagnaði. Mestu skiptir að því hefur tekist að fá rafræna áskrifendur í auknum mæli og teljast þeir vera um 1,5 milljón talsins núna. Blaðið hefur í raun tekið forystu í að tengja sig við notendur miðilsins í hvaða formi sem er og hafa áskrifendur hér á landi tjáð mér að þeir fái mörgum sinnum meiri viðbrögð við lestri blaðsins en annarra fjölmiðla. Ljóst er að blaðið nýtir alla möguleika gervigreindar til þess að útvíkka auglýsingagildi miðilsins.washpostfrontpage

Vitaskuld er betra að vinna á miðli sem skilar hagnaði og veitir eitthvað starfsöryggi en eigi að síður hafa blaðamenn Washington Post átt í deilum um eftirlaunaréttindi sín síðan Bezos tók við. Blaðið hefur skorið niður stöðu umboðsmanns lesenda (Ombudsman) og lagt áherslu á að efla skrif lausráðinna. Katharine Graham hafði mikið metnað til þess að blaðið væri lesið af elítunni í Washington en ritstjórnarstefnan í dag er meira á landsvísu og líklega meira við alþýðuhæfi.