c

Pistlar:

16. maí 2023 kl. 21:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bretland: Myrku listir blaðamennskunnar

Vinnubrögð breskra fjölmiðla eru enn á ný til rannsóknar hjá breskum yfirvöldum. Vitnaleiðslur í nýju símahlerunarmáli eru nú hafnar fyrir breskum dómstólum og koma þar fram sláandi upplýsingar um vinnuaðferðir og framferði fjölmiðla en svo virðist sem að innbrot í síma hafi verið viðurkenndar starfsaðferðir margra fjölmiðla. Gera má ráð fyrir þungum áfellisdómum en eins og kunnugt er urðu slík mál til þess að breska götublaðinu News of The World var hreinlega lokað. Gerðist það í kjölfar símahlerunarhneykslis (phone hacking scandal) árið 2011 eins og fjallað var um hér í pistlum. Er það án efa eitt stærsta hneykslismál breskrar fjölmiðlasögu.mirror

Málið sem nú er til rannsóknar á sér svipaðan aðdraganda. Frægðarmenni í Bretlandi hafa undanfarin misseri safnað gögnum og upplýsingum til að hefja málshöfðun og nú er það komið inn í dómsalina. Það er fjölmiðlafyrirtækinu Mirror Group Newspapers sem er stefnt en stefnendur halda því fram að ólögleg hegðun hafi verið útbreidd hjá blöðunum Daily Mirror, Sunday Mirror og People og verið samþykkt af æðstu stjórnendum. Þeirra á meðal er hinn kunni fjölmiðlamaður Piers Morgan, fyrrum ritstjóri Daily Mirror, en hann hefur ávallt neitað allri sök. Hér er um að ræða einkamál þar sem farið er fram á skaðabætur. Fremstur í flokki þeirra sem reka málið núna í Bretlandi er Harry prins (sem nú hefur titilinn hertoginn af Sussex) en hann telur að símahleranir blaðamanna hafi verið skipulagðar og skaðað hann.

Áberandi fjölmiðlamenn, svo sem Piers Morgan þurfa nú svara fyrir störf sín, en Morgan hefur fullyrt að hann hafi ekki vitað af hlerunum og innbrot í síma. Hafi það gerst þá sé það bara dæmi um „lata blaðamenn“ segir hann. Hart hefur verið sótt að Morgan í fjölmiðlum enda þekktur orðhákur sjálfur. Hann vakti athygli á síðasta ári fyrir hörð ummæli í garð Harry og Megan Markel í deilu þeirra við bresku konungsfjölskylduna. Hertoginn af Sussex mun mæta í eigin persónu í júní í vitnastúkuna – og verður hann þar með fyrsti háttsetti meðlimur konungsfjölskyldunnar í seinni tíð sem kemur fyrir dómstóla og verður yfirheyrður.harry

Myrku listir blaðamennskunnar

Ritstjóri Sunday Mirror kenndi blaðamönnum persónulega hvernig á að hakka talhólf, sagði Dan Evans, fyrrverandi blaðamaður, fyrir rétti en hann er eitt lykilvitna stefnenda. The Guardian segir að Evans hafi fullyrt við réttarhöldin að ólöglegt athæfi sem þetta hefði verið hluti viðurkenndra vinnubragða. Evans hvarf síðan til starfa hjá News of the World og hefur áður viðurkennt að hafa brotist inn í síma og framið önnur ólögleg verk í þess þágu. Hann hlaut skilorðsbundinn dóm eftir að hafa vitnað gegn elskendunum Rebekah Brooks, framkvæmdastjóra News International, og Andy Coulson, aðstoðarritstjóra News of the World, í réttarhöldunum gegn þeim árið 2014.

Allskonar æfingar eru fyrir réttinum og Andrew Green KC, lögmaður Mirror, gaf til kynna að minni Evans af atburðum gæti verið stopult vegna óhóflegrar áfengis- og fíkniefnaneyslu blaðamannsins á meðan hann starfaði hjá Sunday Mirror. Evans svaraði að bragði um neysluna: „Þetta var viðurkennd hegðun hjá nánast öllum sem unnu á þessum dagblöðum.“ 

Evans sagðist hafa verið fórnarlamb „fyrirtækjamenningar“ (corporate grooming) í hinum myrkum listum blaðamennskunnar, eftir að hann gekk til liðs við Sunday Mirror sem ungur blaðamaður snemma árs 2000. Evans sagði að honum hefði verið kennt að hakka talhólf fólks á kerfisbundin hátt af þáverandi yfirmanni, Tinu Weaver, og fréttaritstjóranum Nick Buckley. Hefði það verið með vitund lögfræðinga blaðsins.

Gagnagrunnur um hakkið 

Evans sagðist hafa gerst helsti símahakkari Sunday Mirror árið 2003 eftir að sá sem sinnti hlutverkinu færði sig yfir á annað dagblað. Evans starfaði síðan undir „kennslu og leiðbeiningum“ Weavers og Buckley við að byggja upp gagnagrunn fyrir síma sem átti að hakka. Um leið gáfu aðrir blaðamenn á Sunday Mirror honum persónuleg farsíma- og heimasímanúmer fræga fólksins til að brjótast inn í.

Þessi númer voru geymd miðlægt sem gerði Evans kleift að fá kerfisbundið aðgang að talhólfsskilaboðum fræga fólksins í von um að komast á snoðir um persónulegt líf þeirra. Með því að hlusta á skilaboð frá vinum og vandamönnum gátu þeir fengið viðkvæmar upplýsingar um líf þeirra. Í frásögn Guardian kemur fram að Evans greindi frá því fyrir rétti að Sunday Mirror hefði notað einkaspæjara til að afla gagna með ólöglegum hætti, til dæmis með því að hringja í stofnanir og sannfæra fólk um að afhenda persónulegar upplýsingar fólks. Kom fram að Weaver hafði skipað Evans að hætta að nota aðeins einn einkaspæjara. Ekki vegna þess að það væri ólöglegt heldur vegna þess að hún óttaðist að viðkomandi myndi leka trúnaðarupplýsingum og gögnum til samkeppnisaðila. 

Evans neitaði fyrir rétti að hann væri knúin áfram af persónulegri hefndarþörf nú þegar hann vitnar gegn fyrrverandi samstarfsmönnum. „Þetta hefur verið mér böl,“ sagði hann. „Þetta hefur reynt mjög á mig og ég hef einsett mér að loka þessum kafla í lífi mínu." Um leið fullyrti hann að ólögleg hegðun hefði verið „rótgróin“ hjá fyrirtækinu.hacking

Mirror Group Newspapers hefur þegar greitt út meira en 17 milljarða króna til að sætta kröfur vegna símainnbrota. Eigi að síður véfengja lögmenn félagsins mikið af þeim sönnunargögnum sem hafa verið lögð fram í þessum réttarhöldum. Einnig byggist vörn þeirra á því að málin séu að stórum hluta fyrnd en nú eru yfir tveir áratugir liðnir frá þessum brotum.