Pistlar:

14. nóvember 2019 kl. 18:39

Sigvaldi Kaldalóns (svali.blog.is)

Lífið!

Lífið!

 

Hola amigos. Héðan, sunnan úr Atlantshafi er allt býsna gott að frétta. Get svo svarið það að suma daga geng ég um göturnar og hugsa hver fjandinn: Vá hvað þetta er búið að vera mergjað ævintýri. Miklu fleiri góðir dagar en slæmir. Velti því stundum fyrir mér að það hljóti að hafa verið einhver heillastjarna með okkur í þessu öllu, en leiði hugann líka að því  hvort búast megi við einhverjum skelli á næstunni, það hljóti bara að vera fyrst manni líður svona vel núna. Eða má kannski reikna með því manni líði alltaf svona vel? Ef til vill er það kvíða elementið í mér eða óöryggis faktorinn minn sem þarna nartar. En hvað sem því líður þá eru þessi misseri frábær. Af hverju svona frábær? Sennilega vegna þess að núna eru eldri drengirnir orðnir mun sáttari við að vera hér heldur en var í lok sumars, hafa eignast vini og lífið því eðlilegra. Þegar svona umbreytingar eiga sér stað þá verður þetta daglega í lífinu allt öðruvísi og það tekur tíma að aðlagast þannig að allt verði aftur venjulegt. 

Annað sem gerir þetta frábært fyrir okkur er, að við höfum náð að stofna okkar fyrirtæki sem gengur ljómandi vel, TenerifeFerðir. Af því að það gengur vel  hjá okkur þá skilar það sér til drengjanna og þeir skynja að við, mamman og pabbinn, erum ánægð og sátt. 

Og enn annað mál sem gerir þetta svona frábært, það er tíminn sem við eyðum saman á eyjunni. Stundum bara í að hanga saman heima og liggja í leti, fara út að borða saman, taka gönguferðir og eða bara spjöllum meira saman. Hér líður tíminn einhvern veginn öðruvísi en heima og ég hef engar skýringar af hverju. 

Þannig að: já, lífð okkar hér er alltaf að verða betra og betra, en auðvitað koma erfiðari dagar með tilheyrandi, en í það heila þá er tilveran býsna góð. Fyrirtækið!

 

TeneifeFerðir er fyrirtækið sem við Ásgeir Ingólfsson félagi minn stofnuðum fyrir ári síðan. Við sérhæfum okkur í ferðum um eyjuna með Íslendinga. Bjóðum upp á skoðunarferðir, gönguferðir, matar og vínferðir og  auðvitað önnumst við sépantanir fyrir hópa sem hingað vilja koma og bjóðum þeim upp á allskonar afþreyingu. 

Þetta hefur gengið vonum framar, og í október fór 551 farþegi með okkur í ferðir hér á Tenerife, ekki fjarri þvi að það sé um 15% Íslendinga sem komu í október. Erum stoltir af þessu, höfum náð á einu ári að koma okkur ágætlega fyrir hér og ætlum okkur meira. 

Mantran okkar, meginstefið, er að við fellum aldrei niður ferðir, þó að það sé bara einn bókaður þá förum við í ferðina og það hefur náð að skila sér.  Önnur hliðar mantra er sú að við viljum fókusa á að það sé gaman í ferðunum. Hæfilegur galsi í fararstjórunum en ábyrgð, öryggi og fróðleikur í fyrirrúmi. Erum persónulegir og veitum eins þægilega þjónustu og hægt er. 

Í dag er ferðin “Matur&Vín” vinsælasta ferðin okkar. Hún er farin alla laugardaga en í september, október og nóvember höfum við alltaf þurft að hafa aukaferð á föstudögum því laugardagarnir seljast gjarnan upp. Svo hefur það lúxusvandamál komið upp, að einnig er uppselt í aukaferðina á föstudögum. 

Við bjóðum upp á ferðir 6 daga vikunnar. Á mánudögum förum við  hringferðina um eyjuna. Á þriðjudögum erum við alltaf með sér ferð fyrir hópa sem hafa pantað hjá okkur. Einnig er  El Chinyero gangan á þriðjudögum. Á miðvikudögum er það Masca skoðunarferðin. Á fimmtudögum göngum við frá Santiago del Teide og yfir í týnda þorpið Masca. Á föstudögum er núorðið alltaf auka ferð í Matur&Vín en eftir áramót byrjum við með stjörnuskoðunarferð uppi í þjóðgarði með sérfræðingum frá stjörnuskoðunarstöðinni.  Á laugardögum er svo alltaf Matur&Vín en á sunnudögum erum við í fríi. Erum með heimasíðu www.tenerifeferdir.is þar sem hægt er að lesa allt um ferðirnar. Ný heimasíða er í smíðum og þá bætist það við, að hægt verður að greiða allt á netinu, sem verður okkur og farþegum til þæginda og hægðarauka.  

En útlitið er gott og við hyggjumst auka þjónustu okkar enn frekar og, erum komnir með einn höfðingja í vinnu hjá okkur sem heitir Óskar Gíslason frá Patreksfirði. Kynntumst honum óvænt í fyrra. Þannig var, að við vorum með stóran hóp fólks hjá okkur í sérstakri vikuferð, 5 göngur á 7 dögum sem varð til þess að hann aðstoðaði okkur í tvígang með þennan stóra hóp. Hann sagði okkur að hann ætlaði að eyða þessum vetri hér á Tenerife, og úr varð að við festum okkur hann þennan veturinn. Hann ætlar að taka göngurnar að sér og gengur nú um öll fjöll að finna nýjar leiðir sem gætu hentað til nýrra ferða sem við mundum síðan  bjóða upp á. 

Hópar og sér ferðir eru næst á dagskrá en það prógram byrjar í raun ekki fyrr en eftir áramót. Verðlag! 

 

Hef margsinnis séð umræðu á netinu þess efnis að allt sé mikið ódýrara annarsstaðar en  á Íslandi. Vil leiðrétta þann misskilning, allvega hvað varðar verðlag á Tenerife. Það er ódýrt fyrir íslending að vera hér með sín íslensku laun eða gjaldeyri. En ef ég er að vinna á ekta Canarý launum þá er sagan bara allt önnur. Í rauninni er flest allt dýrara hér heldur en á Íslandi sé kaupmátturinn settur inn í myndina. Skil vel að t.d ellilífeyrisþegar frá Íslandi hafi það gott hér en síður heima. En ellilífeyrisþegi hér hefur það alls ekki of gott. Dæmi: Ef við notumst við niðurstöður frá google, þá eru meðallaun launþega um 600 þúsund á Íslandi. Hér eru meðallaun um 1.100 E á mánuði, miðað við gengið í dag (138kr),  það gera þá kr.151.800. Miðað við þessar tölur er bensín, raftæki, nammi, tryggingar, leiga, föt og margt fleira mun dýrara hér. Dæmi: Nú er alltaf verið að auglýsa nýjan iphone dýrastu gerð, 1.640 Eur hér, en 226.320 kr eða 75.000(66%) meira en meðallaunin hér. Ef við heimfærum þetta á Ísland og meðallaunin 600.000 þá væri síminn að kosta 960.000 kr. Myndir þú fá þér símann á því verði? 

En rétt er að taka það fram að hann kostar “bara” 225.000 kr. á Íslandi og er rúmum 1.000 krónum ódýrari en hér á Tenerife.Hjónin! 

 

Við Jóhanna erum kát og sæl saman á okkar vegferð. Við héldum upp á 5 ára brúðkaupsafmælið þann 18.október með vinum okkar sem komu í heimsókn. Við höfum verið saman á lífsins leið síðan 2001 og þekkjum því hvort annað nokkuð vel, en það getur auðvitað tekið á taugina að vera svona mikið saman og vinna alla hluti upp á nýtt, en það var líka fullt af hlutum heima á klakanum þar sem virkilega reyndi á. Að þessu leyti  breytist nefnilega ekkert við að flytja út. Ef það voru vandamál heima, þá munu þau dúkka upp hér líka. Þannig að ef þú ætlar að flytja út, vertu þá viss um að forsendurnar séu réttar. Við, ( einkum Jóhanna), sögðum alltaf að við myndum ekki vera hér skemur en tvö ár, ég sagði þrjú ár, og svona miðað við stöðuna í dag erum við ekkert á leiðinni heim á næstunni. Alltof mikið í gangi hér til að hægt sé að hlaupast frá því og fara aftur heim. 

 

Að lokum! 

 

Bestu kveðjur frá Tenerife, og ein staðreynd hér í lokin. El Teide, hæsta fjall Spánar er hæsti punktur Atlantshafsins og teygir sig upp í 3718m. Sendum hér með geggjaðar stuðkveðjur sunnan úr höfum. Okkur líður vel og þér vonandi líka. Við erum á Snapchat og Instagram ef þú vilt fylgjast með okkur. 

 

Svali

SnapChat : Svalik 

Instagram: svalikaldalons

FB - Svali á Tenerife Fyrirtækið 

FB: TenerifeFerðir 

Instagram: tenerifeferdir

www.tenerifeferdir.is

2. maí 2019 kl. 21:20

Nýr kafli á Tenerife

Það er langt um liðið síðan síðasta blogg kom, enda finnst mér oftast ekkert sérstakt hafa gerst sem vert er að segja frá. En svo koma tímar sem maður sest niður og áttar sig á að það er eitt og annað sem hefur gerst í Tenelandi. Það voru ákveðin tímamót hjá mér í lok apríl. Þá lauk minni vinnu hjá Vita. Ég átti upphaflega bara að leysa af út október á síðasta ári en það framlengdist út apríl. meira
1. janúar 2019 kl. 11:08

Eitt ár

Allt í einu er orðið ár síðan við fluttum út, tíminn gjörsamlega æðir áfram þessi misserin. Ég sá fyrsta árið fyrir mér öðruvísi, get ekki alveg útskýrt hvernig, en sá þetta öðruvísi fyrir. Ekki misskilja mig, ekki að þessi tími hafi verið verri en ég átti von á, en þetta var klárlega erfiðara en ég hafði ímyndað mér. Það er erfitt að fara rífa sig upp og flytja með alla fjölskylduna svona út, mér meira
20. október 2018 kl. 18:36

Rútínan að koma

Hola amigos. Orðið dálítið síðan frá síðasta pistli og löngu kominn tími til að uppfæra ykkur um gang mála. Hér hefur lífið gengið sinn vana gang, strákarnir allir komnir í skólann og það verður að viðurkennast að við tókum fagnandi á móti rútínunni. Það var gestkvæmt í sumar og því allt sem hét regla var löngu horfin. En núna eru þeir allir í skóla og því smá næði sem við fáum í að vesenast og meira
5. ágúst 2018 kl. 10:37

Gaman en líka erfitt

Hola amigos, héðan frá Teneveldi er allt gott að frétta. Við erum þessa dagana að fara að huga að flutning í annað húsnæði. Að mörgu leiti mun hentugra en að sama skapi þá finnst okkur leitt að fara frá Los Cristianos. Maður finnur það að það er gott að vera þar, minna um ferðamenn og meira af "lókal" fólki. Allt aðeins ódýrara heldur en á Amerísku ströndinni og fleira í þeim dúr. En nýja meira
30. júní 2018 kl. 22:20

Hálft ár

Los Cristianos Tenerife 30.júní 2018   Í dag eru sléttir sex mánuðir síðan við fluttum. Vá hvað tíminn flýgur hratt, stundum finnst okkur eins og við séum ekki tengd við neitt dagatal. Margir búnir að koma út að heimsækja okkur, ekki endilega búið hjá okkur en komið og verið með okkur. Þetta er auðvitað búið að vera frábær tími og við erum núna kannski komin á þann stað að finnast við vera meira
13. maí 2018 kl. 11:04

Sólin skín

Hola amigos, það er nú orðið svolítið síðan ég skrifaði síðast blogg. Íbúðin sem við erum í er á sölu, pínu bömmer  ég viðurkenni það. Búin að koma okkur svo vel fyrir og líður vel. En sem betur fer er ekki mikil hreyfing á íbúðunum hér núna því verðið á þeim er svo rosalega hátt. Bý í ca 100fm blokkar íbúð með 3 svefnherbergjum og verðmiðinn á henni er 320.000e sem er algjör bilun. En meira
25. febrúar 2018 kl. 9:33

Í hvaða ævintýri er ég

Þegar við lögðum af stað í þetta ferðalag var ekki klárt hvað við myndum gera hér úti. Það var í raun ekki fyrr en í desember sem komst einhver mynd á það. Ég fékk starf hjá Vita og á að byrja þar í vor, einhvertímann í mai. Svona fyrst um sinn hugsaði ég, já flott ég get þá bara slakað á þangað til og notið lífsins. Ég er gjarn á að gleyma hvernig ég er, að slaka á í 5 mánuði er bara engan meira
5. febrúar 2018 kl. 9:26

Mánuður liðinn

Hola Amigos, takk fyrir að lesa bloggið mitt. Gaman að finna áhuga á þessu ævintýri okkar á Tenerife. Við erum flutt í Los Cristianos og maður lifandi hvað það er frábært. Loksins farin að koma okkur fyrir og ég meira að segja mjög viljugur að fara í IKEA. Fengum snotra íbúð í íbúðarcomplex sem heitir Los Sauces. Búum þar á 3. hæð með litlar svalir með morgunsól, dásamlegum sundlaugargarði og meira
23. janúar 2018 kl. 21:26

Þetta er algjörlega geggjað

Hvað vorum við að pæla, er hugsun sem kom gjarnan upp fyrstu dagana. Maður lagðist á koddann og þá komu efasemdirnar fljúgandi í kollinn. Og ég sem er kvíðakall á sérlega auðvelt með að mála skrattann á vegginn. En svo sest allt og það fer að komast smá rútína á mannskapinn og um leið fer maður sjálfur að róast og átta sig á hvað þetta er geggjað.  Strákarnir búnir með tvær vikur í skólanum meira
mynd
6. janúar 2018 kl. 10:33

Fyrsta vikan

Hola amigos, nú er liðin ein vika frá því að við komum út. Það er svo ótrúlega margt sem hefur flogið í gegnum hausinn á okkur að það hálfa væri nóg.  Spenningurinn var mikill þegar við vorum að leggja af stað, það er skrítið að fara í flug og vita að maður er ekki beint á leiðinni til baka á næstunni og ekki gekk erfilega að kveðja eða neitt slíkt þetta var bara allt svo skrítið.  Við meira
mynd
30. desember 2017 kl. 0:08

Það er komið að því

Úfff, jæja það er komið að því. Við förum í fyrramálið kl 09, laugardagurinn 30.desember, dagur sem við höfum beðið eftir.  Það hefur gengið á ýmsu síðustu daga og við höfum þurft að hafa okkur öll við að skrúfa hausinn rétt á. Það er dálítið átak að rífa alla upp með rótum og hefja þetta ferðalag. dagarnir milli jóla og nýárs hafa eingöngu farið í að ganga frá öllu og sem betur fer höfum við meira
mynd
18. desember 2017 kl. 16:25

Tólf dagar og vinna í höfn

Ég er himinn lifandi, fékk staðfest í dag að ég er kominn með vinnu á Tenerife. Mun semsagt fara að gera allt það sem mér finnst skemmtilegt og fá greitt fyrir það. Já, hreyfiferðir í boði fyrir viðskiptavini Vita.  Ég semsagt fer strax af stað þegar út er komið í að finna hentugar hjóla og hlaupaleiðir ásamt því að finna aðra skemmtun sem hentar flestum á Tenerife og munu Vita farþegar geta meira
mynd
5. desember 2017 kl. 22:50

Yes, íbúðin er klár.

Það var /%#%#/&/(%$ mikið. Loksins búin að klófesta íbúð í Adeje þorpinu, aðeins frá öllum skarkalanum. Akkúrat það sem okkur langaði, held ég. En vá hvað þetta er búið að vera erfitt, það er svo þétt setið um allar íbúðir og eyjaskeggjar ekkert sérstaklega að taka tillit til þeirra sem eru ekki á svæðinu og vilja bara ganga frá þessum málum í gegnum netið og síma. Það er mikið mildi að við meira
mynd
9. nóvember 2017 kl. 11:29

Gengur allt hægt

Jæja rétt að koma með stöðu mála eins og hún er núna í ferlinu. Við erum búin að vera með íbúðina okkar á sölu og finnum mikið fyrir því að markaðurinn er rólegur og fólk ekki að flýta sér mikið að kaup. Ég er hinsvegar mikið til í að flýta mér að selja, langar svo að klára þann feril svo ég geti einhvernvegin verið rólegri í skinninu með þetta allt. Fjöl mörg verkefni eftir en svo fáir meira
mynd
18. október 2017 kl. 20:39

Næstu skref.

Ekki hefði ég getað ímyndað mér hvað við eigum mikið af óþarfa dóti. Þetta kemur í ljós þegar maður fer í gegnum skápana. Úlpurnar, peysurnar, útivistarfötin, íþróttafötin, fínu fötin og fleira í þeim dúr. En það er ekki bara það, hvað með bollastellið, glösin, diskana, eldföstu mótin og allt það dót. Þetta þarf allt að fara, þar sem við höfum ekki stað til að geyma allt þetta dót á. meira
mynd
5. október 2017 kl. 14:32

Eigum við að flytja til Tenerife?

  Í vor ræddum við hjónakornin um að fara til útlanda í sumar, kíkja í sólina. Tenerife vara staðurinn sem var í umræðunni. Ég á góða félaga sem búa þar og var búinn að fá þá til að svipast um eftir íbúðum fyrir okkur til leigu. Í framhaldinu af því kom þessi umræða upp um að flytja þangað bara. Höfum reyndar aldrei komið þangað en engu að síður þá ræddum við það. Að prufa að búa í meira
Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi Kaldalóns

Svali heiti ég og ætla að skrifa hér um ferðalag fjölskyldunnar til Tenerife. Jóhanna er eiginkonan og synirnir 3 eru Sigvaldi 10 ára, Valur 9 ára og Siggi Kári 2 ára. Við förum af landi brott þann 30.desember næstkomandi og markmiðið er að geta leyft ykkur sem vilja að fylgjast með herlegheitunum. Tímanum áður en við förum og eftir að út er komið. 

Meira