c

Pistlar:

18. september 2015 kl. 16:22

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Önnur sýn á sætu!

ayurveda healthy dietSykurlaus September. Sannarlega verðugt viðfangsefni. En það eru líka fleiri hliðar á því sæta og margar mjög áhugaverðar. Vissuð þið að þegar formæður okkar og -feður fundu sæta bragðið af matnum voru þau öruggari um að hann væri ekki eitraður eða skemmdur? Náttúrulegur sætur matur er okkur jafn nauðsynlegur og önnur bragðgæði lífsins. Og almennt talinn sá allra næringarríkasti.

Í Ayurveda, systurvísindum jógafræanna eru bragðgæði lífsins sögð sex talsins. Öll okkur jafn nauðsynleg. Mælt er með að við neytum allra bragða í hverri máltíð, eins og ég hef þegar skrifað um hér. Þetta eru súrt, salt, sterkt, herpandi, beiskt og sætt. Já, sæta bragðið er jafn mikilvægur þáttur lífsins og allt hitt. Færri vita að hin náttúruleg sæta (þó ekki unninn sykur) geymir jafnan langmestu næringuna. En hefur að auki marga aðra mjög mikilvæga kosti.

Þeir sem hafa kynnt sér þó ekki sé nema lítinn hluta Ayurveda fræðanna vita að við erum sett saman úr þremur megin dosum sem flokkast sem vata, pitta og kafa. Element sem þurfa að vera í jafnvægi fyrir betri líðan og meiri lífsgæði.

Til þess að gera langa sögu stutta flokkast sætt innan þessarra marga alda gömlu fræða sem kælandi fyrir líkamann og fullnægir gjarnan þörfum okkar (með einhverjum undantekningum þó). En auk þess að vera yfir höfuð mjög nærandi færir sætan okkur jarðtengingu. Hið sæta þykir því sérlega góð haust- og vetrarfæða (þegar vata orkan, sem nú er ríkjandi með sínu sveiflukennda veðri og vindum, nær hámarki). Ef góðrar sætu er neytt er sagt að hún ýti undir langlífi, efli þrótt, komi jafnvægi á vökvabúskap líkamans og styrki vefina. Það er í raun bara bragðið sem getur blekkt okkur til að borða of mikið. Ef við borðum of mikið sætt kemst kafa orkan í okkur (sem kennd er við frumefni vorsins, þetta blauta og þunga) í ójafnvægi og við þyngjumst. Sætan er jú vissulega þung, ólíukennd og rakagefandi. Þess vegna getur hún hægt á meltingunni. En hér er eitt það allra skemmtilegasta úr Ayurveda fræðunum. Í vissum tilfellum, ef fólk vill léttast, er mælt með því að það borði eftirréttinn fyrst (sem mig hefur alltaf dreymt um að verði sett í lög). Sætan getur nefnilega í senn verið næringarrík og saðsöm og dregur því sannarlega úr matarlyst um leið og hún gefur góða fyllingu. En nú er komið að kjarna málsins: Hvað er það sem flokkast sem sæt fæða með augum Indversku lífsvísindanna? Það eru heilir ávextir, hunang, döðlur, mable síróp, molassi, lakkrísrót, mjólkurmatur, kjöt, fiskur, olíur, korn, hnetur, möndlur, sesam- og sólblómafræ og hrísgrjón. Allt þetta þarf þetta þó að vera heilt og óunnið. Svo það liggur í augum uppi að hin sætu bragðgæði lífsins eru bráðholl.

Það er líka þannig að hver bragðflokkur hefur langtímaáhrif á efnaskipti okkar eftir að meltingunni lokið. Það er gott að hafa í huga því öll næringarefni setjast að í vefjum okkar. Í Sanskrít er til orðið vipak en það vitnar um dýpri næringu fæðunnar. Þannig færir vipak sæturnnar okkur djúpa næringu og uppbyggingu, vipak hins súra eykur meltingareldinn og vipak þess sem er beiskt eykur hreinsun.

Þó er ekki allt sem sýnist og margt fíngert í lífinu sem áhugavert að skoða nánar. Dæmi um ólíkar hliðar hins sæta er að sætur mangó er hitagefandi og eykur brennslu á meðan t.d. medjool döður, sem eru sannarlega sætar, eru kælandi og hægja á meltingunni. Við erum semsé lengur södd af döðlum en mangói.

Megin vandamál Vesturlandabúa með augum indversku lífsvísindanna er hreint ekki sæt fæða, heldur að 93% af fæðu okkar er sæt. Það bitnar á öðrum bragðgæðum lífsins. Þó er sannarlega í lagi að borða mikið af sætri fæðu svo fremi sem önnur bragðgæði lífsins fylgi með. Því enn og aftur, það sem er náttúrulega sætt er næringarríkast. Þetta merkir líka að við getum nýtt sæta fæðu til að rétta okkur af ef okkur skortir næringu, erum kraftlaus og líka ef við glímum við veikindi sem ganga nærri okkur. Sæt fæða flýtir mest allra bragða fyrir endurreisn skaddaðra vefja og vefja sem eru þurrir og stífir. Góðar olíur byggja upp taugaslíðrin, mýkja stífa liði og ýta undir frjósemi. Og hér enn ein góða sætufréttin: Samkvæmt efnafræði Ayurveda hlutleysir beiska bragðið það sæta. Það kemur til að því að sætan býr yfir sömu eiginleikum og vatn og eldur og beiskt bragð eru af sama meiði. Vatn og eldur eru andstæður. Það er því góður siður að finna jafnvægi milli þess sæta og beiska í lífinu almennt.

Samantekt um sætu: Hið sæta bragð getur sannarlega verið varasamt fyrir holdið, ef rangt er með farið. Það er augljóst. Hitt er að sætan ýtir undir endurnýjun og viðhald vefja. Fremst í flokki sætu bragðgæðanna eru flókin kolvetni og góðar olíur. Í sumum tilfellum getur sæt fæða ekki einungis lagað taugaslíður og byggt upp vefi heldur einnig unnið bug á þurrki hárs, húðar og liða. Það sem flokka má sem sæta fæðu samkvæmt Ayurveda fræðunum kemur jafnvægi á hormónanna og hjálpar okkur að gróa sára okkar eftir skurðaðgerðir og meiðsli og ýtir undir frjósemi. En umfram allt þarf sæta fæðan að vera heil og óunninn og gæðin góð. Auk þess sem hana þarf að borða með því beiska og öllu hinu. Þannig njótum við ávaxta sætunnar okkur til góðs.

.

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, hugleiðslu, flot og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira