c

Pistlar:

16. desember 2023 kl. 13:23

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

Heilsutrendin 2024. Hvað er í kortunum?

Hvernig lítur heilsa og vellíðan út fyrir þig? Kannski er það að hjóla í búðir frekar en að keyra, taka stigann í stað lyftu eða skipta út áfengum drykk fyrir óáfengan? Undanfarin ár hefur fólk svo sannarlega verið til í endurskoða nálgun sína á heilsu og vellíðan. Árið 2024 munum við líklega sjá skýrara hvernig eftirköst undanfarinna ára; heimsfaraldurs og kreppu hefur mótað líf okkar.
Svo má auðvitað spyrja; hvað er trend? Trend er ekki endilega það sama og bóla sem springur! Trend þróast. Frá því ég hóf að skoða strauma og stefnur í heilsumálum fyrir margt löngu stunduðu fáir hugleiðslu á Íslandi. Í dag, 10 árum síðar, segjast 22% Íslendinga hafa hugleiðslu sem hluta af lífi sínu, skv. könnunum. Sem þýðir að tugir þúsunda stunda hugleiðslu.
Heilsuþróunin er sannarlega andleg ekki síður en líkamleg og margt liggur í loftinu. En hvað er líklegt að vaki fyrir fólki eða haldi fyrir fólki vöku 2024?

Meltingarheilsan
ProbioticsAf öllum þeim þáttum sem eru mikilvægir fyrir fólk þegar það kaupir mat hefur orðið „probiotic“ vaxið mest og sala á drykkjum sem innihalda góðgerla aukist gífurlega. Heilsuvandamál í þörmum eru býsna algeng og margskonar mataræði og streituvandamál hafa yfir langan tíma haft neikvæð áhrif á meltingu okkar. Fjöldi Bandaríkjamanna sem segjast finna fyrir ógleði, uppköstum eða niðurgangi reglulega/oft hefur aldrei verið meiri frá því mælingar hófust. Og aldrei hafa fleiri fæðubótarefni fyrir meltingarheilbrigði verið seld þar í landi. Fullyrða má að svipuð þróun hafi átt sér stað á Íslandi. Margir leggja nú meira á sig en nokkru sinni áður við halda þörmunum heilbrigðum og munu áfram leita allra leiða til að hressa þá við.

Mjólkurvörur koma inn aftur
Áratugur veganisma var kærkomið trend og færði okkur grænmetið aftur. Alltént sá angi hennar sem lagði upp úr góðu grænmeti. Fylgifiskur var minnkandi áhugi á mjólkurvörum. En nú er fólk að reyna að finna leiðina til að nota aftur einfaldar og hollar mjólkurvörur. Ekki að ástæðulausu. Þegar allt kemur til alls bæta mjólkurvörur rjóma, próteini og nostalgíu við mat sem erfitt er að endurtaka í öðru formi. En mjólkurvaran sem við mörg erum að sækjast eftir nú er ekki fituskert og sykurhlaðin, heldur hin náttúrulega “sæta” mjólkurafurð úr ekki svo fjarlægri fortíð. Áhuginn beinist að mólkurvörum sem eru framleiddar á sjálfbæran hátt, þeim sem hafa gagnlega fitu og eru stútfullar af lifandi góðgerlum. Eftir vikulega grænmetiskasssa undanfarin ár má allt eins búast við því að matarkassar næstu ára innihaldi meira úrval af mjólkurvörum (jógúrt, ostum, kotasælu og smjöri) sem færa okkur nær daglegu próteinmarkmiðum okkar. Gott er að vona að áhugi á sjálfbærum, lífrænum búskaparháttum muni valda breytingum á mjólkuriðnaði á þann hátt sem það getur gagnast heilsu okkar og um leið heilsu jarðarinnar. Með hærri styrkjum sem veittir voru til íslensku bændastéttarinnar nýverið er kannski von?

Vonarstjarnan 2024 er kotasælan.
KotasælaVaxandi vinsældir kotasælunnar endurspegla líklega gríðarleg áhrif samfélagsmiðla á hegðun neytenda. #cottagecheese hafa fengið yfir 663 milljónir áhorfa á TikTok.
Kannski liggur þarna undir þrá eftir jafnvægi. Kotasælan rokselst víða um heim. Eftir margra ára framleiðslu “mjólkurvara” úr jurtaríkinu vilja nú margir snúa aftur í vöru eins og kotsælu sem hefur einkar aðlaðandi næringargildi. Kotasæla er stútfull af próteini, kalki og nauðsynlegum vítamínum og er í raun ansi snaggaralegur skyndibiti. Hluteysi kotasælunnar og skemmtileg áferð býður upp á að hennar sé notið með margvíslegum hætti. Ofan á eða í brauðið, í pastarétti, með morgunmatnum, í sósuna, ofan á pístuna (jú minnir svolítið á blómkálsbitana), með indversku réttunum, eða bara ein og sér. Það góða við kotasælu er líka að hún er janvíg með einhverju sætu og ósætu. Og ekki svo hitaeiningrík próteinbomba.

Heilinn
Sögulega séð voru fjölvítamín allt sem fólk þurfti til að bæta heilsuna. Það hefur breyst. Haltu samt áfram að taka fjölvítamín og hafðu þau framúrskarandi. Mest spennandi flokkur samtímans eru Nootropics (frá grísku „noos“ og „tropein“ sem þýðir „að hugsa“ og „að leiðbeina“). Sagt er að aldamótakynslóðin og Z kynslóðin sækist í því tilliti eftir drykkjum og dufti sem veita fullnægjandi bragðupplifun, vellíðunartilfinningu og skerpu á sama tími en aðrir vilji sinn þægilega dagskammt til inntöku. Nootropics eru semsé flokkur fæðubótarefna sem sýnt hefur verið fram á að stuðli að vitrænni heilsu. Áður héldu fæðubótarefni fyrir heilann gjarnan koffín og ginkgo biloba. Það er að breytast. Það sem hefur vakið athygli allra kynslóða, ekki síst eldri borgara og íþróttafólks, eru annars skonar. L-theanine er eitt þeirra, sem tengjast ró og máske meiri sköpunargáfu en mestur er áhuginn Brahmi. Brahmi er sannarlega Nootropics og á sér langa sögu sem heilalækningajurt, líka þekkt sem jurt náðarinnar. Breskir læknar og vísindamenn hafa haft um hana stór orð að undanförnu og kalla Brahmi “game changer” í þágu heilans. Brahmi er sagt auka afköst heilans, hugsun og námsgetu og er nú vel vísindalega undirbyggð. Brahmi eykur asetýlkólín. Það er náttúrulegt efni í taugakerfinu sem sagt er auka vitræna úrvinnslu, athygli og minni. Það munar um minna.

Fyrirbyggjandi nær yfir meira
heilsugæslaOrðið fyrirbyggjandi, sem hefur mikið borið á góma í nokkur ár, er að verða skýrara í huga fólks og nær yfir fleiri svið en nokkru sinni. Meðal annars hreyfingu, vellíðan, fæðu og jú bólusetningar. Allt snýst þetta um hið fornkveðna að forvarnir séu betri en lækning. Þessi breyting frá viðbragðsaðferðum yfir í fyrirbyggjandi nálgun er að verða stefnumótandi forgangsverkefni margra heilbrigðisstarfsmanna/stofnanna/ fólks víða um heim. Flestar rannsóknir sýna að fyrirbyggjandi skapar langtímaávinning fyrir sjúklinga, auk þess að draga úr kostnaði sem fylgir meðhöndlun á heilsuvanda sem hægt er að koma í veg fyrir. Tækniframfarir, þar á meðal gervigreind, munu væntanlega gegna stóru hlutverki í framtíðinni, færa okkur viðvörun fyrr og því skjótari íhlutun. En það má heldur ekki gleyma að gömlu fyrirbyggjandi vísindin eru mörgum hugleikin um þessar mundir og eru sannarlega að gagnast, ásamt því að vera innblástur fyrir vestrænu vísindin. 

Styrktarþjálfun sem sjálfsagt mál
Flest æfingakerfi framtíðarinnar munu sjálfsagt snúast um að byggja upp styrk. Við erum þegar byrjuð á bygga upp styrk. Þó að vellíðunariðnaðurinn hafi oft lagt áherslu á mildari æfingar eins og jóga, sem við þurftum sannarlega að halda áfram með, bendir flest til þess að fleiri muni hefja styrktarþjálfun árið 2024 en áður. Í sjálfu sér er styktarþjálfun ekki lengur bara einhver “æfing” heldur hluti af heilbrigðri vellíðan. Það er mikilvægt fyrir heilbrigðiskerfið, að nýta sér styrktarþjálfun, og þann líkamlega ávinning sem hún hefur í för með sér. Ekki einasta að styrktarþjálfun auki beinþéttni og hjarta- og æðaheilbrigði heldur bætir hún svefn, styður við andlega vellíðan og auðvitað; eykur vöðvamassa. En svo er það þetta með hreyfanleikann.

Hreyfanleikinn í daglegu lífi
SeniorsWalkingSamkvæmt Google leitarvélinni hefur leit að eftir orðinu „hreyfanleiki“ aukist mikið undanfarin ár. Jógabyltinginn hefur sjálfsagt veitt mörgum innblástur. Stirðleiki er ekki óafturkræfur. Þá hefur hækkandi aldur fólks alveg örugglega haft áhrif á löngunina til að verða liðugri. Þó ekki sé nema til sjálfsbjargar. Það að geta klætt sig, komist inn og út úr bílnum, leikið við barnabarn eða barnabarnabarn skiptir höfuðmáli, nú eða til að geta komist í göngutúr. Það að vera sterkur og liðugur er ekki lengur um að taka hörkuæfingu einu sinni til tvisvar viku heldur að koma hreyfingu á daglegt líf sitt, líka heima og stunda um leið sjálfsumhyggju. Hreyfanleiki með áherslu á langlífi er meira en bara trend. Fólk er farið að átta sig á því hvað líkaminn er fær um, með meðvitund um lífsstílsmiðaða hreyfingu. Niðurstaðan er: Líkamsrækt snýst meira um heilsubót og virkni fremur en fagurfræði.

Taugakerfið í sviðsljósið
Bara það að Gjörningaklúbburinn og Sinfó setji Flökkusinfóníuna á dagskrá byrjun árs gefur tóninn fyrir 2024. Taugakerfið með sinni löngu og mikilvægu vagus / flökkutaug verður í sviðljósinu. Það eru margskonar leiðir til að róa taugarkerfið og sjálfsagt hefur öll hugleiðslan hjálpað okkur mest. Hljóðböðin sem einmitt róa taugakerfið eiga vaxandi vinsældum að fagna. Hljóðböð eru nákvæmlega eins og þau hljóma – að baða sig í hljóði. Flestar hljóðbaðstundir fela í sér dauft, hlýtt, ilmandi herbergi þar sem þú getur legið, haft það notalegt og notið hljóðs frá góðum gongspilara. Hljóðböð eru talin bæta slökun og draga úr streitu. Hljóðbað er líka eins konar hugleiðsla. Í heimi sem fyllist sífellt meira af hávaða og örvun frá skjáum okkar er engin furða að fleiri hafi áhuga á að flýja í róandi hljóðbað þar sem tíminn og síminn eru afstæðir. Þetta mun allt á endanum leiða til meiri samkenndar sem vonandi trendar feitt á næstu árum. Sjáum til.

Húðiðnaður skiptir um andlit
jane fondaUndanfarin ár hefur meira og minna allt sem lotið hefur að húðvörum notast við hugtakið „gegn öldrun“. Þetta er nálgun sem er um að leiðrétta “mistök”. Snúa á áður áunnin skaða. Síðan kom hugtakið „fyrirbyggjandi" öldrun, sem fjallaði ekki lengur um að snúa klukkunni til baka, heldur um hvernig á að stöðva öldrunarferlið. Algjörlega. Og á tvítugsaldri. Þó að þessar aðferðir endurspegli tíðaranda eru þær í raun gamaldags. Í leit að ofleiðréttingum eða því að eldast aldrei, hefur fegrunariðnaðurinn oft valið lausnir sem enda með því að stefna heilsu húðarinnar í hættu og búa til andlit sem er svo einkennileg að það sætir furðu. Í raun ómanneskjuleg andlit. Meira að segja Jane Fonda hefur sagt opinberlega að hún sjái ekki eftir neinu meira í lífinu en öllum lýtaaðgerðunum sem hún hefur gengist undir. En að hún verði að lifa með því. Það breytir því ekki að það eru ótal náttúrulegar og heilbrigðar leiðir, gamlar og nýjar, til að hugsa vel um sig og húðina um leið.
Áður fyrr var hugtakið öldrun, þ.e. orðið sjálft, tengt neikvæðni. Nú er það bara staðreynd að langlífi eykst. Því þarf öldrun fjarri því að hafa neikvæða merkingu. Í dag getur fólk elst og átt virkilega fallegt og heilbrigt líf.

Amen!

Heimildir koma héðan og þaðan.

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira