c

Pistlar:

30. desember 2020 kl. 15:50

Guðrún Kristjánsdóttir (systir.blog.is)

8 heitustu heilstrendin 2021. Heilsubyltingin er að hefjast.

Það er langt því frá að við séum byrjuð að skilja hvaða áhrif 2020 hafði á líf okkar. Eitt er þó víst; heilsan var okkur efst í huga árið 2020. Þetta er árið sem mun örugglega breyta viðhorfi okkar til heilsunnar en vonandi margs annars líka. Margir heilsuspámenn fullyrða að heilsubyltingin sé ekki ennþá hafin. Við höfum vissulega séð heilsuvorið. En ekki sjálfa byltinguna. Heilsubyltingin sé í sjónmáli.

 

Við erum alltént loks núna að átta okkur á að manneskjan er hluti náttúrunnar og að við verðum að vera betri við hana. Við þurfum að finna aðrar leiðir og breyta hugarfari. Það á við í öllu, allt frá óraunhæfu foreldrahlutverki til viðhorfa í garð andlegrar heilsu.

Gömlu vísindin eins og kínverska læknisfræðin og indversku lífsvísindin (jógafræðin) hafa alltaf vitað að andleg og líkamleg heilsa eru órjúfanleg heild og auðvitað maðurinn og náttúran. Það er líklegasta skýringin á því af hverju þau stækka stöðugt á Vesturlöndum. En sjálf vísindin voru aldeilis mögnuð á árinu. Hver hefði trúað því að 10 mánuðum eftir að heimsfaraldur braust út væru bólusetningar hafnar hér á landi. Er ekki kominn tími á að þessir 2 náskyldu heimar vinni meira saman? Í raun hafa vísindin sýnt okkur í rauntíma að efnaskipti og styrkur ónæmiskerfis eru ekki bara tengd heldur einn og sami hluturinn. Talað er um að efnaskipti 88% Bandaríkjamanna séu ekki upp á sitt besta. Líklegt er að Íslendinga vanti einnig töluvert upp á góð efnaskipti.

Allt þetta ber að sama brunni. Heilsan verður málið 2021.

 

GEÐHEILSAN
Eftir ansi erfitt geðheilbrigðisár vegna heimsfaraldurs vitum við vonandi í dag að forgangsröðum tilfinningarlegrar líðanar er afar mikilvæg. Það er aldrei mikilvægara að geðheilbrigði sé hluti af daglegum venjum, ekki síður en líkamsrækt. Andleg hæfni skýst upp og allt sem styður hana.

Það verður seint sagt að matur lækni þunglyndi eða ótta. Hins vegar hefur verið sýnt að B-vítamínin og steinefni eins og magnesíum og sink, trefjar, lífsnauðsynlegar fitusýrur (omega 3) og ýmsir góðgerlar séu tengd betri geðheilsu. Það á líka við um ýmsa adaptógena og jurtir eins og saffran. Við munum alveg örugglega sjá meira af næringarríkum mat og drykkjum sem styðja við andlega heilsu, ekki síður en líkamlega, á nýju ári. En svo verður örugglega frekari upplýsinga að vænta úr fornu fræðunum í samhengi við nútímavísindin.

 

ÓNÆMISKERFIÐ
Matur á að vera næring, ekki bara til að verjast hungri. Framtíð matar og drykkjar mun byggja á innihaldi næringar. COVID-19 var hressileg áminning um að heilsa er tímabundin og getur breyst hvenær sem er. Þetta hefur þegar haft áhrif á marga sem vilja heldur fæðu sem styður við betri ónæmisheilsu. Samkvæmt erlendum markaðsrannsóknum sögðust yfir 50% neytenda taka fleiri vítamín og bætiefni en áður. Þessi vaxandi áhugi á næringu mun halda áfram að vera í brennidepli heilsu- og vellíðunargeirans árið 2021. Frekar en að einbeita sér að meðhöndlun munu fleiri neytendur leitast við að koma í veg fyrir sjúkdóma eins og hægt með sterku ónæmiskerfi. Altsvo nú má loks fullyrða að “fyrirbyggjandi” iðnaðurinn fái þann sess sem hann á skilið.

Til að bregðast við þessu mun matvælaiðnaðurinn ekki bara bæta sig í næringu heldur merkja næringarinnihald betur. Allt sem getur stutt við sterkara ónæmiskerfi verður sýnilegt. Einnig má gera ráð fyrir því að önnur úrræði sem hafa verið beintengd sterkara ónæmiskerfi eins og túrmerik, engifer, ylliber og sólhattur haldi áfram að vaxa. Sagt er að olífuolía verði olía ársins 2021 enda margsannað að hún styður við góða hjartaheilsu. En hún verður að vera jómfrúar og lífræn. Dass af olífuolíu verður því að finna með flestu.
Nú þegar vísindin hafa sýnt hvers þau eru megnug eru betri rannsóknir á mat og bætiefnum vel þegnar.

 

FLEXITARIANISMI & SÆKERAR
OlífuolíaÞað að sannfæra kjötætuna er um að gerast vegan er mikil barátta. Það að mæta henni á miðri leið er mun er vænlegra til árangurs. Vegan í miðri viku og flex um helgar verður kannski markmið ennþá fleiri árið 2021. Margir vilja líka halda í fiskmetið og þetta flotta orð SÆKERAR, yfir grænmetisætur sem borða fisk, spratt upp í Systrasamlaginu á árinu. Það leikur þó engin vafi á því að vegan mun halda áfram að dafna en um leið og krafan um meiri næringu er orðin sterkari mun næringarríkt grænkerafæði án alls vafa dafna mest allra “isma”.

 

LÓKAL & BAKGRUNNUR
Fleiri munu leitast við að versla við fyrirtæki í heimabyggð. Það eru svosem engin geimvísindi. Og ekki bara það, heldur leikur fleirum forvitni á vita hvað sé að baki fyrirtækjunum sem þau versla við og hverjar séu “hugsjónirnar”. Það verður líka spurt spurninga í tengslum við allar vefsíðurnar sem hafa sprottið upp. Það þarf svosem ekki að horfa langt yfir skammt til að sjá að stórar keðjur dafna ekki eins og áður. En ein af mælistikum COVID hefur sýnt 52% aukningu á viðskiptum í heimabyggð. Spurt er oftar frá hvað bónda afurðin er? Hvaðan kemur kaffið, cacaóið? Hver framleiddi, saumaði, litaði og hvert fer peningurinn? Það gefur líka auga leið að ef þú verslar í heimbyggð við þá sem vita hvað þeir eru að bjóða upp á, þá er líklegra að þú styðjir við ferskleika, gagnsæi og gæði.

 

HÚÐIN HÚÐIN
Við höfum lengi vitað að húð okkar er heimili fjölbreyttrar örveruflóru. En hversu mikilvæg er húðin í tengslum við heilsu almennt? Nú eru vísindin loks að vakna um þessi tengsl og margar rannsóknir í gangi, sem munu vafalaust leiða í ljós hversu mikilvæg hindrun húðin okkar er. Húðin er fyrsta varnarlína líkamans og sennilega er kominn tími til að við förum að meðhöndla hana af þeirri virðingu sem hún á skilið.

 

LOFTGÆÐIN
Í upphafi fyrstu sóttbylgjunnar horfðum við á umhverfi okkar njóta bráðnauðsynlegs hlés. Loftgæði bötnuðu, líffræðileg fjölbreytni blómstraði og náttúruleg hljóðmynd snéri aftur. Léttirinn var tímabundinn en lærdómurinn er eilífur: Þökk sé náttúrunni og flóknu samspili magnaðrar sinfóníu, þá hefur hún meðfædda getu til að endurheimta sig. Þegar við horfum fram á veginn er óhætt að spá enn kröftugri umhverfisverndarbylgju sem áfram muni snúast um að náttúran nái að öðlast sinn fyrri kraft.

HINAR FÍNGERÐU MÆLINGAR
gunna2Á líkamsræktarmarkaðnum höfum við fengið að sjá meiriháttar framfarir í fíngerðum mælingum sem geta núorðið næstum mælt púlsana þrjá (eins og í ayurveda), breytileika á hjartsláttartíðni, hita í húð, glúkósamagni og mörgu öðru. Með auknum áhuga á eftirliti með eigin heilbrigði má búast við að tæknimælingar blómstri sem aldrei fyrr árið 2021. En það breytir þó engu um það að útvistin hefur sigrað “innivistina” og ef fram heldur sem horfir verða skíðaskotfimi og sjóböð í hæstu hæðum árið 2021. En jógað og hugleiðslan hvika hvergi.

 

UMÖNNUN BARNA OG HEILSA
Foreldrar hafa í marga áratugi verið fastir í ákaflega fínofnu neti foreldrahlutverksins. En þegar heimurinn stöðvaðist um stund og foreldrar urðu kennarar, umönnunaraðilar og leikfélagar á einni nóttu hrikti heldur betur í stoðunum. Forgangsröðunin breyttist á einni nóttu. Ef þessi bylting hefur ekki áhrif á heilsu barna og foreldra til góðs og eykur meðvitund til hins betra, getur fátt gert það. Hér þarf auðvitað allt samfélagið allt að taka undir með börnum og foreldrum þeirra.

 

 

 

 

Guðrún Kristjánsdóttir

Guðrún Kristjánsdóttir

...er áhugakona um heimspeki, heilsu, lífeðlisfræði, jóga, sjósund, hugleiðslu og ferðalög. Á bakgrunn í blaðamennsku, leikhúsi, var kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík, er stjórnmálafræðingur, jógakennari og stundaði meistaranám í sálgæslufræðum við guðfræðideild HÍ. Er að auki ljón, nörd, fæðu aktívisti og hin systirin í Systrasamlaginu.

Meira