Má skiptastjóri hirða launin, bíldrusluna og sparka þér úr íbúðinni?

Grétar Dór Sigurðsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda …
Grétar Dór Sigurðsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands.

Grétar Dór Sigurðsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem veltir því fyrir sér hvort skiptastjóri megi hirða allt af honum. 

Sæll. 

Ef þú verður gjaldþrota, má skiptastjóri ganga að laununum þínum? Ef svo er, má hann taka þau öll? Getur hann fleygt þér út úr leiguíbúð? Og getur hann eða myndi hann taka bílinn þinn (mjög ódýran gamlan bíl) ef hann er eini valkosturinn til að komast til og frá vinnu?

Kveðja, 

S

Ágæti lesandi.

Við gjaldþrot tekur þrotabú skuldara við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti fram að gjaldþroti. Ef þrotamaður er einstaklingur heldur hann aftur á móti ákveðnum eignum og réttindum. Sú undanþága nær m.a. til launa og annars endurgjalds fyrir vinnu sl. mánuð fyrir gjaldþrot. Einnig heldur þrotamaður eignum sem eru nauðsynlegar þrotamanni og heimilismönnum til að halda látlaust heimili svo og eignum sem eru nauðsynlegar vegna örorku eða heilsubrests o.fl. Skiptastjóri hirðir því ekki hefðbundnar launagreiðslur og verður að gæta þess að ganga ekki of nærri þrotamanni og fjölskyldu.

Rétt er að geta þess að Skattinum er heimilt að krefja vinnuveitanda um að halda eftir allt að 75% af launagreiðslum til launþega hverju sinni þegar opinber gjöld eru ógreidd. Skattinum eru þó settar sömu skorður og skiptastjóra; launin að teknu tillit til launaafdráttar verða að duga skuldara og fjölskyldu til framfærslu.

Hvað bíl snertir verður skiptastjóri að leggja mat á þá fjárhagslegu hagsmuni sem í honum kunna að vera fólgnir fyrir þrotabúið andspænis þörf þrotamanns. Skiptastjóri verður auk þess að beita almennri skynsemi. Ef kostnaður við ráðstöfun bíls er t.a.m. meiri en sem verðmæti hans nemur ber skiptastjóra að halda að sér höndum. Sama á við ef ávinningur er hverfandi en þörf þrotamanns mikil.

Skiptastjóri hefur ekki það hlutverk að sparka þrotamanni út úr húsnæði hvort sem þrotamaður á húsnæðið eða er með það á leigu. Ef þrotamaður á húsnæði er skiptastjóra heimilt, með samþykki veðhafa, að leyfa þrotamanni að búa áfram í húsnæði í allt að tólf mánuði gegn greiðslu á leigu. Í tilviki leigu veita gjaldþrotaskipti leigusala heimild til að slíta leigusamningi nema þrotabú ákveði að taka við samningi og leggja fram tryggingu. Það má því segja að það sé fremur undir leigusala komið hvort þrotamanni er sparkað út úr leiguhúsnæði.

Í stuttu máli gerir skiptastjóri ekkert af því sem spurningin lýtur að eða á a.m.k. ekki að gera það.

Kveðja, 

Grétar Dór Sigurðsson

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Grétir Dór og öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál