Íslensk hjón á barmi skilnaðar því hún þráir Tenerife en hann vill borga inn á lánið

Theodor Francis Birgisson klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem veltir fyrir sér hvað er til ráða því þau hjónin eru svo óskaplega ósammála um fjármál heimilisins. Hún eyðir og eyðir og hann verður pirraður. 

Sæll Teodor.  

Við konan mín erum mjög ósammála er varðar fjármálin akkúrat núna. Við höfum yfirleitt verið samstíga en núna virðist hún hafa ruglast eitthvað. Ég er alltaf að benda henni á að við þurfum að borga inn á húsnæðislánið því vextirnir munu losna í desember og þá sé ég ekki fram á að við eigum fyrir reikningunum.

Við höfum alltaf farið með börn í frí til Tenerife á sumrin en nú höfum við ekki efni á því. Hún vill samt fara. Mig langar ekki til þess að við séum að hnakkrífast yfir þessu og hef reynt að humma þetta fram af mér upp á síðkastið. En ég veit að við þurfum að geta talað um þessa hluti og fundið lausn. Það er eins og hún treysti bara á að ég muni redda þessu öllu þegar kemur að skuldadögum. En ég sá bara ekki fram á það. Verkefnin sem ég er með í vinnunni munu ekki fara að gefa eitthvað meira af sér. Á sama tíma og ég vil að við séum að halda að okkur höndum sé ég að hún kaupir og kaupir allskonar óþarfa. Einhver forljót föt sem gera ekkert fyrir hana. Ég get náttúrlega heldur ekki sagt það.  

Núna er ég kominn út í horn. Læt lítið fyrir mér fara og reyni bara að þegja því ef ég segi eitthvað þá verður hún svo reið að það er ólíft á heimilinu.  

Hefur þú heyrt að fólk skilji vegna verðbólgu og hárra stýrivaxta? Hvað finnst þér að ég eigi að gera? 

Kveðja, 

Guðmundur

Natalia Blauth/Unsplash

Sæll Guðmundur og takk fyrir þessa spurningu.  

Það er mjög algengt að fólk takist á um fjármál og það ástand sem verið hefur í íslensku efnahagslífi undanfarin misseri hefur ekki farið fram hjá okkur sem vinnum með pörum. Það er sorglegt að segja að ágreiningur í fjármálum setur fjölda parsambanda á hliðina. Rannsóknir Gottman stofnunarinnar í Bandaríkjunum, sem er ein sú virtasta í okkar fagi, sýna til dæmis að það eru fleiri parsambönd sem fara á hliðina vegna fjármála en framhjáhalda.

Fjármál eru mjög viðkvæm og í því samhengi gildir að parið VERÐUR að ná að tala saman um vandann. Það er bara tvennt sem ég kann að gera þegar syrtir í álinn, annars vegar að auka tekjur eða þá að minnka útgjöld.

Það getur verið flókið fyrir marga að auka innkomu og þá er ekki annað eftir en að minnka útgjöld. Það er hins vegar ekki hægt nema þið gerið það SAMAN. Það þýðir að aðferðin sem þú ert að nota virkar ekki og mun ekki heldur virka í næsta eða þarnæsta mánuði. Ef konan þín vill ekki tala um þetta málefni er lítið hægt að gera. Það er samt góð spurning fyrir þig að spyrja: „Vill hún ekki tala um þetta eða vill hún tala öðruvísi um málið“.

Það getur verið að samskipti ykkar hafi þróast þannig að hún forðast slíkar samræður við þig og það er ekki víst að það sé „bara henni að kenna“. Þú ættir því að byrja á að spyrja hana hvort hún VILJI ræða fjármál. Ef hún vill það í raun og veru spurðu hana þá hvernig hún vilji nálgast málin og hlustaðu á upplifun hennar og reyndu að skilja hvaðan hún er að koma með sína upplifun. Reyndu síðan að fá hana til að skilja hvaðan þú ert að koma. Með slíkum samræðum, sem eru ekki tvennar einræður, náið þið að finna flöt sem þið getið verið sammála um. Þannig leysið þið málið. 

Með kærri kveðju og ósk um gott gengi, 

Theodor Francis Birgisson klínískur félagsráðgjafi 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Theodor spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál