Er eðlilegt að kærastinn þurfi alltaf að vita hvar hún er?

Theodor Francis Birgisson svarar spurningum lesenda Smartlands.
Theodor Francis Birgisson svarar spurningum lesenda Smartlands. Samsett mynd

Theodor Francis Birgisson klínískur félagsráðgjafi og fjölskylduráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem er búin að vera í sambandi í nokkur ár og finnst óþægilegt að kærastinn vilji alltaf vita hvar hún er. 

Heill og sæll, 

ég og kærastinn minn erum búin að vera saman í nokkur ár. Vandamálið er að hann vill alltaf vita hvar ég er og með hverjum ég er. Stundum fæ ég þó nokkuð mörg skilaboð þegar ég er ein að skemmta mér með vinum. 

Ég kem úr fjölskyldu þar sem ekkert hefur komið upp á en hann er af brotnu heimili þar sem ýmislegt hefur gengið á. Mér finnst stundum eins og mikið og rótgróið óöryggi fær hann til að vilja passa fullmikið upp á mig. Þetta hefur haft neikvæð áhrif á sambandsdínamíkina. Hvernig á ég að bregðast við án þess að særa hann og án þess að fórna sjálfstæði mínu? 

Kveðja, 

B

Íslensk kona leitar ráða hjá Theodor því henni finnst kærastinn …
Íslensk kona leitar ráða hjá Theodor því henni finnst kærastinn þurfa að vita allt of mikið um það hvar hún er. Atika Bana/Unsplash

Sæl og blessuð og takk fyrir þessa spurningu.

Þetta er málefni sem kemur nokkuð reglulega upp í sófanum hjá mér. Það er nauðsynlegt í samböndum að báðir aðilar haldi sínu sjálfstæði og að eiga ákveðið magn af félagslífi utan sambandsins er mjög heilbrigt. Að sama skapi er líka eðlilegt að við vitum hvar hinn aðilinn er og með hverjum hann er.

Ef konan mín má ekki vita hvar ég er og með hverjum þá hef ég eitthvað að fela og það er ekki skynsamlegt. Þarna þarf því að vera til staðar gagnkvæmt traust og besta móteitur við vantrausti er gegnsæi upplýsinga. Hann þarf að læra að treysta þér og þú þarft að leyfa honum að læra það. Það tekst aldrei nema þið getið rætt um þessi mál í einlægni og án þess að vera í árásar- eða varnarham.

Það er best að gera með þeim hætti að ef annað ykkar „meiðir“ sig í samtalinu þá þarf viðkomandi að ganga úr skugga um hvort hann eða hún hafi örugglega verið að heyra það sem makinn sagði. Algengasti vandi í samskiptum er nefnilega að A segir eitthvað og B heyrir eitthvað allt annað. B notar síðan það sem oft er kallað „skapandi heyrn“ og býr til heilan veruleika úr því sem B taldi sig vera að heyra.

Sjálfur hef ég í samskiptum mínum við mína heittelskuðu allt of oft lent í þessari gryfju, og ég hef aldrei meðferðað par sem ekki hefur lent í þessum aðstæðum. Ef ykkur tekst þetta ekki án faglegrar aðkomu þá myndi ég ráðleggja ykkur að panta tíma hjá viðurkenndum þerapista. Ég vona að þetta hjálpi ykkur við að leysa þennan vanda.

K.kv

Theodor

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Theodor spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál