Það sem hlýjar okkur

Marta María Winkel Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is skrifar um áföll …
Marta María Winkel Jónasdóttir fréttastjóri dægurmála mbl.is skrifar um áföll og samskipti fólks. Ljósmynd/Kári Sverriss

Áföll gera ekki boð á undan sér. Þau geta komið eins og þruma úr heiðskíru lofti en þau geta líka læðst aftan að fólki á lúmskan hátt. Þegar fólk verður fyrir alvarlegu áfalli eiga gömul áföll til að koma upp á yfirborðið.

Fólki getur sortnað fyrir augum og hreinlega gefist upp á lífinu. Sunna Dóra Möller, fráfarandi prestur í Digranes- og Hjallakirkju, segir frá því í viðtali hvernig líf hennar umturnaðist. Þegar hún veiktist alvarlega komu gömul áföll upp á yfirborðið sem hún hafði ekki unnið úr. Við bættust erfiðleikar í vinnunni og hjónaskilnaður. Fyrir ári var hún á þeim stað að hún vildi ekki lifa lengur. Sunna Dóra er heppin því börnin hennar komu henni til bjargar og hringdu á Neyðarlínuna eftir að hafa fengið skringileg sms-skilaboð frá henni. Í framhaldinu var hún gripin og fékk viðeigandi hjálp. Í dag lítur hún björtum augum til framtíðar og hlakkar til að takast á við lífið.

Saga Sunnu Dóru er áhugaverð fyrir margar sakir en hún segir okkur að það sé hægt að rífa sig upp og það sé hægt að fá hjálp. Áföll geta sett mark sitt á fólk fyrir lífstíð en þau geta líka styrkt fólk og komið því ennþá lengra á öllum mælanlegum skölum nútímasamfélags.

Fólk sem verður fyrir áfalli þarf að ákveða hvaða leið það ætlar að fara. Ætlar það að gefast upp eða ætlar það að halda áfram. Ef það velur að halda áfram getur verið gott að fá stuðning hjá fagfólki. Fólk sem kýs að bera ábyrgð kemst í gegnum áföll og verður sterkara en fólk sem kennir alltaf öðrum um ófarir sínar kemst hvorki lönd né strönd. Ef fólk kýs að bera ábyrgð á sjálfu sér þarf það að fara í gegnum líf sitt. Efnagreina það. Sortera. Hvað hefur fólk? Hvað þarf það og hvað vantar? Hvar liggja styrkleikar? Svo þarf fólk að hætta að rífa sig niður og reyna að koma auga á það fallega og góða í lífinu. Ekki er verra ef það dustar rykið af þakklætinu sem býr innra með því og reynir að telja upp allavega eitthvað eitt sem það er þakklátt fyrir um leið og það opnar augun á morgnana.

Mér varð hugsað til grama fólksins sem kýs að bera ekki ábyrgð þegar hópur af fólki varð mjög reiður á netinu vegna fréttaskrifa minna um bleika jakkann hennar Höllu Tómasdóttur forsetaframbjóðanda. Ég var sökuð um að vera yfirborðskennd og heimsk og fólk hneykslaðist á því hvers vegna þetta væri eiginlega frétt. Það er allt í lagi. Fólki má alveg finnast það.

Ef fréttin er skoðuð með lífsstílsáhugamannagleraugum blasir það við að fólk sem hefur áhuga á því sem er móðins hverju sinni vill fá að vita hvar svona fallegir bleikir jakkar fást og hvað þeir kosta. Þessi hópur hefur fullan rétt á að hafa áhuga á bleikum jökkum án þess að lenda undir valtara grama fólksins. Svo getur meira en vel verið að fréttin um bleika jakkann hafi veitt einhverjum von. Þegar fólki líður illa getur verið gott fyrir brautirnar í heilanum að sjá eitthvað sem er fallegt og jafnvel upplifa að langa í eitthvað. Það að hafa löngun í að gera eitthvað eða kaupa eitthvað er merki um að viðkomandi hafi lífslöngun. Mér finnst alger óþarfi að gera lítið úr því.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál