Brakandi edrú í nærri fjögur ár

Guðbjörg Inga Guðjónsdóttir er búin að vera edrú í bráðum …
Guðbjörg Inga Guðjónsdóttir er búin að vera edrú í bráðum fjögur ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhann Traustason og Guðbjörg Inga Guðjónsdóttir, eða Jói og Gugga eins og flestir kalla þau, hafa bráðum verið edrú í á fjórða ár en í maí 2011 sögðu bæði skilið við áfengi og vímuefni. 

„Þetta er það lengsta sem Jói hefur verið edrú samfellt en ég var einu sinni edrú í sjö ár. Munurinn á þeim tíma og núna er sá að núna er ég hamingjusöm en það var ég ekki þá,“ segir Gugga í viðtali við Smartlandið og bætir við að nú vilji hún láta kalla sig Guðbjörgu. „Til að segja skilið við þetta gamla líf.“

Jói sagði skilið við Bakkus á frídegi verkalýðsins þann 1. maí 2011 og Guðbjörg fylgdi í kjölfarið. Hætti alveg þann 18 maí sama ár. 

Guðbjörg segir muninn á edrúmennskunni nú og áður vera þann að þau eru loks farin að taka leiðsögn. 

„Nú gerum við það sem okkur er sagt að gera. Tökum leiðsögn í fyrsta sinn og hermum eftir þeim sem eru búnir að vera edrú lengi. Við hellum upp á kaffi, heilsum fólki, stólum upp eftir 12 spora fundi og svona,“ segir Guðbjörg sem fór árlega í áfengismeðferðir frá árinu 2003 til 2011. „Ég hljóp bara alltaf út úr þessum meðferðum,“ segir hún.

Guðbjörg þakkar bæði samhjálp, 12 sporakerfinu og SÁÁ fyrir batann en hún byrjaði á Vogi og fór þaðan á Vík þar sem hún var í meðferð í mánuð og svo var hún á göngudeild SÁÁ í heilt ár á eftir.

„Núna er ég alltaf í vikulegri eftirfylgni hjá SÁÁ núna og við Jói erum með þrjá fasta tólf spora fundi sem við sækjum í hverri viku. Á hverjum morgni þegar ég vakna bið ég Guð að fá að vera edrú og legg allt mitt í hans hendur. Svo þakka ég fyrir mig á hverju einasta kvöldi,“ segir Guðbjörg og bætir við að jafnframt séu þau mjög ötul að hjálpa öðrum að verða edrú. 

„Ég fer til dæmis reglulega með 12 spora fundi á deild 33A og svo förum við Jói saman reglulega með fundi á Hlaðgerðarkot. Ég segi aldrei nei þegar ég er beðin um hjálp og mér finnst mikilvægt að fólk átti sig á þessu. Það er nóg að gera eftir að maður verður edrú.“

Jói búinn að vera mikið á spítala

Undanfarin tæp þrjú ár hafa þau Jóhann og Guðbjörg starfað sem húsverðir hjá Samhjálp en hafa nú hætt því starfi og hyggjast flytja út á Kjalarnes. 

„Við ætlum bara að fara aðeins út fyrir bæinn og vera með dýrunum okkar og hafa það gott,“ segir Guðbjörg en bæði eru þau miklir dýravinir og eiga bæði ketti og hund. 

„Jói minn ætlar svo kannski að fara að vinna eitthvað á vörubíl með vini sínum í sumar en ég veit ekki hvað ég fer að gera,“ segir hún og nefnir í því samhengi að Jói hafi glímt talsvert við veikindi upp á síðkastið. 

„Hann er sko bæði með skorpulifur og lifrarbólgu og svo hefur maginn verið að trufla hann mikið. Hann er bara búinn að vera inn og út af spítalanum og ég hugsa auðvitað mikið um hann og heimsæki á spítalann,“ segir Guðbjörg en sannarlega má segja að það sé ást þeirra hvort á öðru sem hefur haldið í þeim lífinu og sjaldan heyrist fólk tala jafn ástúðlega um hvort annað og þau gera. 

„Það sem gerir þessa edrúmennsku öðruvísi en áður er bara það að Jóa minn langaði ekki að lifa lengur og mig langaði ekki til að missa hann,“ segir Guðbjörg og útskýrir að við þetta hafi hlaupið í hana sá kraftur sem vantaði upp á áður.

„Mig langaði að sanna fyrir honum að ég gæti þetta.“

Jói frelsaðist fjögurra ára

Spurð að því hvort Jesú hafi komið við sögu í edrúmennskunni segir Guðbjörg þau Jóhann alltaf hafa verið frelsuð. 

„Sko, hann Jói minn er búinn að vera frelsaður frá því hann var fjögurra ára. Þá fór hann í sparifötin og bað mömmu sína að fara með sig á samkomu. Hann hefur átt Jesú í hjartanu frá því hann var bara pínulítill en sjálf hef ég hef verið frelsuð síðustu sextán árin. Við elskum sko Jesú Krist við Jói og það má alveg koma fram!“ segir hún af innlifun en í neyslunni og þegar mest á reyndi var Jesú oft innan seilingar. 

„Í dag erum mjög dugleg að fara á samkomur hjá Samhjálp. Þá er lofgjörð og ég er á glærunum annan hvorn fimmtudag,“ útskýrir Guðbjörg. „Glærurnar, það er sko textinn í lögunum sem við syngjum sem er varpað upp á vegg.“ 

Samhjálp er líknarfélag sem rekur meðal annars áfangaheimili og meðferðarstöðvar í Reykjavík en starfsemin hefur verið virk síðustu 42 árin.

„Samhjálp er með Hlaðgerðarkot, áfangaheimili á Miklubraut, Sporið sem er áfangaherbergi og áfangaíbúðir á Höfðabakka svo eitthvað sé nefnt,“ segir Guðbjörg en þau Jói hafa sinnt ýmsum störfum fyrir Samhjálp síðustu misserin en einbeita sér nú að flutningunum á Kjalarnes og heilsueflingu. 

Breytti mataræðinu og er búin að missa 20 kíló

Guðbjörg er ekki bara að sinna andlegu hliðinni heldur hefur hún líka tekið sig á í mataræðinu og fer nú reglulega í Trimform tæki til vinkonu sinnar. 

„Vinkona mín er með trimform tæki heima hjá sér, bekk og allar græjur og ég er búin að vera hjá henni síðan í janúar í fyrra, mæti fjórum sinnum í viku og þetta virkar ekkert smá vel! Ég er búin að missa tuttugu kíló frá því ég byrjaði hjá henni,“ segir Guðbjörg ánægð en hún tók sig líka á í mataræðinu og fór að hugsa meira út í það hvað hún borðar. 

„Ég hef verið að einbeita mér að því að borða bara meira af kjúklingi og fiski og sleppi allskonar sósum og þannig. Ég viðurkenni samt alveg að ég er sjúk í nammi og missi mig oft en þetta er búið að breyta rosalega miklu samt að hugsa aðeins út í hvað maður setur ofan í sig.“

Missti soninn frá sér þegar hann var þriggja og hálfs árs

Guðbjörg segir líf sitt ótrúlega innihaldsríkt í dag og hún þakkar fyrir hvern dag. 

„Ég er rosalega heimakær, finnst bara æðislegt að vera heima og með honum Jóa mínum. Svo er ég búin að fá ömmu mína til baka en hún var alveg steinhætt að tala við mig,“ segir Guðbjörg. „Pabbi hringir líka stundum en ég er ekki í jafn miklu sambandi við hann,“ segir hún en sjálf á Guðbjörg fimmtán ára son sem hún missti frá sér þegar hann var þriggja og hálfs árs. 

„Hann veit af mér og ég af honum en það er ekkert samband sem kalla má. Ég er búin að fá að hitta hann einu sinni með ömmu sinni eftir að ég varð edrú og hann fær núna að hugsa málið hvort hann vilji eiga meiri samskipti við mig. Þetta kemur aldrei aftur,“ segir hún með sorgartón í röddinni en bætir við að nú fái hún samt tækifæri til að verða stúpamma þar sem Jói eigi fjögur börn og þar af tvö barnabörn. 

„Næstelsta dóttir hans, sem ég elska svakalega, svakalega mikið, hún á 2 börn, eina litla sem er að verða tveggja ára og einn sem er að verða fimm ára í desember. Þau hafa aldrei séð afa sinn og ömmu í neinu rugli,“ segir hún stolt. 

Finnur frið og fyllingu í hjartanu

Innra með Guðbjörgu leynast skapandi kraftar en hún segist alltaf hafa haft gaman af því að semja ljóð. Þetta ljóð samdi hún fljótlega eftir að hún varð edrú fyrir tæpum fjórum árum en hér yrkir hún um hvernig löngunin til að lifa var farin frá henni en kom svo til baka með hjálp frá Jesú. 

Upp úr glötunargröfinni

Í margskonar raunum ég hrygg var um skeið
um tíma ég sá enga bjarta leið.
Bakkus mér stýrði um götuna ég skreið,
á hverjum degi ég deginum kveið.

Löngun í lífið mér farin var frá
á hverjum degi ég í æðina varð að fá,
gleðin var mér horfin ég hætti að sjá
og hætti að vona að ég fengi lífinu að ná.

Ég bað minn guð að gefa að ég losnaði frá
dauðanum sem dvalið hafði mér hjá,
ég þráði aftur lífið og liti fá að sjá
en Bakkus segir alltaf, "Komdu, þig ég á".

Í angist minni og hræðslu ég hrópaði Jesú á
bæn þinni er svarað líttu mig á,
Kvöl mín er á enda ég lífið fæ að sjá
og glöð ég fæ að ganga með hjarta fullt af þrá.

Guðbjörg Inga í júní 2011

Hún segir frelsun sína ekki hafa átt sér stað með dramatískum hætti þegar hún ákvað að láta Jesú lýsa sér leið í edrúmennskunni. 

„Ég sá ekkert ljós heldur upplifði frið, fékk fyllingu í hjartað sem ég hafði alltaf verið að leita að,“ segir hún.

„Þegar ég næ að vera í guði þá er ég að upplifa þessar tilfinningar. Bara frið og sátt. Ég reyni alltaf að vera með Guði en af því ég er mannleg, og þar af leiðandi fiðrildi þá get ég auðvitað farið af brautinni, en ég vanda mig samt. Ég blóta til dæmis aldrei og reyni að vera næs við náungann. Það hefur ekki alltaf verið komið fallega fram við mig í gegnum tíðina en ég þarf ekki að svara í sömu mynt. Jesú sagði líka að maður ætti að koma fram við aðra eins og maður vildi að aðrir kæmu fram við mann sjálfan,“ segir Guðbjörg glöð og kveður svo með þeim orðum að nú ætli þau Jói að horfa aðeins á þátt um sænska lögreglumanninn Kurt Wallander. 

„Við keyptum þrjá DVD diska í gær. Ég elska Wallander!“

Jóhann Traustason og Guðbjörg Inga Guðjónsdóttir eru mjög ástfangin.
Jóhann Traustason og Guðbjörg Inga Guðjónsdóttir eru mjög ástfangin. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál