Lengi í ástarsorg eftir að makinn kom út sem trans

María Magnúsdóttir var gestur Snæbjörns Ragnarssonar.
María Magnúsdóttir var gestur Snæbjörns Ragnarssonar.

María Magnúsdóttir gefur út tónlist undir nafninu MIMRA, syngur djass og kennir nýgræðingum og lengra komnum að fikra sig áfram í sinni tónsköpun. María ólst upp í miklu trúarsamfélagi og hefur drepið niður fæti í mörgum löndum í stanslausri leit sinni að nýjum áskorunum til að takast á við og yfirstíga. Hún er sprenglærður tónlistarmaður og pródúseraði eigin plötu sem lokaverkefni frá hinum virta Goldsmiths-háskóla í London.

Í dag er hún ráðsett kona á Íslandi og er hvergi nærri hætt að ögra sér. Á næstu dögum mun María koma fram á Jazzhátíð Reykjavíkur og er von á nýju efni með MIMRU í september 2021. Hún var gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþáttunum Snæbjörn talar við fólk.

María er uppalin í Garðabæ og ólst upp í sveit á milli Álftaness og Garðabæjar, á bæ sem heitir Eystri Dysjar niðri við sjó, en þar bjuggu þrjár kynslóðir; María, foreldrar hennar og amma hennar. Móðir hennar er hjúkrunarfræðingur og faðir hennar var prestur.

„Amma var með kindur og [...] hænsni held ég. Lengi var þarna á næsta bæ stærsta „handmjólkaða“ fjós Íslands. Þannig að ég þekki systkinin sem ráku það. Var oft þarna að skokka yfir og kíkja í fjósið [...] Þau voru systkini, gömul systkini sem áttu þann bæ. Þau voru alltaf úti í fjósi að mjólka og það brást ekki að þegar að ég kíkti í dyragættina þá sprautaði hann á mig, bróðirinn, mjólkinni. Beint á mig.“

Sem unglingur fór María í skiptinám til Argentínu í heilt ár. Fyrir það hafði húnorðið skotspónn stríðnispúka en í Argentínu upplifði hún sig hávaxna, ljóshærða víkingadrottningu.

„Málið er að mér hafði verið strítt svolítið mikið þegar ég var barn og þú veist, var kannski í yfirþyngd mesta barnæskuna, þannig að ég fékk svolítið mikið að heyra það. Ástæðan fyrir því að ég fór í MH var að mig langaði að fara frá Garðabæ sem fyrst [...] Og þegar ég fer til Argentínu þá var svo mikill viðsnúningur, því ég var náttúrlega með þessa litlu sjálfsmynd. Ég var þarna hávaxin og ljóshærð, með ljóst sítt hár. Allir, hver einasti – það náði mér enginn hærra en upp í öxl! [...] Þannig að ég var bara einhver víkingadrottning þarna, átján ára.“

Í fyrsta skipti sem María sótti um nám í Hollandi komst hún ekki inn í neitt af því námi sem hún sótti um í, sem var í tónsmíðar og söng. Aftur á móti komst hennar þáverandi maki inn í nám í Haag svo þau fluttu þangað og María komst inn í söngnám ári síðar, að læra djasssöng.

Á síðasta árinu þeirra í Hollandi steig maki Maríu, sem þangað til hafði lifað sem karlmaður, út úr skápnum sem transkona og þau slitu sínu sambandi. Þær reyndu að bjarga sambandinu saman og halda áfram en horfðust að lokum í augu við að þær næðu ekki að yfirstíga þetta. Í kjölfarið ákvað María að fara ein til London í mastersnám í popptónlist. Lokaverkefnið í náminu var að taka upp heila plötu og vera sinn eigin pródúsent.

Ferlið að slíta sambandi við makann var erfitt fyrir Maríu, enda segist hún ekki hafa hætt að elska manninn sem hún var með heldur upplifði hún fremur að hann væri ekki lengur til. Auðvitað tekur hún fram að slíkt sé mismunandi eftir samböndum sem ganga í gegnum svona breytingar og hún og fyrrverandi séu vinkonur í dag.

„Þetta var meira svona „við verðum að hætta saman“ en „þetta er búið – ég hata þig“. Þetta var þannig. Þetta var meira bara svona, þú veist, þetta gengur ekki. Við getum ekki blómstrað báðar svona. Við verðum að fara í sundur til þess að halda áfram lífunum okkar, einhvern veginn. [...] Þannig að ástarsorgin var vegna þess að ég elskaði enn þá og þess vegna tók hún kannski svolítið langan tíma einhvern veginn. Ég get ekki útskýrt þetta öðruvísi.“

„En hvernig gengur þá að gera hið eina rétta, augljóslega – að samgleðjast svo bara?“

„Það var bara ákvörðun sem ég tók mjög snemma. Bara – „þetta verður bara að vera svona, og nú er bara nýr kafli.“ [...] Ég varð eiginlega að taka þessa ákvörðun, sko. Af því hvað, ég ætla ekkert að verða bitur! [...] Það er hægt. Ég ætla ekki að verða bitur.“

Stuttu eftir að María flutti heim til Íslands árið 2016 kynntist hún núverandi maka sínum á Tinder. Þau náðu mjög vel saman; spjölluðu í þrjá tíma í símanum og hittust síðan samdægurs. Síðan hafa þau keypt sér hús og eignast barn.

MIMRA gefur út sex laga plötu á næstunni sem inniheldur lög sem hún samdi stuttu eftir að hún flutti heim til Íslands. Fylgist með í september þegar fyrsta lag kemur út.

Viðtalið má finna í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál