Fjóla Katrín og Jón Gunnar gengu loksins í hjónaband

Fjóla Katrín og Jón Gunnar eru loksins hjón en brúðkaupið …
Fjóla Katrín og Jón Gunnar eru loksins hjón en brúðkaupið átti að fara fram 2020. Ljósmynd/Brynjar Snær

Jón Gunnar Geirdal og Fjóla Katrín Steinsdóttir gengu í hjónaband á laugardaginn var. Það var Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur í Fríkirkjunni, sem gaf brúðhjónin saman. Það kom ekki annað til greina en að fá hann til að gefa þau saman þar sem hann hafði skírt báða syni þeirra. Eftir athöfnina héldu nýbökuðu hjónin upp á ráðahaginn í Samskipahöllinni í Kópavogi. Jón Gunnar rekur fyrirtækið Ysland en Fjóla Kristín starfar sem sálfræðingur við Háskólann í Reykjavík. 

Hjónin hnutu hvort um annað 2011 í gegnum sameiginlega vini. 

„Við hittumst fyrst í Airwaves-partíi í Bláa Lóninu og höfum vart litið til baka þessi ellefu ár sem við höfum verið saman,“ segir Jón Gunnar. 

Hvað var það við hvort annað sem þið félluð fyrir? 

„Það er ofboðslega auðvelt að falla fyrir Fjólu Katrínu og það gerði ég svo sannarlega því fegurð hennar og þokki er endalaus og augljós öllum sem hitta hana. En fegurð hennar á sér miklu meiri dýpt og mikilfengleik því það er konan sem hún er og þessi magnaða mamma og hjartalag hennar sem gerir hana að konunni sem ég elska. Þessi stórkostlega kona hjálpar mér að vera á þeim stað þar sem mér líður hvað best og það er einmitt það sem nærir ást mína á henni,“ segir Jón Gunnar. 

„Í blaðagrein sem birtist fyrir nokkru lýsti einn af vinum Jóns Gunnars honum sem „djúpvitrum töffara“ – mér fannst þessi lýsing svo frábær því ég held að þetta sé akkúrat það sem heillaði mig mest við Jón Gunnar þegar við vorum að kynnast. Hann er bæði heitur og fáránlega vel lesinn og klár. Það sem ég elska einna mest í fari hans í dag er hversu vel hann hugsar um allt fólkið sitt, foreldra sína, systur og vini. Hann er líka einstaklega góður pabbi og passar að eiga tíma fyrir börnin sín,“ segir Fjóla Katrín.  

Hér eru brúðhjónin Fjóla Katrín og Jón Gunnar ásamt Páli …
Hér eru brúðhjónin Fjóla Katrín og Jón Gunnar ásamt Páli Óskari sem spilaði í veislunni. Ljósmynd/Brynjar Snær

Hjónin ákváðu að ganga í hjónaband um haust því það er einn af þeirra uppáhaldsárstímum. 

„Okkur langaði alltaf að gifta okkur um haust sem er uppáhaldsárstíðin okkar. Litirnir eru svo fallegir í náttúrunni og það er líka oft svo mikið annað um að vera yfir sumarið. Þess vegna fannst okkur september fullkominn mánuður til að giftast,“ segir hún. 

Veislan var sérstaklega skemmtileg og vel skipulögð.
Veislan var sérstaklega skemmtileg og vel skipulögð. Ljósmynd/Brynjar Snær

Það er töluvert langt síðan hjónin ákváðu að ganga í hjónaband en veiran hafði áhrif á brúðkaupsplönin. 

„Ég bað hennar heima á náttfötunum með tveggja daga gamlan son okkar að tengdamóður viðstaddri, einlægt og fallegt augnablik sem við áttum. Þarna byrjaði ferðalagið og fyrsta dagsetning var 12. september 2020 sem þurfti að færast til 25. september 2021 út af heimsfaraldri sem svo varð 17. september 2022. Núna þegar við lítum til baka þá átti þetta að gerast á þessum degi, á þessu ári. Daginn fyrir brúðkaupið þurfti ég að skafa af framrúðunni frostið og í þrjá daga eftir brúðkaup var rigning og rok en á sjálfum brúðkaupsdeginum var gullfallegt veður, hlýtt, heiðskírt, logn og glampandi sól sem gerði haustlitina enn fallegri,“ segir hann.

Steinn Karlsson leiddi dóttur sína upp að altarinu.
Steinn Karlsson leiddi dóttur sína upp að altarinu. Ljósmynd/Brynjar Snær

Hjónin segja að brúðkaupsdagurinn þeirra hafi verið töfrum líkastur. 

„Dagurinn var stórkostlegur og í raun fullkomlega draumkenndur. Dj. Margeir spilaði á meðan beðið var eftir brúðinni og tók sú tónlist á móti brúðkaupsgestum þegar þeir nálguðust kirkjuna og gaf það notalegan tón inn í restina af deginum. Hinn yndislegi og hæfileikaríki Gunnar organisti spilaði brúðarmarsinn, Sverrir Bergmann og Jóhanna Guðrún sungu í kirkjunni og athöfnin var öll létt og skemmtileg. Veislan var svo nákvæmlega eins og við sáum fyrir okkur og stemningin ótrúleg. Óli Jó var veislustjóri og margir af vinum okkar og fjölskyldu stigu á svið með ræður og atriði. Vinur minn Rúnar Gísla meistarakokkur og Kokkarnir.is, veisluþjónusta hans, sáu um matinn sem var sælkera-street-food-hlaðborð og gómsæt kakan var frá Sætum syndum. Jón Jónsson og Friðrik Dór fóru á kostum, Páll Óskar var æðislegur eins og alltaf, Emmsjé Gauti kom fólkinu í enn meiri gír sem Auddi og Steindi settu svo í hæstu hæðir. Dj. Jón Gestur fyllti upp í allar eyður og það var svo hin óviðjafnanlega hljómsveit Bjartar Sveiflur sem setti punktinn yfir i-ið á einstökum degi þar sem fólk dansaði út nóttina,“ segir Jón Gunnar. 

Fjóla Katrín og Jón Gunnar ganga hér hönd í hönd …
Fjóla Katrín og Jón Gunnar ganga hér hönd í hönd út í lífið. Ljósmynd/Brynjar Snær

Hann er einn af þeim sem hafa skipulagt og haldið ýmiskonar stóra viðburði í gegnum tíðina. Þegar hann er spurður að því hvort það sé ekki allt öðruvísi að skipuleggja eigið brúðkaup en teiti fyrir annað fólk segir hann að það hafi verið gríðarleg pressa að láta allt ganga upp. 

„Það var vissulega skrýtið fyrir okkur hjónin að vinna í sameiginlegu Google doc-skjali í næstum þrjú ár og súrrealískt að loksins sjá daginn okkar verða að veruleika. Það var kannski ekki erfiðara að skipuleggja eigið brúðkaup en vissulega mikil pressa á að láta allt ganga upp. Það sem gerði gæfumuninn fyrir okkur í skipulagningu og framkvæmd var samstarf okkar við fagfólkið hjá HljóðX, Rentaparty, Skreytingaþjónustunni og Bjarkarblóm. Haukur hjá HljóðX sá til þess að allt hljómaði nákvæmlega eins og það átti að gera, Lára hjá Skreytingaþjónustunni fullkomnaði „moodboardið“ okkar fyrir rustic, sveitabrúðkaups-þemað og Bergþóra hjá Bjarkarblómi sá um borðskreytingar, brúðarvöndinn og blóm í hárið á brúðinni - þeirra ótrúlega vinna varð til þess að draumabrúðkaupið okkar varð að veruleika,“ segir hann.  

Hjónin kynntust 2011 og hafa verið saman síðan þá.
Hjónin kynntust 2011 og hafa verið saman síðan þá.

Hvað stendur upp úr eftir daginn? 

„Fyrst og fremst þakklæti fyrir hvað við eigum frábæra fjölskyldu og vini sem fögnuðu með okkur á þessum fallega degi. Allt þetta fólk gerði daginn ógleymanlegan fyrir okkur,“ segja hjónin, alsæl með lífið og tilveruna. 

Glæsileg brúður.
Glæsileg brúður. Ljósmynd/Brynjar Snær
Það var allt fallega skreytt í veislunni.
Það var allt fallega skreytt í veislunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál