„Kerfið hafnaði honum“

Sonur Evu Daggar Sigurgeirsdóttur var í tíunda bekk þegar hann …
Sonur Evu Daggar Sigurgeirsdóttur var í tíunda bekk þegar hann fékk ADHD-greiningu. mbl.is/Árni Sæberg

Eva Dögg Sigurgeirsdóttir, viðskipta- og markaðsfræðingur, prýðir forsíðu Smartlandsblaðsins sem fylgir Morgunblaðinu í dag. Hún segir frá því hvernig er að vera móðir barns í neyslu. Elsti sonur hennar var ekki hár í loftinu þegar aðili innan skólakerfisins tjáði henni að börn eins og hann enduðu oftast í fíkn, geðrofi eða í fangelsi. Þann raunveruleika er Eva Dögg að upplifa núna, en sonur hennar afplánar nú dóm á Litla-Hrauni.

„Sonur minn og vinir hans voru fyrir í kerfinu. Þeim var ýtt út í horn. Þeir komu allir frá góðum heimilum og með sterkt bakland. Af þessum fjórum vinum hafa tveir látist af völdum ofneyslu og einn fyrirfór sér. Sonur minn er sá eini sem er enn á lífi,“ segir Eva Dögg, en sonur hennar tekur nú út dóm. Hann á að baki langa neyslusögu en hefur náð góðum bata inni á milli.

Engin eftirfylgni

Sonur Evu Daggar er fæddur 1993 og gekk í Norðlingaskóla. Þegar hann var í tíunda bekk fékk hann greiningar, þar á meðal ADHD-greiningu. Hún segist hafa vaðið eld og brennistein og barist fyrir rétti sonar síns en það hafi ekki skilað árangri. Hún segist hafa upplifað mikið úrræðaleysi á þessum tíma og finnst eins og mörgum í svipaðri stöðu og sonur hennar hafi verið hafnað af kerfinu. Eva Dögg segir að þessir strákar hafi aldrei átt séns og telur að þeir væru allir á lífi og á öðrum stað ef það hefði verð stutt við þá. Hún segir jafnframt að kerfið hafi breyst til batnaðar á síðustu árum.

„Þegar sonur minn fékk ADHD-greiningu fyrst var nýbyrjað að greina börn með slíkt og það var komin lítil reynsla á að gefa fólki lyf til að hjálpa því. Lyfin fóru illa í hann og það var engin eftirfylgni. Þetta var allt mjög þungt í vöfum og ég var alltaf með í maganum því ég hafði svo miklar áhyggjur af honum,“ segir Eva Dögg.

Bað sálfræðinginn að yfirgefa fundinn

„Eitt sinn fór ég á fund upp í Norðlingaskóla til að berjast fyrir tilvist hans enn eina ferðina. Þá komst ég að því að hann var látinn sitja frammi í tímum svo að hann væri ekki að trufla bekkinn. Hann var sem sagt látinn teikna fyrir utan stofuna og var ekki látinn fá blað og blýant heldur átti hann að teikna beint á borðið,“ segir Eva Dögg og bætir við:

„Á þessum tíma var ég í stöðugum samskiptum við skólann og var með menntasvið Reykjavíkur á „speed dial“. Eitt sinn var ég kölluð á fund með þáverandi skólastjóra skólans og fundinn sat sálfræðingur nokkur sem var yfir sálfræðiþjónustu Árbæjar á þeim tíma. Hann sagði við mig að svona strákar eins og sonur minn færu oftast út í neyslu og enduðu svo í fangelsi,“ segir hún og játar að henni hafi brugðið mikið.

„Ég spurði sálfræðinginn hvort hann hefði hitt barnið? Þegar hann sagðist ekki hafa gert það bað ég hann að yfirgefa fundinn. Hann ætti ekki erindi ef þetta væri viðhorf hans,“ segir Eva Dögg.

„Svo endar hann þannig,“ segir hún hugsi og bætir við:

„Kerfið hafnaði honum og í raun öllum börnum með greiningu á þeim tíma, þau voru fyrir. Þetta er sem betur fer öðruvísi í dag.“

Lestu meira um málið í Smartlandsblaðinu í dag.

Eva Dögg Sigurgeirsdóttir hefur kosið að vera sólarmegin í lífinu …
Eva Dögg Sigurgeirsdóttir hefur kosið að vera sólarmegin í lífinu þótt verkefnin séu stór. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál