„Það var greinilega þörf á þessu því bókanir hrúgast inn“

Heba Brandsdóttir hefur opnað verslunina Ríteil ásamt manninum sínum og …
Heba Brandsdóttir hefur opnað verslunina Ríteil ásamt manninum sínum og börnunum þeirra sjö. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var greinilega þörf á þessu því bókanir hrúgast inn,“ segir Heba Brandsdóttir sem opnaði á dögunum verslunina Ríteil ásamt börnunum sínum, stjúpbörnum og eiginmanni. Ríteil gengur út á endursölu á notuðum fatnaði til nýrra eigenda. Heba og fjölskylda bjóða upp á ýmsar nýjungar í þessum efnum en ein af þeim er að mæta heim til fólks, sækja fötin og koma þeim í verð. 

Heba segir að hugmyndin um að stofna endursöluverslun hafi kviknað fyrir ári síðan þegar hún var að undirbúa sölu á fatnaði í endursölubúð en þá fóru þau hjónin og sonur Hebu að ræða hversu sniðugt þetta væri og hvað mætti gera betur.

„Í framhaldinu fór maðurinn minn að tala um að í Svíþjóð byðu slíkar verslanir upp á það að sækja vörur heim til fólks,“ segir Heba og segist strax hafa orðið stórhrifin af þeirri hugmynd.

Í nóvember á síðasta ári fóru hjólin að snúast þegar þau fundu hentugt húsnæði sem er á fyrstu hæð Turnsins við Smáratorg. Heba og eiginmaður hennar, Þorsteinn Schweits Þorsteinsson, eiga samtals sjö börn og eru þau öll saman í þessu.

Ragnheiður Eva Lárusdóttir, Heba Brandsdóttir, Andri Jónsson og Daði Lárusson.
Ragnheiður Eva Lárusdóttir, Heba Brandsdóttir, Andri Jónsson og Daði Lárusson. mbl.is/Kristinn Magnússon
Þau smíðuðu og máluðu básana sjálf.
Þau smíðuðu og máluðu básana sjálf. mbl.is/Kristinn Magnússon
Töskur, fylgihlutir og skór eru á sama stað.
Töskur, fylgihlutir og skór eru á sama stað. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég átti fjögur og hann þrjú þegar við kynntumst og þau eru öll hluthafar í Ríteil,“ segir Heba.

„Við vorum sammála um það að staðsetningin yrði að vera góð og það yrði að vera nóg af bílastæðum. Ég var í Jysk í nóvember þegar ég sé þetta húsnæði og var sannfærð um að þetta myndi henta vel,“ segir hún og er þá að vísa í staðsetninguna.

Heba segir að þau séu með sérstakt svæði fyrir herra í versluninni og líka með sérsvæði fyrir börn og konur. Það sé því auðvelt að finna það sem fólk er að leita að og það sé ekki allt út um allt. Eftir að fjölskyldan fékk húsnæðið afhent hafa þau unnið daga og nætur við að standsetja það og gerðu þau nánast allt sjálf.

„Krakkarnir eru duglegir á samfélagsmiðlum og hefur markaðssetningin aðallega farið fram þar. Við gerðum allt mestmegnis sjálf en við fengum húsnæðið afhent deginum áður en við hjónin fórum til LaGomera í fimmtugsafmælisferð. Á meðan við vorum í burtu sáu krakkarnir um að mála allt rýmið, síðan hjálpuðumst við öll að með aðstoð góðra vina að smíða básana og mála þá og svo settu þau blóm í loftið. Þetta er skemmtilegt hvað útkoman er flott,“ segir hún og er stolt af sínu fólki.

Blómin í loftinu setja svip á verslunina.
Blómin í loftinu setja svip á verslunina. mbl.is/Kristinn Magnússon
Daði, Andri, Heba og Ragnheiður Eva skipta með sér vöktum.
Daði, Andri, Heba og Ragnheiður Eva skipta með sér vöktum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fóru milliveginn

Heba segist í gegnum tíðina hafa verið dugleg að endurnýta fatnað og hún segir að það skipti máli að slík verslun sé aðgengileg. Aðspurð að því hvað kosti að leigja bás segir hún að þau hafi farið milliveginn í verðlagningu ef miðað er við sambærilegar verslanir.

„Við tökum 26% af almennri básaleigu, í heimsendingu þá tökum við 46% en þá sjáum við um allt frá A-Ö. Okkur finnst skipta máli að búðin sé snyrtileg og viljum ekki hlaða of miklu á básana.“

Hvað sækist fólk mest eftir að eignast? Vill þjóðin merkjavöru?

„Það er mjög blandaður aldurshópur sem verslar hjá okkur og það er að fara allt mögulegt og mikið af merkjavöru inn á milli,“ segir hún. 

Inni á vefnum geta básaleigjendur sett inn myndir af vörunum sínum og þá birtast þær þannig að auðvelt er að finna þær í versluninni.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon

Missti vinnuna og fór að vinna fyrir Barnavernd 

Heba starfaði áður sem flugfreyja, bæði hjá Wow Air og Icelandair. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á fór hún að vinna fyrir Barnavernd í Hafnarfirði.

„Ég hef verið með vistheimili fyrir börn sem þurfa skammtímavistun. Þegar ég missti vinnuna hjá Icelandair, þegar kórónuveiran geisaði, þá ákváðum við að prófa þetta. Ég er enn þá í því annan hvern mánuð því starfið er mjög gefandi þótt það sé krefjandi. Það er gott að geta tekið á móti og hlúð að þeim sem þurfa á þessu að halda,“ segir Heba. Hún býst þó við því að þau fjölskyldan þurfi á einhverjum tímapunkti að ráða inn starfsfólk hjá Ríteil en fyrst um sinn skiptast þau á að standa vaktina.

Allir skór eru á sama stað.
Allir skór eru á sama stað. mbl.is/Kristinn Magnússon
Básarnir eru vel merktir.
Básarnir eru vel merktir. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál