Óli Baldur: Vissi af markinu á bakvið mig

Úr leik Grindavíkur og KR í kvöld.
Úr leik Grindavíkur og KR í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég var í rauninni ekkert að hugsa. Boltinn kom bara til mín í loftinu og ég vissi af markinu á bakvið mig þannig að það var lítið annað að gera en að láta vaða,“ sagði Óli Baldur Bjarnason hetja Grindvíkinga en hann skoraði glæsilegt jöfnunarmark gegn KR í Pepsideildinni í kvöld.

„Maður er ekkert að æfa þetta. Það er sjaldan stillt upp fyrir hjólhestaspyrnur á æfingum en þetta getur alltaf gerst. Þetta er pottþétt fallegasta markið mitt í efstu deild,“ sagði Óli Baldur um markið. Grindavík hefur núna leikið sjö leiki í röð án þess að tapa en sex þeirra hafa endað með jafntefli.

„Það er möguleiki á að fara nánast ósigraðir í gegnum seinni umferðina því við höfum bara tapað einum leik í henni, held ég, og það væri auðvitað óskandi að það tækist. Við höfum samt verið að gera mikið af jafnteflum en hefðum alveg getað stolið sigrinum hérna í dag,“ sagði Óli Baldur sem er bjartsýnn á að Grindavík haldi sæti sínu í deildinni.

„Stemningin hjá okkur er orðin mjög góð. Við erum orðnir mjög þéttir og svo höfum við verið heppnari uppi við mark andstæðinganna að undanförnu, eins og sást í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert