Blikar í undanúrslit eftir stórsigur

Gunnleifur Gunnleifsson markvörðurinn snjalli í liði Blika.
Gunnleifur Gunnleifsson markvörðurinn snjalli í liði Blika. mbl.is/Ómar Óskarsson

Breiðablik tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu með stórsigri á Víkingi R. í Víkinni, 5:1. Blikar voru 2:0 yfir í leikhléi og voru vel að sigrinum komnir.

Blikar komust yfir með fyrsta skoti leiksins en það átti Daninn Nichlas Rohde. Hann fékk góða fyrirgjöf frá Kristni Jónssyni af vinstri kantinum, tók boltann niður með brjóstkassanum og skoraði neðst í hægra hornið.

Pape Mamadou Faye fékk tvö fín færi fyrir Víkinga fimm mínútum síðar, bæði við markteiginn, en tókst ekki að nýta þau. Þess í stað jók Elfar Árni Aðalsteinsson muninn í 2:0 með glæsilegu marki eftir rúmlega hálftíma leik. Hann fékk flotta sendingu frá Tómasi Óla Garðarssyni, lék til hliðar við varnarmann við vítateiginn vinstra megin og smellti boltanum í hægra hornið, óverjandi fyrir fyrrverandi markvörð Blika, Ingvar Þór Kale.

Víkingar byrjuðu seinni hálfleikinn af nokkrum krafti en fengu svo á sig þriðja markið úr skyndisókn og þar með voru úrslitin svo að segja ráðin. Ellert Hreinsson skoraði þriðja markið en hann slapp einn gegn Ingvari eftir sendingu Andra Rafns Yeoman.

Kristinn Jónsson skoraði svo fjórða markið en það var afar laglegt. Hann fékk sendingu frá Árna Vilhjálmssyni og geystist inn í vítateigin vinstra megin. Hann var svo nánast uppi við endamörk, þóttist ætla að gefa út í teiginn en vippaði þess í stað yfir Ingvar úr þessu þrönga færi.

Varamaðurinn Arnþór Ingi Kristinsson náði að klóra í bakkann fyrir Víkinga með skallamarki eftir fyrirgjöf Viktors Jónssonar en Blikar svöruðu að bragði með marki Nichlas Rohde sem lyfti boltanum skemmtilega yfir varnarmann og skoraði úr teignum eftir sendingu Árna.

Víkingur R.: (4-3-3) Mark: Ingvar Þór Kale. Vörn: Marko Pavlov, Óttar Steinn Magnússon, Halldór Smári Sigurðsson, Hjalti Már Hauksson. Miðja: Igor Taskovic, Kristinn Jóhannes Magnússon, Aron Elís Þrándarson. Sókn: Dofri Snorrason, Pape Mamadou Faye, Sigurður Egill Lárusson.
Varamenn: Skúli Sigurðsson, Arnþór Ingi Kristinsson, Kjartan Dige Baldursson, Kristinn Jens Bjartmarsson, Ívar Örn Jónsson, Viktor Jónsson, Gunnar Helgi Steindórsson.

Breiðablik: (4-3-3) Mark: Gunnleifur Gunnleifsson. Vörn: Þórður Steinar Hreiðarsson, Sverrir Ingi Ingason, Renee Troost, Kristinn Jónsson. Miðja: Finnur Orri Margeirsson, Andri Rafn Yeoman, Tómas Óli Garðarsson. Sókn: Nichlas Rohde, Ellert Hreinsson, Elfar Árni Aðalsteinsson.
Varamenn: Arnór Bjarki Hafsteinsson, Guðjón Pétur Lýðsson, Olgeir Sigurgeirsson, Viggó Kristjánsson, Jökull Elísabetarson, Árni Vilhjálmsson, Páll Olgeir Þorsteinsson.

Víkingur R. 1:5 Breiðablik opna loka
90. mín. Viktor Jónsson (Víkingur R.) á skot sem er varið Skot hægra megin úr teignum sem Gunnleifur varði í horn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert