Íslendingarnir í minnihluta?

Bjarni Guðjónsson þjálfari KR
Bjarni Guðjónsson þjálfari KR mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar flautað verður til leiks í viðureign KR og FH í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu mánudagskvöldið 4. maí gæti það gerst í fyrsta sinn í viðureign félaganna að fleiri erlendir leikmenn en íslenskir verði inni á vellinum.

Danski miðjumaðurinn Jacob Schlupp bættist í hóp KR-inga í gær, þegar þeir fengu hann frá OB í Danmörku. Þar með getur KR stillt upp sex erlendum leikmönnum í sínu byrjunarliði og FH sex í þessum fyrsta sannkallaða stórleik Íslandsmótsins 2015.

Schoop kemur frá OB

Schoop, sem er 26 ára gamall miðjumaður og hefur spilað 61 leik með OB í dönsku úrvalsdeildinni, átta þeirra í vetur, er þriðji Daninn sem KR-ingar fá til sín í vetur. Áður voru komnir framherjinn Sören Frederiksen frá AaB og miðvörðurinn Rasmus Christiansen frá Ull/Kisa í Noregi en hann var áður leikmaður ÍBV.

Auk þeirra eru Gary Martin frá Englandi, Gonzalo Balbi frá Úrúgvæ og Farid Zato frá Tógó áfram í röðum KR-inga.

Hjá FH eru sjö erlendir leikmenn, þeir Kassim Doumbia frá Malí, Jonathan Hendrickx frá Belgíu, Sam Hewson frá Englandi, Sam Tillen frá Englandi og Steven Lennon frá Skotlandi eru allir áfram og við hafa bæst Belginn Jérémy Sewry og Senegalinn Amath Diedhiou. Reyndar gæti Doumbia ekki spilað þennan leik, hann byrjar tímabilið í fjögurra leikja banni, en eftir sem áður geta sex erlendir leikmenn hafið leikinn hjá FH, eins og hjá KR.

Heimir Guðjónsson þjálfari FH
Heimir Guðjónsson þjálfari FH mbl.is/Ómar Óskarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert