„Eins og svínin og kjúklingarnir“

Ellert Hreinsson í baráttu við Hólmar Örn Rúnarsson á síðustu …
Ellert Hreinsson í baráttu við Hólmar Örn Rúnarsson á síðustu leiktíð. mbl.is/Árni Sæberg

Lokaleikurinn í 1. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu verður á Fylkisvellinum í kvöld þegar Fylkir fær Breiðablik í heimsókn.

Sparkspekingar hafa spáð því að þessi tvö lið geti blandað sér í toppbaráttu deildarinnar í sumar en þau hafa sýnt góða takta á undirbúningstímabilinu og Blikarnir eru nýkrýndir Lengjubikarmeistarar.

„Við erum bara eins og svínin og kjúklingarnir í þessu verkfalli. Við sitjum bara inni og bíðum átekta,“ sagði framherjinn Ellert Hreinsson leikmaður Breiðabliks við mbl.is þegar hann var inntur álits á rimmunni í kvöld.

Eins og frægt er orðið var leiknum frestað vegna vallaraðstæðna á Fylkisvellinum en leikurinn átti að fara fram á sunnudaginn.

„Það er hugur í okkur og ekki annað hægt. Við viljum halda áfram að byggja ofan á það góða sem við höfum gert á undirbúningstímabilinu. Við mætum dýrvitlausir til leiks í kvöld en við gerum okkur grein fyrir því að munum fá kröftuga mótspyrnu frá Fylkismönnum sem eru vel mannaðir. Fylkir er með hörkugott lið og við verðum að vera klárir í hausnum áður en við göngum til leiks í kvöld,“ sagði Ellert en Blikarnir hafa náð að æfa á grasi síðustu daga og eru klárir í slaginn að sögn Ellerts. „Fylkisvöllurinn er búinn að fá góða hvíld,“ sagði Ellert og hló við.

Ellert hefur átt góðu gengi að fagna með Breiðabliks-liðinu á undirbúningstímabilinu og spurður hvort hann ætli að reima á sig markaskóna í kvöld sagði hann;

„Það er vonandi. Skórnir eru alla vega vel pússaðir og glansa og þeir skila vonandi sínu í kvöld.“

Leikur Fylkis og Breiðabliks hefst klukkan 19.15 og verður fylgst með honum í beinni textalýsingu hér á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert