Heimasigur ólíklegur á Fylkisvelli

Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Daði Ólafsson í leik Breiðabliks og …
Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Daði Ólafsson í leik Breiðabliks og Fylkis í fyrra. mbl.is/Ómar

Fylkir og Breiðablik mætast í síðasta leiknum í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í kvöld en viðureign liðanna hefst á Fylkisvellinum klukkan 19.15.

Bæði lið hafa þótt lofa góðu á undirbúningstímabilinu, sérstaklega Blikarnir sem hafa ekki tapað mótsleik frá áramótum og unnu níu leiki í röð í Lengjubikarnum þar sem þeir stóðu uppi sem sigurvegarar. Þau eru bæði talin líkleg til að blanda sér í baráttuna um Evrópusæti í ár.

Líklegir markaskorarar í kvöld eru Albert Brynjar Ingason hjá Fylki og Ellert Hreinsson hjá Breiðabliki. Þeir koma báðir sjóðheitir til leiks á Íslandsmótinu eftir að hafa skorað 9 mörk hvor í mótsleikjum vetrarins. Þá skoraði Arnþór Ari Atlason 7 mörk fyrir Breiðablik í vetur en hann kom til liðsins frá Fram.

Ósvald Jarl Traustason, bakvörður úr Breiðabliki, tekur út leikbann í kvöld en hann lék með Fram í fyrra og fékk þá rauða spjaldið í lokaumferð deildarinnar - einmitt í leik gegn Fylki.

Lítum á hvað sagan segir okkur um viðureignir Fylkis og Breiðabliks sem voru í fyrsta skipti saman í efstu deild árið 1996.

Þegar Fylkir og Breiðablik mætast í efstu deild karla í fótbolta virðist heimavöllur ekki vera sérstakt vígi. Sjö síðustu viðureignir félaganna, frá árinu 2011, hafa endað með jafntefli eða sigri útiliðsins.

Í fyrra enduðu báðir leikirnir með jafntefli, 1:1 í Árbænum og 2:2 á Kópavogsvelli.

Félögin hafa mæst 24 sinnum í efstu deild frá 1996 og aðeins sjö af þeim leikjum hafa endað með heimasigri. Breiðablik hefur sigrað sex sinnum í tólf heimsóknum í Árbæinn og Fylkir fimm sinnum á Kópavogsvelli. Blikar hafa samtals unnið 10 leiki liðanna en Fylkir átta.

Kjartan Ágúst Breiðdal hefur skorað þrjú mörk fyrir Fylki í leikjum gegn Breiðabliki í deildinni undanfarin tvö ár.

Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, skoraði sitt síðasta mark á ferlinum þegar Breiðablik vann Fylki, 1:0, á Kópavogsvellinum sumarið 2009.

Kristinn Steindórsson hafði sérstakt lag á að skora fyrir Breiðablik gegn Fylki en hann gerði sjö mörk í viðureignum liðanna frá 2007 til 2011. Síðast þrennu í 3:1 sigri á Kópavogsvelli árið 2011, en það er einmitt síðasti leikur liðanna sem hefur endað með heimasigri.

Fylkir hefur tvisvar unnið fimm marka sigur á Breiðabliki. Fyrst í fyrstu viðureign félaganna í deildinni, sem var á Kópavogsvelli í fyrstu umferðinni árið 1996, en þar vann Fylkir 6:1 eftir að Blikar voru 1:0 yfir í hálfleik. Kristinn Tómasson skoraði tvö marka Fylkis.

Árið 2000 voru liðin saman í efstu deild á ný og þá vann Fylkir 5:0 á Fylkisvelli þar sem Sævar Þór Gíslason og Gylfi Einarsson skoruðu tvö mörk hvor.

Stærsti sigur Breiðabliks á Fylki kom á Fylkisvelli sumarið 2007. Þá unnu Blikar 3:0 þar sem Kristinn Steindórsson skoraði tvö mörk og Gunnar Örn Jónsson eitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert