Tímamótasigur Vals - bið Víkinga lengist

Atli Jóhannsson í leiknum við Fjölni í gærkvöld.
Atli Jóhannsson í leiknum við Fjölni í gærkvöld. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Sá leikjahæsti í efstu deild spilaði sinn fyrsta leik á tímabilinu. Valur fagnaði 50. sigrinum á KR, Víkingar hafa ekki unnið FH í tæpan aldarfjórðung og tveir ungir piltar stigu sín fyrstu skref í efstu deild á meðan annar lék 100. leikinn. Þetta og fjölmargt fleira í samantekt dagsins um það sem gerðist í 7. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í gærkvöld.

Úrslit leikjanna:
Keflavík - ÍBV 3:1
Valur - KR 3:0
Stjarnan - Fjölnir 1:3
ÍA - Fylkir 0:0
Leiknir R. - Breiðablik 0:2
Víkingur R. - FH 0:1

Valsmenn lögðu KR-inga í 50. skipti á Íslandsmóti meistaraflokks karla með því að sigra þá 3:0 á Hlíðarenda. Þetta var jafnframt fyrsti sigur Vals gegn KR á heimavelli í átta ár en í síðustu sjö heimsóknum höfðu KR-ingar sigraði sex sinnum og einu sinni orðið jafntefli. KR hefur unnið 55 viðureignir gegn Val en alls hafa félögin mæst 145 sinnum á Íslandsmótinu frá árinu 1915.

Bið Víkinga á sigri gegn FH lengist enn eftir ósigurinn, 0:1, í Fossvoginum. Víkingar lögðu FH síðast í efstu deild fyrir 24 árum, árið 1991, þá 4:2 í Kaplakrika, en frá þeim tíma hefur FH sigrað tíu sinnum og sex sinnum orðið jafntefli í sextán viðureignum liðanna í deildinni.

Atli Jóhannsson úr Stjörnunni, Tómas Þorsteinsson úr Fylki og Ólafur Valur Valdimarsson úr ÍA komu inní byrjunarlið sinna félaga í gærkvöld en þeir voru allir frá vegna meiðsla og höfðu ekki verið í leikmannahópi í fyrstu sex umferðunum. Þá kom markvörðurinn Sindri K. Ólafsson inn í byrjunarlið Keflavíkur eftir að hafa setið á bekknum í fyrstu sex leikjunum.

Atli Jóhannsson er leikjahæstur allra núverandi leikmanna í efstu deild hér á landi en þetta var hans 234. leikur í deildinni. Ef Atli spilar fjórtán af þeim fimmtán leikjum sem Stjarnan á eftir verður hann í haust orðinn sjöundi leikjahæsti leikmaður í sögu efstu deildar hérlendis.

Mark Magee úr Fjölni og Leonard Sigurðsson úr Keflavík voru báðir í fyrsta sinn í byrjunarliðum sinna félaga í deildinni á þessu tímabili eftir að hafa áður verið í hlutverkum varamanna. Hinn bandaríski Magee hélt uppá það með því að skora tvö mörk hjá Íslandsmeisturum Stjörnunnar og Leonard skoraði fyrir Keflvíkinga í botnslagnum gegn Eyjamönnum.

Leonard gerði þar sitt fyrsta mark í efstu deild og sama gerði Bjarni Þór Viðarsson þegar hann skoraði sigurmark FH gegn Víkingum.

Þeir Arnór Eyvar Ólafsson úr Fjölni og Ingimar Elí Hlynsson úr ÍA voru líka í fyrsta skipti í byrjunarliði sinna félaga.

Ægir Jarl Jónasson, 17 ára, kom inná hjá Fjölni gegn Stjörnunni og lék sinn fyrsta leik í efstu deild og það gerði líka Arnór Gauti Ragnarsson, 18 ára piltur úr Breiðabliki sem kom inná gegn Leikni.

Veigar Páll Gunnarsson, sóknarmaðurinn reyndi úr Stjörnunni, lék sinn 100. leik í efstu deild hér á landi. Af þeim eru 70 fyrir Stjörnuna og 30 fyrir KR. Veigar lék hinsvegar 176 leiki í efstu deild í Noregi á sínum tíma og fimm í Frakklandi.

Fjölnir hefur ekki áður fagnað sigri í efstu deild á heimavelli Stjörnunnar en þetta var þriðja viðureign félaganna þar í deildinni.

Eftir markalausa jafnteflið gegn ÍA á Akranesi hafa Fylkismenn nú aðeins tapað einu sinni í síðustu níu heimsóknum sínum á Skagann.

Breiðablik vann Leikni í fyrstu viðureign félaganna, ekki aðeins í efstu deild heldur hafa þessi félög aldrei áður mæst í neinni deild Íslandsmótsins.

Fjölnismenn fagna Mark Magee, lengst til hægri, eftir að hann …
Fjölnismenn fagna Mark Magee, lengst til hægri, eftir að hann skoraði annað marka sinna gegn Stjörnunni. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
Arnþór Ingi Kristinsson og Davíð Þór Viðarsson í leik Víkings …
Arnþór Ingi Kristinsson og Davíð Þór Viðarsson í leik Víkings og FH. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert