Ekki frábært en héldum hreinu og skoruðum sex

„Það er ekki hægt annað en að vera ánægð þegar maður vinnur 6:0,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður Breiðabliks, sem skoraði þrjú af sex mörkum liðsins í öruggum sigri á Val í Pepsi-deild kvenna í kvöld.

„Við vorum ekkert að spila frábærlega vel, en héldum hreinu og skoruðum sex,“ sagði Fanndís, og sýnir þetta svar ef til vill yfirburði liðsins í leiknum. Blikar eru nú aðeins einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum, þeim fyrsta í tíu ár. Blikar hafa haldið hreinu í tólf leikjum í röð og Fanndís segir það einn af lykilþáttunum.

„Ég mundi segja það. Varnarleikurinn í heild sinni hefur verið mjög góður, byrjar frá fremsta manni og alveg aftur til markmanns. Sem betur fer er þetta algjörlega í okkar höndum. Við þurfum að klára okkar og þá er titillinn okkar,“ sagði Fanndís, en nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert