Blikar geta enn orðið meistarar

Úr leik FH og Breiðabliks í dag.
Úr leik FH og Breiðabliks í dag. mbl.is/Eva Björk

Breiðablik hélt lífi í Íslandsmeistaravonum sínum með því að vinna FH á Kópavogsvelli í dag, 2:1, þrátt fyrir að hafa lent undir seint í leiknum, í 20. umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu.

Þegar tvær umferðir eru eftir þarf FH að ná í tvö stig úr leikjum sínum við Fjölni og Fylki til að vera öruggt um að landa titlinum. Breiðablik mætir ÍBV á heimavelli og Fjölni á útivelli í síðustu tveimur leikjum sínum.

Blikar tryggðu sér endanlega Evrópusæti með sigrinum en þeir geta ekki endað neðar en í 3. sæti.

Eftir heldur rólegan leik, þar sem bæði lið fengu þó sín færi, komst FH yfir á 72. mínútu með laglegu marki frá Atla Guðnasyni. Strax í kjölfarið blésu Blikar til stórsóknar og það skilaði árangri um leið. Atli Sigurjónsson var arkitektinn að tveimur mörkum með skömmu millibili. Fyrst sendi hann fyrirgjöf á Jonathan Glenn sem skoraði af stuttu færi, og svo á Damir Muminovic sem gerði slíkt hið sama.

FH lagði allt í sölurnar í lokin til að jafna metin, og tryggja sér sinn sjöunda Íslandsmeistaratitil, en hafði ekki erindi sem erfiði. Atli Viðar Björnsson komst næst því en náði ekki að koma skoti á markið eftir að hafa farið framhjá Gunnleifi Gunnleifssyni markverði.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is Viðtöl koma inn síðar í kvöld.

Breiðablik 2:1 FH opna loka
90. mín. Vá! Stórhætta við mark Blika og þarna hélt ég að Atli Viðar Björnsson myndi tryggja FH titilinn. Hann komst með boltann framhjá Gunnleifi en var þá kominn í of þröngt færi og reyndi að senda boltann inn í miðjan teiginn, þar sem Blikar komu honum í burtu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert