Leiðinlegt að þetta endi svona

Atli Sigurjónsson.
Atli Sigurjónsson. mbl.is/Eva Björk

„Ég hafði mikla trú á að Fjölnir myndi taka stig af FH í dag, svo mér fannst þetta alls ekki vera búið. Þess vegna er þetta mjög svekkjandi,“ sagði Atli Sigurjónsson, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is en hann skoraði sigurmark Blika í 1:0-sigri á ÍBV í dag.

Blikar gerðu því sitt í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn, en þurftu að treysta á hagstæð úrslit í leik FH og Fjölnis. Þar fóru FH-ingar hins vegar með sigur af hólmi og tryggðu sér titilinn.

„Það er leiðinlegt að þetta skyldi enda svona, maður varð spenntur að heyra þegar Fjölnir jafnaði í Krikanum en að sama skapi svekkjandi þegar farið var að syngja: „Það er öllum sama um titilinn“ þegar heyrðist að FH var búið að skora,“ sagði Atli, en sagði það ekki hafa verið mistök að lesið væri upp í kallkerfinu hvernig staðan var í öðrum leikjum.

Atli skoraði sigurmarkið snemma í síðari hálfleik, en eftir það virtist allur vindur úr Blikum. „Það virtist vera eitthvað stress. Við héldum boltanum illa og vorum bara að bíða eftir klukkunni eins og þetta væri algjör úrslitaleikur, eins og hann kannski var. Það var skrítið að þurfa að treysta á önnur úrslit. En við kláruðum okkar, það hefði verið mjög svekkjandi að gera jafntefli hérna og FH líka og deildin hefði klárast þannig,“ sagði Atli, sem sjálfur hefur komið sterkur inn í lið Blika síðustu vikur.

„Þetta er búið að vera fínt núna undanfarið. Ég komst í almennilegt form þegar leið á sumarið eftir erfitt undirbúningstímabil, svo þetta var erfitt í upphafi móts,“ sagði Atli, og segir Blika bara mæta ákveðnari til leiks að ári og gera betur en silfrið.

„Klárlega. Við förum að undirbúa næsta tímabil eftir leikinn í næstu viku og ætlum að koma til baka enn sterkari,“ sagði Atli Sigurjónsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert