„Hef aldrei gefist upp í lífinu“

Árni Vilhjálmsson.
Árni Vilhjálmsson. mbl.is/Golli

„Uppleggið hjá okkur var að koma hingað og vinna og það var svekkjandi að ná því ekki,“ sagði Árni Vilhjálmsson, framherji Breiðabliks, við mbl.is eftir jafntefli sinna manna gegn FH-ingum í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Árni skoraði mark Blika og kom þeim yfir með sínu fimmta marki í áttunda leiknum en aðeins mínútu síðar jöfnuðu FH-ingar metin og þar við sat.

„Ég var heilt yfir sáttur við okkar leik. Mér fannst við stjórna fyrri hálfleiknum en þó svo að FH-ingarnir hafi verið meira með boltann í seinni hálfleiknum voru þeir ekki að skapa sér neitt. Það var drullufúlt að láta þá jafna nánast á sömu mínútunni og við komumst yfir og kannski var það vendipunkturinn. FH er þannig lið að það refsar,“ sagði Árni, sem fékk dauðafæri strax eftir 15 sekúndur en skaut yfir markið.

„Já, ég hitti boltann ekki nógu vel en maður með mín gæði á að klára svona færi. Ég náði sem betur fer að bæta upp fyrir þetta síðar í leiknum. Ég hefði viljað setja meiri slagkraft í leik okkar miðað við stöðuna sem við vorum í en þarna voru klárlega bestu liðin að mætast. FH er vissulega komið í sterka stöðu en ég treysti á mína menn í Árbænum og að þeir vinni FH í næsta leik. Ég hef aldrei gefist upp í lífinu og ég geri það ekki núna meðan möguleikinn er enn til staðar,“ sagði Árni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert