Tokic hefur að geyma það sem okkur hefur vantað

Hrvoje Tokic lék með Víkingi Ólafsvík en er nú kominn …
Hrvoje Tokic lék með Víkingi Ólafsvík en er nú kominn til liðs við Breiðablik. mbl.is/Alfons

Eftir vonbrigði síðasta tímabils í Pepsi-deild karla í knattspyrnu, þegar liðið missti frá sér Evrópusæti, ætlar Breiðablik í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn í sumar. Í því skyni hefur félagið fengið tvo af fjórum markahæstu leikmönnum deildarinnar í fyrra, Hrvoje Tokic og Martin Lund, til að bæta úr helsta vandamáli liðsins, markaleysinu.

„Við reynum alltaf að líta fyrst inn á við og ef það eru leikmenn þar sem við getum notað þá gerum við það. Í bland fáum við svo sterka leikmenn til að styrkja liðið, því við ætlum að berjast við FH-ingana og önnur lið sem verða þarna í toppbaráttunni. Þá þurfum við 2-3 sterka leikmenn til að hjálpa okkur,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, þegar Morgunblaðið heyrði í honum í gær. Arnar var þá á leið heim frá Bandaríkjunum þar sem hann var staddur til að skoða fleiri leikmenn, og kvaðst reikna með því að Breiðablik fengi til sín fleiri leikmenn áður en flautað verður til leiks í Pepsi-deildinni 30. apríl:

„Ég á frekar von á því. Við erum ekki alveg búnir. Við erum ennþá að skoða fram á við. Þar eru þær stöður sem maður þarf að hafa mestu breiddina í.“

Breiðablik greindi í gær frá samningi sínum við Tokic, sem skoraði 9 mörk fyrir Víking Ólafsvík í fyrra og 12 mörk í 8 leikjum í 1. deildinni 2015. Til skoðunar var að fá Tokic á miðju tímabili í fyrra en það gekk ekki eftir, heldur sneri Árni Vilhjálmsson aftur heim sem lánsmaður frá Lilleström. Árni er nú genginn til liðs við Jönköping Södra.

Nánar er rætt við Arnar Grétarsson í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert