Fylkir vann Lengjubikarinn

Hulda Sigurðardóttir er einn reyndasti leikmaðurinn í ungu liði Fylkis ...
Hulda Sigurðardóttir er einn reyndasti leikmaðurinn í ungu liði Fylkis í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Fylkiskonur urðu í dag sigurvegarar í B-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu þegar þær sigruðu Hauka, 2:1, á Ásvöllum í lokaumferðinni.

Fyrir síðustu leikina gátu ÍA, Fylkir og KR öll unnið deildina. Fylkir var hinsvegar eina liðið af þessum þremur sem vann sigur í lokaumferðinni í dag. KR  gerði markalaust jafntefli á Selfossi og ÍA, sem var með eins stigs forystu á hin tvö liðin fyrir leikina, tapaði 2:1 í Grindavík.

Fylkiskonur lentu undir á Ásvöllum þegar Vienna Behnke, nýr bandarískur leikmaður Hauka, kom Hafnarfjarðarliðinu yfir. Jesse Shugg, landsliðskona Filippseyja sem Fylkir fékk frá Tindastóli í vetur, jafnaði fyrir Árbæinga og varamaðurinn Íris Dögg Frostadóttir skoraði sigurmarkið á 75. mínútu.

Í B-deildinni léku fjögur neðstu lið úrvalsdeildar í fyrra ásamt þremur efstu liðum 1. deildar. Fylkir fékk 12 stig, KR 10, ÍA 10, Grindavík 9, Keflavík 7, Haukar 4 og Selfoss 4 stig.

mbl.is