Feðgar heiðraðir fyrir markaskor

Arnar Grétarsson, Grétar Kristjánsson og Sigurður Grétarsson með viðurkenningarnar.
Arnar Grétarsson, Grétar Kristjánsson og Sigurður Grétarsson með viðurkenningarnar. Ljósmynd/blikar.is

Bræðurnir Arnar og Sigurður Grétarssynir og faðir þeirra Grétar Kristjánsson voru allir heiðraðir fyrir leik Breiðabliks og KA í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu um síðustu helgi fyrir mikið markaskor fyrir Kópavogsfélagið.

Feðgarnir þrír eru allir í hópi þeirra ellefu leikmanna í sögu Breiðabliks sem hafa skorað 50 mörk eða meira í mótsleikjum meistaraflokks karla.

Sigurður er í 4. sæti með 71 mark, Arnar er í 7. sæti með 61 mark og Grétar er í 11. sætinu með 50 mörk fyrir félagið en hann spilaði með Breiðabliki áður en félagið komst í fyrsta skipti í efstu deild árið 1971, eða frá 1957 til 1968.

Guðmundur Þórðarson er markahæstur í sögu félagsins en umfjöllun um þessa ellefu mestu markaskorara Breiðabliks má sjá á vef stuðningsklúbbs félagsins

Þegar saga Breiðabliks í efstu deild er skoðuð koma Arnar og Sigurður mikið við sögu. Arnar, sem er núverandi þjálfari meistaraflokks félagsins, er næst leikjahæstur í sögu þess í deildinni með 143 leiki en Andri Rafn Yeoman sló met hans á síðasta ári. Arnar er jafnframt í 7.-8. sæti yfir þá markahæstu með 20 mörk í deildinni. Sigurður er hinsvegar sá næst markahæsti með 31 mark fyrir Breiðablik í efstu deild en hann þjálfaði síðar liðið á árunum 1998 til 2001.

Þeir bræður léku báðir lengi erlendis sem atvinnumenn. Arnar, sem lék í Grikklandi og Belgíu, spilaði 71 A-landsleik fyrir Ísland og Sigurður, sem lék í Þýskalandi, Grikklandi og Sviss, spilaði 46 landsleiki þar sem hann skoraði 8 mörk. Sigurður lék fyrst með meistaraflokki Breiðabliks árið 1979 og síðast árið 2000 og Arnar lék fyrst 1988 en síðast árið 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert