Ætlum ekki að ræða meira um það sem er í gangi

Sigurður Víðisson ræðir við fjölmiðla eftir tapið gegn Stjörnunni í …
Sigurður Víðisson ræðir við fjölmiðla eftir tapið gegn Stjörnunni í kvöld. mbl.is/Andri Yrkill

„Við erum ekkert að fara á taugum,“ sagði Sigurður Víðisson við mbl.is eftir 3:1-tap Breiðabliks fyrir Stjörnunni í þriðju umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Sigurður stýrði liðinu í leiknum, en hann var áður aðstoðarmaður Arnars Grétarssonar sem var rekinn fyrir helgi. Blikar eru án stiga á botninum.

„Þetta var tap en við stóðum okkur frábærlega vel í öllu nema þessum skítamörkum sem við fengum á okkur. Ég er mjög ánægður með strákana og það er mikil framför. Við sóttum líka grimmt og reyndum að skora sem var mjög gott,“ sagði Sigurður.

Michee Efete spilaði sinn fyrsta leik í vörn Blika í leiknum eftir að hafa komið að láni frá enska B-deildarliðinu Norwich fyrir helgi.

„Hann var mjög góður. Þetta er hörkuleikmaður, grjótharður og með fínar sendingar,“ sagði Sigurður, sem hefur engar áhyggjur af því að sóknarmennirnir Martin Lund og Hrvoje Tokic séu ekki komnir á blað.

„Hann [Tokic] skorar bara meira í seinni umferðinni, þeir hafa ætlað sér að vera búnir að skora fyrir löngu síðan félagarnir en það hefur bara ekki gengið,“ sagði Sigurður.

Sem fyrr segir hefur mikið gengið á í herbúðum Blika síðustu daga en Sigurður vildi sem minnst fara út í þá sálma þegar mbl.is gekk á hann.

„Við ætlum ekkert að ræða meira um það sem er í gangi og erum bara bjartsýnir á framhaldið,“ sagði Sigurður.

Veistu hvort þú munir stýra Blikum í næsta leik?

„Ekki hugmynd. Það kemur bara í ljós,“ sagði Sigurður Víðisson að lokum við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert