Óvænt úrslit gerast á sumrin

Aron Einar Gunnarsson
Aron Einar Gunnarsson mbl.is/Kristinn Magnússon

„Andrúmsloftið er gott og menn eru búnir að bíða lengi eftir þessu, við erum jákvæðir og rólegir," sagði Aron Einar Gunnarsson, landliðsfyrirliði í knattspyrnu er hann sat fyrir svörum fréttamanna á fundi á Laugardalsvelli í dag. Ísland mætir Króatíu á Laugardalsvelli annað kvöld í gríðarlega mikilvægum leik í undankeppni HM í Rússlandi á næsta ári. 

„Við höfum farið yfir mikið af klippum og í síðustu þremur leikjum á móti þeim hafa verið þrjú rauð spjöld. Við þurfum að vera klókir því þeir koma til með að vera klókir. Við höfum lært ýmislegt af þessum þremur leikjum á móti þeim og fengið jákvæða reynslu."

Aron er heill heilsu og klár í slaginn. Hann bendir svo óvænt úrslit sem áttu sér stað í keppninni í gær. 

„Ég er klár, ég er búinn að æfa vel síðan tímabilið kláraðist. Ég hlakka til leiksins á morgun. Maður hefur séð óvænt úrslit gerast á sumrin. Svíarnir unnu t.d Frakka og Andorra vann Ungverjaland. Við erum staðráðnir í að gera vel á morgun og koma þeim á óvart."

Aron var spurður út í Laugardalsvöll og hversu mikið það hjálpar að vera á heimavelli, áður en hann hélt áfram að tala um Króatana. 

„Í síðustu leikjum sem við höfum spilað hér, líður mér eins og ég sé ekki að fara að tapa. Það er eitthvað sem við höfum búið til og með þessa áhorfendur sem við finnum mikið fyrir, þó þeir séu langt frá okkur. Það er jákvætt að við náðum að gera Laugardalsvöll að gryfju. Það eru ekki mörg lið sem vilja koma hingað að spila við okkur á Laugardalsvelli."

„Króatarnir vilja vera með boltann og þeir geta sært lið ef þeir fá að hafa hann. Við höfum farið vel yfir þá og reynt að komast að því hvernig við eigum að spila gegn þeim. Við þurfum að vera klókir gegn þeim og hægja á leiknum þegar þess þarf. Við verðum að halda boltanum þegar við getum, en við vitum að við þurfum líka að falla til baka og verjast," sagði Aron Einar að lokum. 

Leikurinn fer fram kl. 18:45 á Laugardalsvelli annað kvöld og verður að sjálfsögðu gerð ítarleg skil hér á mbl.is sem og í Morgunblaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert