„Þeir hafa engar afsakanir“

Ragnar Sigurðsson heldur um hetjuna Hörð Björgvin Magnússon í kvöld.
Ragnar Sigurðsson heldur um hetjuna Hörð Björgvin Magnússon í kvöld. mbl.is/Golli

„Við vorum orðnir mjög pirraðir að tapa endalaust á móti þessum Króötum,“ sagði Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir frækinn 1:0-sigur Íslands á Króatíu í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Íslands gegn Króatíu.

„Þeir fengu eiginlega bara eitt færi þegar ég rann á rassgatið, ég veit ekki alveg hvað gerðist en þá spiluðu þeir í svæði sem ég skildi eftir mig. Þetta er augnablikin þar sem liðsfélagarnir þurfa að bjarga þér og þeir gerðu það. Króatar áttu nokkrar sóknir en við vorum bara „solid“ og biðum eftir okkar tækifærum. Við fengum fullt af hornum og aukaspyrnum og þetta hlaut bara að detta,“ sagði Ragnar.

Mikið var talað um fyrir leikinn að Króatar væru eitt besta lið heims, en sigur Íslands var sanngjarn.

„Ég mundi segja það, en þeir eru með ógeðslega góða gaura og það er enginn sem kemst nálægt [Luka] Modric þegar hann er með boltann. En í dag vorum við með betri liðsheild heldur en þeir og það er það sem skiptir máli í fótboltaleik,“ sagði Ragnar, en segir að Króatar hafi aldrei litið niður á íslenska liðið í leiknum.

„Mér fannst þeir vera tilbúnir í þetta, þeir vildu koma hingað til þess að vinna leikinn. Ég sá einhvern tímann að Modric var pirraður og að skamma strákana sína, svo ég held að þeir hafi alveg verið tilbúnir. Þeir hafa engar afsakanir, við bara tókum þá í dag og það var kominn tími til,“ sagði Ragnar, sem heldur nú í langþráð frí eftir langt tímabil.

„Það er frábært að fara inn í fríið með því að fá sigur, ég hef náttúrulega ekki fengið frí síðan einhvern tímann árið 2015 svo ég ætla að reyna að slaka aðeins á,“ sagði Ragnar Sigurðsson við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert