„Þú verður að spyrja men in black að því“

Milos Milojevic þjálfari Breiðabliks.
Milos Milojevic þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Þetta var svekkjandi, sérstaklega að tapa með síðustu spyrnu leiksins. Þetta var ekki gott nema þá að við lærum af þessu. En mér finnst við vera að læra of mikið af okkar eigin mistökum. Við eigum að geta lært af mistökum annarra,“ sagði Milos Milojevic þjálfari Breiðabliks eftir 1:2 tap gegn Val á heimavelli í kvöld.

Sjá frétt mbl.is: Dramatískt flautumark Vals í Kópavogi

„Þetta er eitthvað sem við eigum ekki að gera. Föst leikatriði í sókn og vörn eru ekkert annað en karaktersatriði. Þá er það eitthvað sem við verðum bara að vinna í.“

„Mér fannst Valsmennirnir sprækir. Við reyndum að snúa á þeirra spil með því að fá ferskar lappir inn á miðjuna til að stöðva spil þeirra en leikir þróast stundum öðruvísi en maður vill.“

„Þegar þeir skora þá náum við yfirhöndinni og erum líklegri til að skora en svo fáum við á okkur mark úr föstu leikatriði og það kostar okkur.“

Mark Vals kom í lok uppbótatímans. Fannst Milos að dómarinn ætti að vera búinn að flauta leikinn af?

„Þú þarft að spyrja men in black að því.“

En hvernig fannst þér dómarinn í dag?

„Dómarinn? Ég veit ekki um hvað þú ert að tala. Þeir eiga að minnsta kosti ekki skilið fría auglýsingu frá mér.“

Finnst Milos eins og hans bragur sé kominn á liðið?

„Það er auðvitað erfitt að meta út frá þessum leik. En það er margt sem er eins og ég vil hafa það en svo er líka annað sem verður að laga. Fótbolti er frekar eins og maraþon heldur en 100 m hlaup. Ég hef líka ekki verið að breyta öllu því það hefur verið unnið gott starf hér undanfarin ár. Ég er bara að reyna að laga akút vandamál og sjá hvert það leiðir okkur í lok tímabils.“

Milos segist ánægður með varnarleikinn í fyrri hálfleik. „Þeir fengu ekkert frá sínum hættulegustu mönnum, Acoff og Sigurði Agli og Bjarna Ólafi þangað til auðvitað sigurmarkið kom. Þetta var gott og eitthvað sem við þurfum að byggja á og eiga fleiri svona góð augnablik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert