„Dómarinn gat aldrei séð þetta“

Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks.
Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er svaka svekkjandi,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, við mbl.is eftir 1:1-jafntefli við KR í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Óskar Örn Hauksson jafnaði metin fyrir KR með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma en Tokic skoraði mark Blika í fyrri hálfleik.

„Tilfinningin hefði verið góð ef við hefðum jafnað en það er svakalega svekkjandi að fá á sig jöfnunarmark á síðustu sekúndunum,“ sagði Gunnleifur en vítaspyrnan var dæmd þegar talið var að hann hefði brotið á Guðmundi Andra Tryggvasyni. Spurður um það sagði Gunnleifur að dómarinn hefði aldrei getað séð meint brot:

„Strákurinn var klókur og skildi eftir lappirnar og ég henti mér niður eins og asni. Dómarinn gat aldrei séð þetta og dæmdi þetta eftir tilfinningu, það er ekki séns að hann hafi séð þetta,“ sagði Gunnleifur en að hans mati var Þóroddur Hjaltalín, dómari leiksins, staðsettur of langt frá því þegar Guðmundur Andri féll.

Markvörðurinn var heilt yfir ánægður með spilamennsku Blika í kvöld. „Við vorum á köflum að spila frábærlega og spiluðum þá á köflum sundur og saman. Við fengum fullt af færum en þeir fengu líka sín færi. Þetta var stál í stál en þetta er fyrst og fremst ógeðslega svekkjandi,“ sagði Gunnleifur en Blikar eru eftir leik í sjöunda sæti með 10 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert