Spilað þar sem pollar hirtu ekki boltann

Willum Þór Þórsson þjálfari KR.
Willum Þór Þórsson þjálfari KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég ætla byrja á að hrósa báðum liðum fyrir að reyna gera þetta að fótboltaleik því aðstæður voru býsna erfiðar,“  sagði Willum Þór Þórsson þjálfari KR eftir 1:1 jafntefli gegn ÍA á Skipaskaga í kvöld þegar 14. umferð efstu deildar karla í fótbolta, Pepsi-deild, fór fram.    

„Menn voru skynsamir og klókir í að spila þar sem það var hægt og pollarnir hirtu ekki boltann, sérstaklega öðru megin á vellinum þegar menn í öftustu línu þorðu ekki að spila boltanum enda endurspegla bæði mörkin þessar aðstæður þegar menn bara þruma inní teig og vita ekkert hvert boltinn fýkur. “

Skagamenn skoruðu rétt fyrir hálfleik og KR-ingar voru ólmir í að jafna eftir hlé.  „Við vorum að eltast við að jafna, sem einfaldaði vinnuna fyrir Skagamenn því það hentaði þeim ágætlega að boltinn væri í loftinu, útaf vellinum eða  bara einhvers staðar.  Það var því erfitt að eiga við þetta en við sköpuðum samt mikið og sárt að skora ekki lokin þegar Skagamenn bjarga á línu.  Gat reyndar ekki annað séð en þetta hafið verið löglegt mark hjá okkur í lokin.“

 Ef veðrið hjálpaði einhverjum, þá var það Skagamönnum

„Ég er mjög fúll yfir að fá ekki þrjú stig hér í dag,“  sagði Pálmi Rafn Pálmason fyrirliði KR eftir leikinn.   „Skagamenn eru skipulagðir og spiluðu uppá sína styrkleika, eru góðir í baráttubolta og  sterkir í tæklingum.  Svo var það veðrið, ef það hjálpaði einhverjum þá gerði það Skagamönnum í dag en það er sama, við erum á Íslandi og við eigum að geta spilað svona líka.  Fannst við reyndar gera það betur í seinni hálfleik.  Við náum svo marki og svo öðru sem mér fannst fullkomlega löglegt svo það er óþolandi að fara héðan með eitt stig þegar okkur finnst við eiga að taka þrjú.   Þetta var samt flottur leikur hjá Skaganum, við áttum í vandræðum með þá og ég er ekki að segja að við höfum verið eitthvað mikið betri en mér finnst að við hefðum átt að ná í þrjú stig.“

Eitt stig gerir helling, eitt stig lítið

„Mér skilst að ég hafi skorað markið,“  sagði Óskar Örn Hauksson eftir leikinn, spurður hver hefði jafnað en aukaspyrna hans af löngu færi endaði í marki ÍA og það dugði til jafna en kappinn var samt ekki mjög sáttur við annað.   

„Mér fannst aðstæður í dag ekki bjóða uppá mikið og leikurinn vargreinilega litaður af þeim, erfitt að koma boltanum í leik og erfitt gegn vindinum að koma boltanum aftur fyrir vörn þeirra svo þetta snerist meira um hver vildi meira.“ 

„Ég var ekkert smeykur en erfitt að fara í hálfleik með svona mark í andlitið rétt fyrir hálfleik. Við fórum svo með vindinn í bakið inn í seinni hálfleik og þeir þurftu að aðlaga sig að því.“ 

„Sigur hefði gert helling fyrir okkur og eitt stig gerir lítið. Við ætluðum að koma hingað og vinna leikinn, voru betra liðið að mínu mati en miðað við aðstæður held ég að jafntefli sé bara sanngjarnt þegar upp er staðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert