„Eins og við höfum ekkert gert á æfingum“

Milos Milojevic.
Milos Milojevic. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þú getur ekki alltaf skorað þrjú mörk eða fleiri til þess að vinna leik og það hefur verið okkur að falli í sumar,“ sagði Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks, við mbl.is eftir 2:1-tap Blika fyrir Víkingi R. í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Blikar lentu undir í fyrri hálfleik þegar Kristinn Jónsson fékk að líta sitt annað gula spjald á 38. mínútu. Hann fór þá í glæfralega tæklingu með spjald á bakinu. Var Milos ósáttur við það?

„Já, að sjálfsögðu. Maður sem er með reynslu eins og hann ekki að gera það en þetta gerist í hita leiksins og ég tek ekkert hausinn af honum,“ sagði Milos, sem hefði viljað fá meira út úr leiknum þrátt fyrir að vera manni færri.

„Ég er svekktur að fá ekkert úr úr leiknum því við stóðum okkur vel í um 70 mínútur. Eftir að við lentum manni undir þá get ég ekki sagt að þetta hafi verið ósanngjarnt, þeir voru að stjórna leiknum og við þurftum að reyna að stela einhverju úr þessum skyndisóknum. En við vorum ekki nógu ákveðnir þar og það er ekkert nýtt, það er eins og við höfum ekkert gert á æfingum og ég verð að taka það á mig,“ sagði Milos.

Geoffrey Castillion skoraði bæði mörk Víkinga og Milos var með svar á reiðum höndum yfir því hvað vantaði hjá hans liði í dag.

„Okkur vantar Geoffrey. Okkur vantar framherja sem getur gert gæfumunninn og Geoffrey gerði það. Ég get ekki sett neitt út á baráttuna, en það eru vissir hlutir í skipulaginu sem ég er ósáttur við og það er ekkert annað hægt að gera en að fara út á æfingasvæði og reyna að laga það. Ég reyni alltaf, en einhvern veginn ganga hlutirnir ekki með okkur og ég verð að kenna sjálfum mér um,“ sagði Milos.

Dómgæslan var nokkuð áberandi í leiknum en Milos vildi lítið tjá sig um hana.

„Dómgæslan var eins og hún hefur verið í sumar. Ef þú spyrð þá þá er þetta frábært og við þurfum að virða það. Þetta var ekki lélegra eða betra en það hefur verið í sumar og ég þarf að undirstrika það að dómarinn vann ekki leikinn fyrir þá,“ sagði Milos Milojevic við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert