Ætlaði ekki að vera dónalegur

Jonathan Hendrickx hleypur í átt að stuðningsmönnum FH eftir að …
Jonathan Hendrickx hleypur í átt að stuðningsmönnum FH eftir að hafa skorað, um leið og Gísli Eyjólfsson fagnar honum. mbl.is/Árni Sæberg

Jonathan Hendrickx, belgíski bakvörðurinn hjá Breiðabliki, kveðst vera leiður yfir því ef hann hafi reitt stuðningsmenn FH til reiði með því hvernig hann fagnaði eftir að hafa skorað þriðja mark Blika í 3:1 sigrinum á hans gamla félagi í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í Kaplakrika í kvöld.

Hendrickx, sem kom Blikum í 3:0 úr aukaspyrnu á 64. mínútu, hljóp í átt að stuðningsmönnum FH með fingur á munni og fékk gula spjaldið fyrir vikið hjá dómara leiksins, Ívari Orra Kristjánssyni.

„Ég bað þá um að sýna virðingu og vera rólegir,“ sagði Hendrickx við mbl.is þegar hann var spurður út í atvikið eftir leikinn.

„Ég fékk alls kyns skilaboð frá stuðningsmönnum FH á samfélagsmiðlunum í vetur og ég get alveg skilið að þeir hafi verið vonsviknir yfir því að ég skyldi semja við Breiðablik. Þeir kölluðu mig alls konar nöfnum, Júdas og fleira slíkt, og spurðu hvers vegna ég hefði farið og hvað hefði gerst.

En ég gerði alltaf mitt besta fyrir FH á meðan ég lék með liðinu. Á meðan leikurinn stóð yfir í kvöld heyrði ég sitt af hverju í minn garð úr stúkunni, og það sem ég gerði var að biðja þá um að sýna virðingu því þetta verður að virka í báðar áttir,“ sagði Hendrickx við mbl.is.

Ívar Orri Kristjánsson dómari sýnir Hendrickx gula spjaldið fyrir látbragð …
Ívar Orri Kristjánsson dómari sýnir Hendrickx gula spjaldið fyrir látbragð hans í átt að stuðningsmönnum FH. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég vil biðjast afsökunar og að það komi fram að mér þyki þetta leitt því ég ætlaði ekki að vera dónalegur í þeirra garð. Ég vona að þeir skilji mig. Ég hafði hug á að ræða við þá eftir leikinn en mér var bannað það! En þetta er bara hluti af leiknum, ég óska FH-ingum alls hins besta og vona að þeir skilji að ég ætlaði ekki að sýna þeim neina óvirðingu,“ sagði Belginn enn fremur.

Ætlaði mér að ná góðri tölfræði

Hann skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild hér á landi í kvöld. Hendrickx náði ekki að skora í 49 leikjum fyrir FH í deildinni en er kominn með mark strax í öðrum leik með Breiðabliki.

„Já, þetta er fyrsta deildarmarkið, og svo skoraði ég líka gegn ÍR í bikarnum í vikunni þannig að hún var ansi góð. Vonandi kemst þetta upp í vana hjá mér! Ég var ákveðinn í því fyrir tímabilið að ná góðri tölfræði, svo þessi byrjun er góð, stoðsending í fyrsta leik og mark hérna, þetta er góð tilfinning,“ sagði Hendrickx.

„Það var dálítið skrýtið að spila hérna í Kaplakrika í kvöld en núna leik ég fyrir Breiðablik og vil bara gera mitt besta fyrir liðið. Auðvitað er mark alltaf mark, við komum hingað til að vinna og gerðum það svo það var gott að ná í þrjú stig. Það munu ekki mörg lið sækja þrjú stig hingað í Kaplakrika í sumar.“

Einbeiti mér algjörlega að Breiðabliki

Hendrickx kom til Blika í vetur frá Leixoes í Portúgal, eftir hálft ár þar, og er á stuttum tíma búinn að skrifa undir tvo samninga við Kópavogsfélagið.

„Já, nú er ég með samning þar til í október 2020. Fyrst gerði ég eins árs samning en var síðan tilbúinn til að framlengja hann því þetta Breiðablikslið er sterkt, á möguleika á að komast í Evrópukeppni, og mér líður vel hjá því. Þriggja ára samningur er besta mál – í fótboltanum gerist margt hratt og Blikarnir vita að ég hef eftir sem áður áhuga á að spila aftur í öðru landi ef tækifæri býðst. En mér líður mjög vel hér á Íslandi svo það verður ekkert vandamál að vera hér í nokkur ár í viðbót. Nú einbeiti ég mér að því að standa mig vel hérna og ef eitthvað kemur upp þá munum við ræða það. En ég einbeiti mér algjörlega að Breiðabliki,“ sagði Hendrickx.

Hann er að vonum ánægður með byrjun Kópavogsliðsins á mótinu en það er eitt á toppnum eftir tvær umferðir.

„Já, þetta er frábær byrjun. Við spiluðum vel á undirbúningstímabilinu, og vorum staðráðnir í að byrja mótið vel. Nú eru komin sex stig og sjö mörk, og það er fín byrjun. Við þurfum að einbeita okkur betur að því að halda hreinu, við fengum á okkur eitt mark í hvorum leik, annað reyndar úr vítaspyrnu. En á meðan við skorum fleiri mörk en mótherjarnir er þetta í góðu lagi!“ sagði Jonathan Hendrickx við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert