Boltinn hrekkur oft eitthvað frá Gísla

Willum Þór Willumsson með boltann í leiknum gegn KR í …
Willum Þór Willumsson með boltann í leiknum gegn KR í kvöld. mbl.is/Hari

„Þetta voru tvö mjög góð lið að berjast. Mér fannst við óheppnir að ná ekki að stela þessu en kannski er þetta sanngjörn niðurstaða eftir allt saman,“ segir Willum Þór Willumsson sem skoraði mark Breiðabliks í 1:1-jafnteflinu við KR í Frostaskjóli í kvöld. Mbl ræddi við Willum og Óskar Örn Hauksson, fyrirliða KR.

Breiðablik er enn taplaust á toppi Pepsi-deildar karla í knattspyrnu, með 10 stig eftir fjóra leiki. KR var meira með boltann í kvöld en Blikar beittu skyndisóknum og úr einni slíkri kom mark Willums um miðjan seinni hálfleik.

„Þeir eru með gott lið og góða leikmenn. Við bara vörðumst vel og vorum búnir að ákveða fyrir leikinn að sækja hratt á þá, sem mér fannst við gera ágætlega. Við vorum bara óheppnir að skora ekki fleiri,“ segir Willum, sem átti fína spretti í leiknum auk þess að skora markið mikilvæga:

„Já, já. Ég er ánægður með sjálfan mig. Þetta var bara flottur leikur bæði hjá mér og liðinu. Það var gott að skora. Ég sá að Gísli [Eyjólfsson] var með boltann og þegar hann er með boltann þá hrekkur hann stundum eitthvert, svo ég ákvað bara að taka sénsinn og boltinn hrökk í gegn. Sem betur fer náði ég að klára færið.“

Markið klaufalegt af okkar hálfu

„Mér fannst þetta ágætur leikur,“ segir Óskar við mbl.is. „Völlurinn er auðvitað ekkert sérstakur en það sem við lögðum upp með fannst mér takast ágætlega. Heilt yfir fannst mér við stjórna leiknum, þó að þeir hafi fengið sínar skyndisóknir eins og gengur og gerist í fótbolta, en það eru vonbrigði að taka ekki þrjú stig á heimavelli,“ segir Óskar. Hann lagði upp jöfnunarmark KR með stórkostlegri sendingu tveimur mínútum eftir að Willum skoraði.

Óskar Örn Hauksson sækir að Gísla Eyjólfssyni í Frostaskjólinu í …
Óskar Örn Hauksson sækir að Gísla Eyjólfssyni í Frostaskjólinu í kvöld. mbl.is/Hari

„Við vitum að þeir eru góðir í skyndisóknum og þeir áttu 2-3 hættuleg upphlaup, þrátt fyrir að markið þeirra hafi mér fundist klaufalegt af okkar hálfu. Það er sterkt að hafa komið til baka en ég hefði viljað ná einu marki í viðbót,“ segir Óskar. KR er nú með fimm stig eftir fyrstu fjóra leiki sína á tímabilinu.

„Þetta er bara að byrja. Við erum búnir að eiga hörkudagskrá og spila gegn þremur bestu liðum landsins; Val, Stjörnunni og Breiðabliki. Það er ekkert gefið í þessu. Við hefðum bara viljað vera með þrjú stig eftir leikinn í dag,“ segir Óskar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert